Home / Fréttir / Pútin: Rússneska flotanum verður beitt gegn Bandaríkjunum og NATO á heimshöfunum

Pútin: Rússneska flotanum verður beitt gegn Bandaríkjunum og NATO á heimshöfunum

Vladimir Pútin á flotadeginum í St. Pétursborg 31. júlí 2022.

Í nýrri stefnu fyrir rússneska flotann lýsir Vladimir Pútin Rússlandsforseti „áformum“ Bandaríkjanna um „að ná ráðum yfir heimshöfunum“ og stækkun NATO sem helstu ógnunum sem steðji að Rússlandi.

Pútin staðfesti stefnuna með undirskrift sinni á degi rússneska flotans sem haldinn var hátíðlegur í St. Pétursborg sunnudaginn 31. júlí.

Stefnuskjalið er 55 bls. að lengd. Þar segir að meginverkefnið sé að takast á við „strategískt markmið“ Bandaríkjastjórnar um að „ráða á heimshöfunum“ og bregðast við því að NATO þrengi að Rússlandi með hernaðarlegum mannvirkjum.

„Á líðandi stund á Rússland sér enga tilvist án öflugs flota … og mun verja hagsmuni sína á heimshöfunum af ákveðni og viljastyrk,“ segir í stefnunni og einnig:

„Bandaríkjamenn og bandamenn þeirra sem vilja verja yfirráð sín í heiminum og á höfunum snúast gegn sjálfstæðri og óháðri innanríkis- og utanríkisstefnu Rússlands.“

Í stefnunni segir einnig að Rússar ætli að vinna að því styrkja leiðandi stöðu sína í norðurskautsrannsóknum og könnun á þeim náttúruauðlindum sem þar séu, þá vilji Rússar þróa „örugga og samkeppnisfæra“ heilsárs siglingaleið frá Evrópu til Asíu eftir Norðausturleiðinni.

Í ræðu sem Pútin flutti á flotadeginum minntist hann ekki á stríðið Úkraínu en í stefnunni er sagt að Rússar stefni að því að styrkja „geópólitiska stöðu sína“ Svartahafi og Azovhafi við strendur Úkraínu.

Í stefnunni er vikið að Norður-Íshafi sem sé einstaklega mikilvægt fyrir Rússa. Bandaríkjastjórn sakar Rússa um að reyna hervæða Norður-Íshafið.

Pútin sagði að innan fáeinna mánaða yrði tekið til við að setja ofurhljóðfráar Zircon-stýriflaugar um borð í freigátur af Admiral Gorshkov-gerð. Það mundi ráðast af hagsmunum Rússlands hverju sinni hvert skip með flaugunum yrðu send.

„Geta rússneska flotans er lykilatriðið … Hann getur með eldingarhraða svarað hverjum þeim ákveður að þrengja að fullveldi okkar og frelsi‘,“ sagði Rússlandsforseti.

Ofurhljóðfrá vopn geta náð níföldum hljóðhraða. Í eitt ár hafa Rússar skotið Zircon-flaugum í tilraunaskyni frá herskipum og kafbátum.

Skoða einnig

Döpur og dauf ræða „nýs“ Trumps á flokksþingi

„Nýi Donald Trump róaði og þaggaði niður í þjóðinni í 28 mínútur í gærkvöldi. Síðan …