
Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands.
Leiðtogafundur aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins (NATO) var haldinn í London miðvikudaginn 4. desember til að fagna 70 ára afmæli bandalagsins. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sat fundinn fyrir Íslands hönd. Á fundinum var samþykkt yfirlýsing og birtist hún hér í lauslegri þýðingu:
Í dag komum við saman í London, þar sem NATO átti fyrst heimilisfesti, til að fagna sjötíu árum sterkasta og árangursríkasta bandalags sögunnar og til að minnast þess að þrjátíu áru eru liðin frá falli járntjaldsins. NATO tryggir öryggi landsvæðis okkar og milljarðs manna sem þar býr, frelsi okkar og sameiginleg gildi þar á meðal lýðræði, einstaklingsfrelsi, mannréttindi og virðingu fyrir lögum og rétti. Samstaða, einhugur og samheldni eru hornsteinar bandalags okkar. Við vinnum saman til að koma í veg fyrir átök og tryggja frið og því er NATO grunnstoð sameiginlegra varna okkar og lykilvettvangur fyrir samráð vegna öryggismála og ákvarðana bandalagsþjóðanna. Við áréttum varanlegt gildi tengslanna yfir Atlantshaf milli Evrópu og Norður-Ameríku, hollustu okkar við tilgang og meginhugsjónir sáttmála Sameinuðu þjóðanna og við óhagganlega skuldbindingu okkar sem skráð er í 5. gr. Atlantshafssáttmálans um að árás á eitt bandalagsríki skuli telja árás á þau öll.

Við erum staðráðin í að deila kostnaði og ábyrgð vegna ódeilanlegs öryggis okkar. Í samræmi við skuldbindingu okkar um útgjöld til varnarmála (Defence Investment Pledge) aukum við þessi útgöld í samræmi við 2% og 20% reglurnar, við festum fé í nýjum búnað og sendum herafla til nýrra verkefna og aðgerða. Útgjöld annarra bandalagsþjóðanna en Bandaríkjanna til varnarmála hafa aukist samfellt í fimm ár; varnarmálaútgjöldin hafa aukist um meira en130 milljarða dollara. Í samræmi við það sem segir í 3. gr. Atlantshafssáttmálans munum við halda áfram að efla eigin og sameiginlegt afl til að standast hvers konar árás. Okkur miðar vel. Við verðum og munum gera betur.
Við okkur sem bandalagi blasa skýrar ógnir og áskoranir úr öllum stragegískum áttum. Með árásaraðgerðum sínum ógna Rússar Evru-Atlantshafsöryggi; hvers kyns hryðjuverk og birtingarmyndir þeirra eru viðvarandi ógn við okkur öll. Valdbeiting í nafni ríkja og annarra ógnar skipan heimsmála sem reist er á umsömdum reglum. Óstöðugleiki utan landamæra okkar stuðlar einnig að stjórnlausum ferðum farandfólks. Við okkur blasa netógnir og fjölþátta ógnir.
NATO er varnarbandalag og ógnar ekki neinu landi. Við erum að laga hernaðarmátt okkar, stefnu og áætlanir hvarvetna innan bandalagsins að ákvörðun okkar um að öryggistryggingin spanni 360 gráður. Við höfum tekið ákvarðanir um að auka viðbragðsafl herafla okkar á þann veg að hann geti brugðist við hvers konar ógn, hvenær sem er og hvaðan sem hún kemur. Við hvikum ekki frá skuldbindingu okkar um að berjast gegn hryðjuverkum og grípum til öflugri sameiginlegra aðgerða til að sigrast á þeim. Við höfum gert og munum gera hæfilegar og ábyrgar ráðastafanir til að bregðast við nýjum meðaldrægum flaugum Rússa sem leiddu til endaloka Samningsins um meðaldræg kjarnavopn og sem fela í sér umtalsverða ógn við öryggi Evru-Atlantshafssvæðisins. Við höfum gripið til aukinna aðgerða til að vernda frelsi okkar á hafi úti og í lofti. Við ætlum enn að efla fælingar- og varnarmátt okkar með því að stilla á hæfilegan hátt saman varnarviðbúnaði sem reistur er á kjarnavopnum, venjulegum vopnum og eldflaugavarnarkerfi sem við höldum áfram að þróa. Á meðan kjarnorkuvopn eru við lýði verður NATO kjarnorkubandalag. Við leggjum mikla áherslu á að viðhalda og efla virkt vígbúnaðareftirlit, afvopnum og bann við dreifingu með tilliti til stöðunnar í öryggismálum. Bandalagsríkin hafa lagt ríka áherslu á fulla framkvæmd allra þátta Samningsins um bann við dreifingu kjarnorkuvopna, þar á meðal kjarnorkuafvopnun, bann við dreifingu og friðsamlega notkun kjarnorku. Við erum fús til samtals og uppbyggilegra samskipta við Rússa þegar aðgerðir Rússa leyfa.
