Home / Fréttir / Yuval Noah Harari: Mesta hættan er ekki í veirunni sjálfri

Yuval Noah Harari: Mesta hættan er ekki í veirunni sjálfri

Yuval Noah Harari.
Yuval Noah Harari.

Í fyrra kom bókin Sapiens – mannkynssaga í stuttu máli eftir prófessor Yuval Noah Harari út á íslensku. Hann hefur ritað fleiri metsölubækur, meðal annars um þróun mannlífs á 21. öldinni. Hér í þessu viðtali sem Anna Carthaus tók fyrir þýsku fréttastofuna Deutsche Welle (DW) lýsir Harari viðhorfi sínu til aðgerða vegna COVID-19-faraldursins og áhrifa hans á framvindu sögunnar. Viðtalið birtist á ensku á vefsíðu DW miðvikudaginn 22. apríl.

 

DW: Prófessor Harari, við erum í miðjum heimsfaraldri. Þegar litið er til breytinga á heiminum hvað ber þá hæst í þínum huga?

Yuval Noah Harari: Að mínu mati felst mesta hættan ekki í veirunni sjálfri. Mannkynið ræður yfir nægri vísindaþekkingu og tæknilegum úrræðum til að sigrast á veirunni. Stóri vandinn er okkar innri púki, hatur okkar, græðgi og vanþekking. Ég óttast að fólk bregðist ekki við þessu hættuástandi með hnattrænni samstöðu heldur hatri, ásökunum í garð annarra þjóða, ásökunum í garð þjóðernislegra og trúarlegra minnihlutahópa.

Ég vona hins vegar að okkur takist að þróa samkennd okkar en ekki hatur, að brugðist verði við með hnattrænni samstöðu sem stuðli að góðvild okkar í garð þeirra sem þarfnast hjálpar. Og að við eflum getu okkar til að greina sannleikann en trúum ekki öllum samsæriskenningunum. Gerum við það efast ég ekki um að við getum auðveldlega sigrast á krísunni.

DW: Þú hefur sagt að við stöndum á milli vals á alræðis-eftirliti og eflingu einstaklinga. Sýnum við ekki aðgæslu kunni faraldurinn að marka þáttaskil í sögu eftirlits. En hvernig get ég sýnt varúð vegna einhvers sem er ekki á mínu valdi?

Harari: Það er ekki utan valds þíns, að minnsta kosti ekki í lýðræðisríki. Þú kýst ákveðna stjórnmálamenn og flokka sem ráða ferðinni. Þú hefur því einhver tök á stjórnmálakerfinu. Jafnvel þótt ekki sé gengið til kosninga núna bregðast stjórnmálamenn við þrýstingi almennings.

Sé almenningur haldinn ofsahræðslu við faraldurinn og vilji að sterkur leiðtogi komist til valda auðveldar það einræðisherra einmitt að ná sínu fram, það er að fá völdin í sínar hendur. Gerist það hins vegar að almenningur snúist gegn stjórnmálamanni sem ætlar að ganga of langt kann það að stöðva hættulega þróun.

DW: Hvernig veit ég hverjum eða hverju má treysta?

Harari: Í fyrsta lagi, þú býrð að eigin reynslu. Ef þú veist um stjórnmálamenn sem hafa logið að þér í nokkur ár er lítil ástæða til að treysta þeim við þessar neyðaraðstæður. Í öðru lagi, þú getur spurt spurninga um kenningarnar sem fólk heldur að þér. Setji einhver fram samsæriskenningu um upphaf og útbreiðslu kórónaveirunnar skaltu biðja hann að skýra fyrir þér hvað sé veira og hvernig hún geti valdið sjúkdómum. Hafi hann enga skýringu á reiðum höndum og skorti þess vegna grunn-fræðilega þekkingu skaltu ekki trúa neinu öðru sem þessi manneskja segir þér um kórónuveiru-faraldurinn. Þú þarft ekki að hafa doktorspróf í líffræði. Á hinn bóginn verða menn að búa yfir einhverjum grunn-fræðilegum skilningi á þessu öllu saman.

