
Bandaríkjastjórn tilkynnti fimmtudaginn 23. apríl að hún ætlaði að veita Grænlendingum 12,1 milljón dollara (1,7 ma.isk) efnahagsaðstoð í því skyni að styrkja gagnkvæm tengsl Bandaríkjanna og Grænlands.
Grænlenska stjórnin, Nalakkersuisut, segir í fréttatilkynningu að hún taki við efnahagsaðstoðinni, segir KNR, grænlenska útvarpið.
Styrkurinn verður ekki sendur beint til ráðstöfunar hjá grænlenskum yfirvöldum heldur koma Bandaríkjamenn að ákvörðunum um hvernig honum verður varið. Lögð er áhersla að þær verði teknar með vísan til gildandi samninga milli Grænlendinga og Bandaríkjamanna. Stjórnvöld beggja landa verða því að vera sammála um að verkefni sé styrkhæft áður en greiðsla er innt af hendi.
Í tilkynningu grænlensku stjórnarinnar segir Kim Kielsen, formaður Nalakkersuisut: „Það er jákvætt að aukið samstarf Grænlands og Bandaríkjanna birtist áþreifanlega í stuðningi til verkefna á Grænlandi.“
Anja Chemnitz Larsen, sem situr á Folketinget, þinginu í Kaupmannahöfn fyrir grænlenska flokkinn IA, segir að almennt sé Bandaríkjamönnum velkomið að veita efnahagsaðstoð og fjárfesta á Grænlandi. „En við skulum ekki vera eins og börn. Það er mikilvægt að fá það á hreint hvort Grænlendingar eigi á nokkurn hátt Bandaríkjamönnum skuld að gjalda.“
Ræðisskrifstofa
Kim Kielsen telur að efnahagsaðstoðin sé til marks um að samvinna þjóðanna beri ávöxt. Í júní 2019 gerði Naalakkersuisut samning við bandaríska utanríkisráðuneytið. Í ár er stefnt að því að sjö starfsmenn verði í ræðisskrifstofu Bandaríkjanna í Nuuk sem opnuð var í maí 2019.
Sung Choi, ræðismaður Bandaríkjanna, í Grænlandi sagði í símtali við Jyllands-Posten (JP) fimmtudaginn 23. apríl að bandaríska féð yrði notað til að vinna að námu- og olíuvinnsluverkefnum en auk þess til að efla enskukennslu og ferðaþjónustu. Bandaríska þróunarstofnunin USAID kemur að ráðstöfun fjárins.
Carla Sands, sendiherra Bandaríkjanna í Kaupmannahöfn, segir að þegar hún bjó sig undir að taka við sendiherraembættinu hefði hún einsett sér að bandarísk ræðisskrifstofa yrðin opnuð að nýju á Grænlandi. Fyrri skrifstofu sinni lokuðu Bandaríkjamenn árið 1953 en hún var opnuð í síðari heimsstyrjöldinni.
Gagnrýni
Sumir gagnrýnendur þessa framtaks Bandaríkjastjórnar setja það í samband við það sem Donald Trump Bandaríkjaforseti sagði í fyrra um að Bandaríkjamenn vildu kaupa Grænland.
Jon Rahbek-Clemmensen, lektor við Forsvarsakademiet, háskóla danska hersins, segir við JP að áhugi Bandaríkjamanna á Grænlandi aukist en varla sé unnt að líta á efnahagsaðstoðina sem aðför að danska ríkjasambandinu.
„Ríkjasambandið er mjög hagkvæmt fyrir Bandaríkjamenn, í raun er Bandaríkjastjórn heimilt að gera það sem hún vill hernaðarlega á Grænlandi en án þess að þurfa að fjármagna velferðarríki á heimskautaslóðum,“ segir Jon Rahbek-Clemmensen lektor.