Við vinnum að því að auka öryggi allra. Við höfum eflt samstarf við nágranna okkar og aðra, dýpkað stjórnmálaleg samtöl, stuðning og þátttöku með samstarfslöndum okkar og alþjóðastofnunum. Við áréttum áherslu okkar á langtíma öryggi og stöðugleika í Afganistan. Við vinnum að auknu samstarfi við Sameinuðu þjóðirnar; samvinna NATO og ESB hefur dafnað meira en nokkru sinni fyrr. Við leggjum áherslu á stefnu NATO sem kennd er við opnar dyr (e. Open Door policy), hún styrkir bandalagið og hefur skapað milljónum Evrópubúa öryggi. Norður-Makedónía á fulltrúa hér með okkur í dag og verður brátt nýjasta aðildarríki bandalagsins. Við leggjum áherslu á að allar aðgerðir okkar og öll verkefni beri árangur. Við vottum öllum, körlum og konum, sem hafa þjónað NATO virðingu og heiðrum minningu allra sem fórnað hafa lífi sínu til að tryggja okkur öryggi.
Við verðum að líta saman til framtíðar til að njóta áfram öryggis. Við skoðum allar hliðar nýrrar tækni til að viðhalda tæknilegu forskoti samhliða því að standa vörð um gildi okkar og venjur. Við munum áfram auka þol samfélaga okkar eins og bráðnauðsynlega innviði okkar og orkuöryggi okkar. NATO og einstakar bandalagsþjóðir, með vísan til eigin valdheimilda, leggja áherslu á að tryggja öryggi fjarskipta okkar, þar á meðal 5G, um leið og viðurkennd er nauðsyn þess að treysta á örugg og harðger kerfi. Við höfum lýst geiminn sem athafnasvæði NATO og viðurkennt þar með mikilvægi hans við að tryggja öryggi okkar og takast á við öryggisáskoranir, að virtum alþjóðalögum. Við fjölgum nú tækjum okkar til að svara netárásum og styrkja hæfni okkar til að takast á við, halda frá og verjast fjölþátta-aðgerðum (e. hybrid tactics) sem beitt er til að grafa undan öryggi okkar og samfélögum. Við aukum hlut NATO til að gæta mannlegs öryggis. Við viðurkennum að í vaxandi áhrifum Kínverja og stefnu þeirra í alþjóðamálum felast bæði tækifæri og áskoranir sem við verðum bregðast við saman sem bandalag.
Með vísan til breytilegs strategísks umhverfis mælumst við til þess að framkvæmdastjórinn kynni utanríkisráðherrunum tillögu sem samþykkt hefur verið í ráðinu [af fastafulltrúum aðildarríkjanna] um hvernig staðið skuli að framtíðarathugun undir hans handarjaðri með aðkomu viðeigandi sérfræðinga til að styrkja enn frekar stjórnmálalega vídd NATO þar á meðal samráð.
Við lýsum þökkum til Breta fyrir rausnarlega gestrisni sem þeir hafa sýnt okkur. Við komum saman að nýju á árinu 2021.
Á tímum áskorana erum við öflugri sem bandalag og þjóðir okkar öruggari. Tengsl okkar og sameiginleg skuldbinding hefur tryggt okkur frelsi, varðveitt gildi okkar og öryggi okkar í sjötíu ár. Í dag göngum við fram til að tryggja þetta frelsi, þessi gildi og þetta öryggi fyrir komandi kynslóðir.