Home / Fréttir / Ítalía: Sótt að Salvini vegna Pútin-tengsla

Ítalía: Sótt að Salvini vegna Pútin-tengsla

Matteo Salvini í Pútin-bolnum.

Rússatengsl ítalska stjórnmálamannsins Matteos Salvinis eru enn á ný í sviðsljósinu vegna fréttar sem birtist í dagblaðinu La Stampa, fimmtudaginn 28. júlí um að fulltrúi rússneska sendiráðsins í Róm hefði hitt einn af aðstoðarmönnum Salvinis í maí til að grennslast fyrir um hvort nokkur af ráðherrum Lega-flokks Salvinis í stjórn Marios Draghis ætlaði að biðjast lausnar.

Ráðherrar flokksins báðust lausnar á dögunum ásamt ráðherrum úr Forza Italia-flokki Silvios Berlusconis og Fimm-stjörnu-hreyfingunni. Draghi baðst lausnar fyrir stjórn sína og boðaði til kosninga í september.

Fundur ráðgjafa Salvinis og rússneska sendiráðsmannsins er sagður hafa verið haldinn á sama tíma og Salvini sætti gagnrýni fyrir að fylgja eigin utanríkisstefnu gagnvart Rússum vegna stríðsins í Úkraínu.

Hann undirbjó ferð til Moskvu til að leggja grunn að friðarviðræðum. Rússneska sendiráðið í Róm keypti flugfarseðlana og sögðu aðstoðarmenn Salvinis að það hefði aðeins verið gert vegna erfiðleika við að sniðganga refsiaðgerðir ESB. Þeir sögðust hafa gert upp við sendiráðið. Ferðin var aldrei farin.

Vegna fréttarinnar í La Stampa fordæmdi Luigi di Maio, utanríkisráðherra Ítalíu, „þessa tilraun Rússa til að fá Lega-ráðherra til að hverfa úr Draghi-ríkisstjórninni“.

Di Maio sagði að Salvini yrði að „skýra samskipti sín við Rússa“ en ásamt Draghi er ítalski utanríkisráðherrann eindreginn talsmaður refsiaðgerða ESB gegn Rússum og þess að Ítalir sendi vopn og fjármuni til stjórnvalda í Kyív svo að andspyrna þeirra gegn Rússum sé sem mest.

Enrico Letta, leiðtogi Lýðræðisflokksins, lýsti einnig „áhyggjum“ yfir tengslum Salvinis við Rússa.

Salvini svaraði gagnrýninni og sagði um „falsfrétt“ að ræða sem mótaðist af persónulegu skítkasti í sinn garð við upphaf baráttunnar fyrir þingkosningarnar 25. september.

„Sundraðir og örvæntingarfullir vinstrisinnar eyða tíma sínum í leit að fasistum, Rússum og rasistum sem hvergi er að finna,“ sagði hann og staðhæfði að flokkur sinn væri „í liði með Vestrinu“.

Salvini er kunnur fyrir áralanga aðdáun sína á Vladimir Pútin Rússlandsforseta. Hann hefur meira að segja gengið í bol með mynd af Pútin á bringunni. Það er Salvini ekki til framdráttar að á þetta sé minnt eftir að Pútin sendi her inn í Úkraínu og er sakaður um að standa að fjölda stríðsglæpa.

Salvini á kosningasamstarf við Berlusconi sem einnig er einkavinur Pútins. Á hinn bóginn hefur þriðji samstarfsflokksleiðtogi þeirra, Giorgia Meloni í flokknum Bræður Ítalíu, harðlega fordæmt innrás Rússa. Meloni og flokkur hennar er nú í forystu samkvæmt skoðanakönnunum.

Maria Zakharova, upplýsingafulltrúi rússneska utanríkisráðuneytisins, sagði föstudaginn 29. júlí að það væri „skrýtið“ að sjá ítalska stjórnmálamenn og fjölmiðlamenn flytja „útjaskaðan“ boðskap um íhlutun frá Moskvu í ítalska kosningabaráttu.

Í færslu á Telegram samfélagsmiðlinum lagi Zakharova áherslu á að Rússar litu á Ítalíu sem „fullvalda ríki sem fylgdi sjálfstæðri stefnu innan lands og utan“. Þess vegna hefðu samskipti Rússa og Ítala ávallt einkennst „af raunsæi, gagnkvæmum skilningi og virðingu“.

 

 

 

Skoða einnig

Bardagareyndur hershöfðingi settur yfir rússnesku herstjórnina í norðvestri

Þriggja stjörnu hershöfðinginn Aleksandr Lapin var 15. maí skipaður yfirmaður Leningrad-herstjórnarsvæðisins í Rússlandi. Svæðið er …