Undanfarin ár höfum við orðið vitni að því þegar pópúlískir stjórnmálamenn ráðast á vísindin og segja að vísindamenn séu fjarlæg elíta án tengsla við almenning, segja að til dæmis loftslagsbreytingarnar séu ekki annað en uppspuni, þú skalt ekki trúa þeim. Nú þegar þessi hætta steðjar að öllum heiminum sjáum við að fólk treystir vísindum betur en nokkru öðru.

Ég vona að við gerum þetta ekki aðeins í þessari krísu heldur einnig eftir að henni er lokið. Að við gætum þess að veita námsmönnum góða vísindalega menntun í skólum um veirur og hvernig þær þróast. Og einnig þegar vísindamenn flytja okkur varnaðarorð um aðra hluti en farsóttir, eins og loftslagsbreytingar og umhverfisvá, tökum við mark á þeim af jafnmikilli alvöru og við gerum nú þegar þeir fræða okkur um kórónuveiru-faraldurinn.

DW: Í mörgum löndum hefur verið gripið til stafrænna eftirlitskerfa til að koma í veg fyrir útbreiðslu veirunnar. Hvernig er unnt að hafa stjórn á þessum kerfum?

Harari: Í hvert skipti sem gripið er til herts eftirlits með borgurum einhvers lands ætti jafnframt að herða eftirlitið með stjórnvöldum sama lands. Í krísum minnir fjáraustur stjórnvalda á vatnsaustur. Í Bandaríkjunum 2 trilljónir dollara. Í Þýskalandi hundruð milljarða evra og svo framvegis. Sem borgari vil ég vita hver tekur þessar ákvarðanir og hvert peningarnir fara. Er féð notað til að létta skuldum af stórfyrirtækjum sem áttu í vanda áður en faraldurinn hófst vegna rangra ákvarðana stjórnenda þeirra? Eða er féð notað til að aðstoða smáfyrirtæki, veitingastaði og verslanir svo að eitthvað sé nefnt?

Vilji ríkisstjórn ólm auka eftirlit á eftirlitið að verða gagnkvæmt. Segi ríkisstjórnin, bíddu, það er of flókið, við getum einfaldlega ekki sagt frá öllum fjármálalegum fyrirgreiðslum, skalt þú segja: „Nei, það er ekki of flókið. Á sama hátt og þú getur komið á fót risavöxnu eftirlitskerfi til að fylgjast með daglegum ferðum mínum, ætti að vera auðvelt fyrir þig að koma á fót kerfi sem sýnir hvað þú gerir við skattfé mitt.“

DW: Í þessu felst að valdi sé dreift og komið í veg fyrir að það safnist á hendur eins manns eða yfirvalds?

Harari: Hárrétt. Nú eru gerðar tilraunir með að láta þá vita sem hafa verið nálægt einhverjum smituðum af kórónaveirunni. Það má gera þetta á tvennan hátt: Ein leið er að koma á fót einni stjórnstöð sem safnar upplýsingum um alla og finnur síðan út að þú hafir verið nálægt einhverjum með COVID-19 og gerir þér viðvart. Önnur aðferð er að láta síma hafa beint samband sín á milli án neins miðlægs aðila sem safnar öllum upplýsingunum. Gangi ég nærri einhverjum með COVID-19 talar sími hans eða hennar við minn síma og ég fæ viðvörunina. Enginn miðlægur opinber aðili safnar öllum þessum upplýsingum og eltir alla.

DW: Nú er talað um að hugsanlega megi ganga skrefi lengra vegna þess hættuástands sem ríkir, að taka upp það sem kalla má innan-húðar-eftirlit. Þá er farið inn fyrir húðina sem hingað til hefur verið talin ósnertanleg. Hvernig getum við varnað því?

Harari: Þarna ættum við að stíga ákaflega varlega til jarðar. Utan-húðar-eftirlit felst í því að fylgjast með ferðum þínum, hverja þú hittir, á hvað þú horfir í sjónvarpi eða hvert þú ferð á netinu. Það er utan líkama þíns. Með innan-húðar-eftirliti er fylgst með því hvað gerist í líkama þínum. Það hefst með því að mæla líkamshita þinn, síðan má skoða blóðþrýstinginn, hjartsláttinn, heilastarfsemina. Sé þetta gert má afla miklu, miklu meiri vitneskju um fólk en nokkru sinni áður.

