
Joe Biden Bandaríkjaforseti tilnefndi í febrúar 2022 lögfræðinginn Carrin F. Patman frá Houston í Texas til að verða sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi. Hún kynnti sig og markmið sín sem sendiherra fyrir utanríkismálanefnd öldungadeildar Bandaríkjaþings fimmtudaginn 28. júlí 2022. Að fengnu samþykki nefndarmanna verður skipun hennar sem sendiherra staðfest.
Í ræðu sem Carrin F. Patman flutti fyrir nefndinni þakkaði hún forsetanum og Antony Blinken utanríkisráðherra tilnefninguna sem hefði sérstakt gildi fyrir sig þar sem hún hefði alist upp í fjölskyldu sem gegnt hefði opinberum trúnaðarstörfum. Bill Patman, faðir hennar, og Wright Patman föðurafi sátu báðir í fulltrúadeild Bandaríkjaþings. Móðurafi hennar, Fred Mauritz, sat í öldungadeild Texas-þings en foreldrar hans voru innflytjendur frá Svíþjóð til Bandaríkjanna. Norrænn uppruni móður hennar hefði verið henni svo ofarlega í huga að hún aflaði fjár til að skapa sænskan öndvegisstyrkjasjóð við Texas-háskóla og var heiðruð af Svíakonungi með orðu.
Carrin F. Patman sagði sig vera tilnefnda til að þjóna sem sendiherra á alvarlegum tíma og það á Íslandi sem hefði lengi verið mikilvægt og mikils metið bandalagsríki Bandaríkjanna. Ísland væri öflugt lýðræðisríki sem stæði á sambærilegum grunnstoðum og Bandaríkin, eitt af stofnríkjum NATO sem átt hefði öryggissamstarf við Bandaríkin í meira en 70 ár. Það væri norðurskautsríki eins og Bandaríkin og hefðu Bandaríkjamenn lengi átt samstarf við Íslendinga um norðurslóðamál. Landið hefði mikið geóstrategískt gildi fyrir Bandaríkin og heiminn allan þegar ríkin stæðu saman frammi fyrir alvarlegum ógnum frá öðrum ríkjum.
Hún taldi að reynsla sín og störf sem lögfræðingur og nú síðast sem stjórnandi samgöngustofnunar í Houston þar sem opinberir og einkaaðilar störfuðu saman að því að stórauka þjónustu sína væru góður undirbúningur vegna embættisins sem hún ætlaði nú að gegna.
Hún sagðist fagna því mjög að hafa verið tilnefnd til að þjóna á Íslandi. Bandaríkjamenn og Íslendingar ættu samstarf um mörg mikilvæg mál, þar mætti nefna öryggi þjóðanna beggja vegna Atlantshafs, varðstöðu um mannréttindi, baráttu gegn loftslagsbreytingum og sjálfbæra þróun á norðurslóðum (e. Arctic). Hlyti hún staðfestingu nefndarinnar mundi hún setja eftirfarandi málefni í forgang:
Í fyrsta lagi, að tryggja vernd og öryggi bandarískra ríkisborgara á Íslandi, þar á meðal starfsliðs sendiráðsins og fjölskyldna þeirra og bandarískra ferðamanna. Fleiri ferðamenn sæki Ísland heim frá Bandaríkjunum en nokkru öðru landi.
Í öðru lagi, að leggja rækt við sameiginlega öryggishagsmuni þjóðanna. Lykilstaða Íslands beint á milli Norður-Ameríku og Evrópu og mitt á mikilvæga hafsvæðinu frá Grænlandi um Ísland til Bretlands (GIUK-hliðinu) skipti jafnvel meira máli núna þegar ísbráðnun leiddi til meiri skipaferða á norðurslóðum. Stjórnendur Rússlands og Alþýðulýðveldisins Kína átti sig á strategísku mikilvægi Íslands, bæði efnahagslegu og hernaðarlegu. Yrði tilnefning sín staðfest sagðist Carrin F. Patman ætla að vinna að því að dýpka öryggissamstarfið við Íslendinga og styðja Íslendinga við að takast á við verkefni á þessu sviði.
Í þriðja lagi ætlar Carrin F. Patman að vinna að auknum efnahagslegum samskiptum þjóðanna. Bandaríkin séu mikilvægasta viðskiptaland Íslendinga sé litið til einstakra ríkja. Það séu enn mikilvæg tækifæri til að auka viðskipti og fjárfestingar.
Í fjórða lagi skipti framlag Íslendinga miklu til að efla sjálfbærni jarðar, land þeirra sé ekki aðeins mikilvægt vegna rannsókna og til að auka skilning á loftslagsþróun heldur gegni þjóðin forystuhlutverki við nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa eins og vatns og jarðhita og sé brautryðjandi við geymslu kolefnis.
Í fimmta lagi eigi Ísland aðild að Norðurskautsráðinu eins og Bandaríkin og Íslendingar komi þannig að mótun norðurskautsstefnu, þess vegna sé mikilvægt að vinna náið með þeim á þessu sviði.
Þar að auki sagðist Carrin F. Patman ætla að efla tengslin milli þjóðanna með svonefndum skipti-áætlunum [það er t.d. Fulbright-áætluninni] auk þess sem sendiráðið léti verulega að sér kveða. Þá vænti hún samstarfs við Bandaríkjaþing um að vinna frekar að bandarískum forgangsmálum gagnvart Íslandi.
Það yrði hennar mesti heiður á lífsleiðinni að fá tækifæri til að þjóna sem sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi.