Home / Fréttir / Rússar sakaðir um tölvuárás á Tékka – reiði vegna brotinnar styttu sovésks marskálks

Rússar sakaðir um tölvuárás á Tékka – reiði vegna brotinnar styttu sovésks marskálks

Styttan af Ivan Konev bíður brottflutnings.
Styttan af Ivan Konev bíður brottflutnings.

Fyrr í þessum mánuði sögðu tékkneskir embættismenn að upplýsingatækni-kerfi (UT-kerfi) á alþjóðaflugvellinum við Prag, nokkrum sjúkrahúsum og heilbrigðisráðuneytinu hefðu orðið fyrir árás. Olli þetta mikilli reiði stjórnvalda í Prag – og einnig í Washington.

Tékkneska innanríkisráðuneytið sagði 22. apríl að einnig hefði verið ráðist á UT-kerfi sín. Tekist hefði að verjast öllum þessum árásum vegna tímanlegra viðvarana frá netöryggisstofnun landsins (NUKIB) sem sagt hefði að vænta mætti árása á lykil-UT-kerfi landsins.

Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, lýsti 17. apríl áhyggjum vegna þessara atvika, þeir sem fyrir slíkum árásum stæðu gætu vænst þess að þær „hefðu afleiðingar“. Hann sagði sérstakt áhyggjuefni að gerð hefði verið árás á heilbrigðisstofnanir í miðri glímunni við COVID-19.

Rússneska sendiráðið í Prag neitaði 17. apríl allri rússenskri aðild að árásunum þótt tékkneskir embættismenn hefðu sett fram ásakanir í þá veru.

NUKIB, netöryggisstofnun Tékklands, sagði að „alvöru og háþróaður andstæðingur“ hefði staðið að árásunum en nefndi ekki neitt land til sögunnar.

Miroslav Dvorak, tæknistjóri hjá netöryggisfyrirtækinu ESET í Slóvakíu, sagði að fyrst hefði orðið vart við árásarveiruna í janúar 2020. Hún kallast MBR Locker og fannst í Rússlandi og Kína í byrjun janúar 2020. Þá hefði hún ekki verið tengd við neina öryggisógn.

Árásarveiran er notuð til að skemma eða eyðileggja tölvubúnað þess sem á er ráðist segir Dvorak og að hún tengist hugsanlega Rússum. Ekki sé unnt að slá neinu föstu en tólið sem notað var til að smíða MBR Locker sé á rússnesku. Sama sé að segja um notkunarreglur og þær megi finna á síðum sem rússneskir hakkarar noti. Þá hafi stafræna slóðin legið til IP-talna í Kína.

Tékkneska innanríkisráðuneytið sagði að árásirnar á UT-kerfi ráðuneytisins hefðu frekar miðað að því að finna veika bletti en að stöðva kerfin. Það væri hins vegar ekki unnt að segja um árásirnar á Vaclav Havel-flugvöll og sjúkrahúsin.

Tékkneska netöryggisstofnunin á náið samstarf við bandarísku alríkislögregluna FBI auk annarra erlendra samstarfsaðila. Þess vegna blandaði Mike Pompeo sér í málið.

Í fyrra sagði NUKIB að Rússar og Kínverjar ógnuðu mest netöryggi Tékka. Þá hefðu Kínverjar gert stóra tölvuárás á lykilstofnun tékkneska ríkisins. Öryggislögregla Tékka leysti í október 2019 upp rússneskan njósnahring sem var ætlað að gera tölvuárásir á Tékka og bandamenn þeirra. Njósnahringurinn naut stuðnings rússneska sendiráðsins í Prag og rússnesku öryggislögreglunnar, FSB.

Mikil spenna

Tölvuárásirnar eru gerðar á tíma mikillar spennu í samskiptum rússneskra og tékkneskra stjórnvalda, einkum eftir að umdeild stytta af sovéskum marskálki var tekin af stalli sínum í Prag 3. apríl 2020.

Um er að ræða marskálkinn Ivan Konev sem stjórnaði liðsmönnum Rauða hersins sem ráku nazista á brott frá stærstum hluta Tékkóslóvakíu í síðari heimsstyrjöldinni. Ráðamenn í Moskvu líta á það sem móðgun og tilraun til að endurrita söguna að styttan af Konev sé send á brott frá Prag.

Styttan var reist árið 1980 en Konev lét einnig að sér kveða árið 1956 þegar Sovétmenn sendu herafla gegn Ungverjum og börðu niður uppreisn þeirra gegn kommúnistum auk þess sem hann átti hlut að því að Berlínamúrinn reis árið 1961. Í hugum margra Tékka er Konev táknmynd sovéska kúgunartímans í Tékklandi.

Ondrej Kolar, borgarstjóri í sjötta hverfi Prag, þar sem Konev-styttan stóð er nú undir lögregluvernd af ótta við að rússneskir launmorðingjar reyni að granda honum.

Þá hefur það ekki orðið til að milda afstöðu Rússa í garð Tékka að þeir ákváðu nýlega nýtt nafn á torginu í Prag fyrir framan rússneska sendiráðið. Nú er það kennt við Boris Nemtsov, fyrrv. varaforsætisráðherra Rússlands, sem var skotinn til bana í febrúar 2015 skammt frá múrum Kremlarkastala í Moskvu. Hann hikaði ekki við að gagnrýna Vladimír Pútín Rússlandsforseta opinberlega.

Stuðningur Zemans

Hvað sem líður spennu í tvíhliða samskiptum ríkjanna geta Rússar reitt sig á stuðningsmann í Prag, engan annan en Milos Zeman, forseta Tékklands, sem tók undir þegar Kremlverjar kvörtuðu undan brotthvarfi Konev-styttunnar og sagði aðgerðina „misnotkun á neyðarástandinu“ vegna COVID-19 í Tékklandi.

Zeman gagnrýndi á sínum tíma að Rússar sættu refsiaðgerðum vegna innlimunar Krímskaga og fyrir ýta undir átök í austurhluta Úkraínu þar sem meira en 13.000 hafa fallið frá upphafi átakanna í apríl 2014.

Á árinu 2016 tók Zeman undir skoðanir þeirra sem vildu þjóðaratkvæðagreiðslur um aðild Tékklands annars vegar að NATO og hins vegar að ESB. Hann lét þess þó jafnframt getið að hann vildi hvorugri aðildinni rifta.

Árið 2015 tók Zeman þátt í hátíðarhöldum í Moskvu til að fagna 70 ára afmæli loka síðari heimsstyrjaldarinnar. Hann hafði með því að engu að enginn annar vestrænn leiðtogi lét sjá sig við hátíðarhöldin í mótmælaskyni við aðgerðir Rússa í Úkraínu.

Sérfróðir telja að Zeman hafi notið stuðnings Kremlverja árið 2018 þegar hann bauð sig fram til endurkjörs. Málstaður hans er sagður bera keim af lýðskrumi og útlendingahatri.

Heimeild: RFE/RL

Skoða einnig

Ísraelar hvattir til stillingar – þeir segjast taka eigin ákvarðanir

David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands, sagði 17. apríl að loknum fundum með forsætisráðherra og utanríkisráðherra Ísraels …