Það er unnt að stofna til meiri alræðisstjórnar en áður hefur verið gert í sögunni. Vitir þú hvað ég les eða horfi á í sjónvarpi gefur það þér einhverja hugmynd um listrænan smekk minn, pólitískar skoðanir og persónuleika. Þetta er samt takmarkað. Veltu á hinn bóginn fyrir þér hvað gerist ef þú getur mælt líkamshita minn eða blóðþrýsting á líðandi stundu og hvernig hjartslátturinn breytist við lestur einhverrar greinar eða þegar ég horfi á efni á netinu eða í sjónvarpi. Þá veist þú hvernig mér líður á hverju andartaki. Með því væri auðveldlega unnt að skapa ógnvekjandi alræðisstjórnir.

Þetta er ekki óhjákvæmilegt. Við getum hindrað að þetta gerist. En til þess að hindra að það gerist verðum við í fyrsta lagi að átta okkur á hættunni og í öðru lagi að gæta að því hvað við leyfum að gerast í þessu neyðarástandi.

DW: Veldur krísan núna því að þú endurmetur hugmynd þína um mannkynið á 21. öldinni?

Harari: Við vitum það ekki vegna þess að það veltur á ákvörðunum sem við tökum núna. Hættan á að til verði gagnslaus stétt eykst raunar dramatískt vegna núverandi efnahagskrísu. Við sjáum nú að sjálfvirkni eykst, að vélmenni og tölvur koma æ víðar í stað vinnandi fólks vegna þess að fólkið er knúið til að halda sig heima, fólk getur smitast en ekki vélmenni. Við kunnum að sjá að ríki ákveði að flytja einhverja starfsemi aftur til sín í stað þess að treysta á verksmiðjur annars staðar. Vegna sjálfvirkni og and-hnattvæðingar kunna einkum þróunarlönd þar sem vinnuafl er ódýrt að glíma við vanda vegna stórs, gagnslauss hóps manna sem missir atvinnu sína því að störfin hafa orðið sjálfvirkni að bráð eða verið flutt annað.

Þetta getur einnig gerst í ríku löndunum. Krísan veldur stórfelldum breytingum á vinnumarkaði. Fólk vinnur að heiman. Fólk vinnur á netinu. Sýnum við ekki aðgát gæti þetta leitt til þess félagsbundið vinnuafl verði að engu, að minnsta kosti í nokkrum atvinnugreinum. Þetta er þó ekki óhjákvæmilegt. Þetta er pólitísk ákvörðun. Við getum ákveðið að vernda rétt verkafólks í landi okkar, eða um heim allan, við þessar aðstæður. Ríkisstjórnir veita atvinnufyrirtækjum fyrirgreiðslu til að bjarga þeim frá þroti. Þær geta sett sem skilyrði að fyrirtækin gæti réttinda starfsmanna sinna. Þetta snýst í raun allt um hvaða ákvarðanir við tökum.

DW: Hvað munu framtíðarsagnfræðingar segja um þennan tíma?

Harari: Ég held að framtíðarsagnfræðingar líti á þetta sem þáttaskil í sögu 21. aldarinnar. Hver skilin verða er þó undir ákvörðunum okkar komið. Þar er ekkert óhjákvæmilegt.

Prófessor Yuval Noah Harari er höfundur bókanna: Sapiens – mannkynssaga í stuttu máli, Homo Deus og 21 lærdómur fyrir 21. öldina. Félag hans Sapienship gaf 1 milljón dollara til Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar eftir að Bandaríkjaforseti ákvað að hætta að borga til hennar.

 

 

Skoða einnig

Úkraínuher segist hafa grandað rússnesku herskipi við Eystrasalt

Úkraínuher hefur tekist til þess að sökkva eða valda tjóni á 22 rússneskum herskipum á …