Lög Varðbergs, samþykkt á stofnfundi Hótel Sögu 9. desember 2010.
Varðberg –
samtök um vestræna samvinnu og alþjóðamál
1. grein.
Heiti samtakanna er Varðberg – samtök um vestræna samvinnu og alþjóðamál.
2. grein.
Heimili og varnarþing er í Reykjavík.
3. grein.
Tilgangur Varðbergs er:
1. Að beita sér fyrir umræðum og kynningu á alþjóðamálum, einkum þeim þáttum þeirra sem snúa að öryggis- og varnarmálum á norðurhveli jarðar.
2. Að efla skilning á gildi lýðræðislegra stjórnarhátta.
3. Að vinna að kynningu á samstarfi og menningu þjóða, sérstaklega störfum og stefnu Atlantshafsbandalagsins.
4. Að hafa samstarf við hliðstæð félög erlendis, eftir nánari ákvörðun stjórnar samtakanna.
Varðberg er aðili að Atlantic Treaty Association (ATA) og Young Atlantic Treaty Association (YATA)
4. grein.
Tilgangi sínum hyggst Varðberg ná:
1. Með fundum, málstofum og ráðstefnum með innlendum og erlendum fyrirlestrum.
2. Með samvinnu við háskóla og menntaskóla, rannsóknastofnanir, félög og hugveitur innan lands og utan.
3. Með þátttöku í Atlantic Treaty Association og Young Atlantic Treaty Association (YATA)
4. Með útgáfustarfi.
5. grein.
Félagar geta þeir orðið er styðja vilja markmið samtakanna, sækja um þátttöku, hljóta samþykki stjórnar og greiða árgjald til Varðbergs, óháð því hvar á landinu þeir eru búsettir.
6. grein.
Aðalfundur hefur æðsta vald í málefnum félagsins.
Aðalfundur skal haldinn að hausti annað hvort ár. Hann skal boðaður með sjö daga fyrirvara á rafrænan hátt með bréfi til félagsmanna. Hver félagsmaður sem greitt hefur árgjald til félagsins hefur rétt til setu á aðalfundi. Dagskrá aðalfundar er:
1. Starfsskýrsla stjórnar.
2. Samþykkt reikninga.
3. Lagabreytingar.
4. Stjórnarkjör (sbr. 7. gr.).
5. Kjör skoðunarmanna.
6. Ákvörðun árgjalds.
7. Önnur mál.
7. grein.
Stjórn Varðbergs skal skipuð sjö mönnum. Formaður skal kjörinn sérstaklega. Stjórnin skiptir með sér verkum. Stjórnarfundir eru lögmætir sæki meirihluti stjórnarmanna fund. Stjórnin skipar nefndir ef þörf gerist til að sinna einstökum verkefnum.
8. grein
Lögum þessum verður aðeins breytt á aðalfundi, enda hafi tillögur til lagabreytinga verið sendar stjórn félagsins 7 dögum fyrir fund eða hún samþykkt að leggja tillögu að lagabreytingum fyrir fundinn. Skal kynna tillögur í fundarboði. Tvo þriðju hluta atkvæða þarf á aðalfundi til að lagabreytingar nái fram að ganga.
Ákvæði til bráðabirgða:
Stofnfélagar eru þeir sem tilheyra félögunum Samtök um vestræna samvinnu og alþjóðamál (SVS) og Varðbergi, félagi ungra áhugamanna um vestræna samvinnu og þeir, sem sækja stofnfundinn.