Home / Fréttir / Pelosi gefur fyrirmæli um gerð ákæru gegn Trump

Pelosi gefur fyrirmæli um gerð ákæru gegn Trump

 

Nancy Pelosi, forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings.
Nancy Pelosi, forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings.

Nancy Pelosi, forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, tilkynnti fimmtudaginn 5. desember að þingmenn deildarinnar myndu vinna að því að semja ákæruskjal gegn Donald Trump Bandaríkjaforseta eftir að hafa kallað á fleiri vitni við rannsókn málsins gegn honum.

„Lýðræði okkar er í húfi,“ sagði Pelosi. „Við eigum ekki annan kost en sækja gegn forsetanum. Með gjörðum sínum hefur forsetinn brotið freklega gegn stjórnarskránni. Hann reynir að nýju að spilla kosningunum í eigin þágu. Forsetinn hefur gripið til valdníðslu, hann grefur undan þjóðaröryggi okkar og stefnir heilleika kosninga okkar í hættu.“

Perlosi gaf yfirlýsingu sína daginn eftir að þrír fræðimenn á sviði lögfræði sögðu bandarískum þingmönnum að þeir teldu Trump hafa gerst sekan um verk sem brytu gegn bandarísku stjórnarskránni, einn fræðimaður taldi óráð að ákæra forsetann.

Pelosi fer fyrir demókrötum í fulltrúadeildinni. Hún segist hafa tekið ákvörðun sína „með sorg í hjarta en af trausti og auðmýkt gagnvart stofnendum okkar og ást á Bandaríkjunum“.

Með ákæruferlinu (e. impeachment) geta þingmenn opinberlega sótt gegn embættismönnum ríkisstjórnarinnar. Demókrötum er nú kappsmál að greiða atkvæði um ákæruna fyrir jól.

Fyrstu skrefin að þessu formlega ákæruferli gegn forsetanum voru stigin eftir að lýsing barst á símtali í júlí 2019 sem Trump átti við Volodíjmír Zelenskíj, forseta Úkraínu. Trump þrýsti á Zelenskíj að hefja rannsókn á Joe Biden sem berst fyrir að verða forsetaframbjóðandi demókrata gegn Trump 2020 og syni hans. Leyniþjónustunefnd fulltrúadeildarinnar kallaði fyrir sig einstaklinga sem sögðu að Trump hefði frestað afgreiðslu á hernaðarlegri aðstoð til Úkraínu þar til Zelenskíj tilkynnti að slík rannsókn væri hafin.

Trump er sakaður um valdníðslu með því að setja einkahagsmuni ofar þjóðaröryggishagsmunum. Demókratar saka hann um mútur með því að stöðva greiðslu á tæplega 400 milljón dollurum í hernaðaraðstoð við Úkraínu sem þingið hafði samþykkt.

Þingmenn repúblíkana gera lítið úr rannsókninni segja hana til skammar og samsæri demókrata til að bola Trump frá völdum. Stephanie Grisham, blaðafulltrúi forsetans, segir á Twitter: „Demókratar ættu að skammast sín.“

Næstu skref

Yfirlýsing Pelosi er í raun fyrirmæli um að dómsmálanefnd fulltrúadeildarinnar skuli hefjast handa við að semja ákæruatriðin. Þegar nefndin hefur lokið við það mun fulltrúadeild Bandaríkjaþings ræða málið og greiða atkvæði um hvort ákæra eigi forsetann. Einfaldur meirihluti í deildinni dugar til að ákveða það.

Falli atkvæði með ákæru stofnar öldungadeildin til málaferla. Í stjórnarskránni er ekki tekið af skarið um hvernig staðið skuli að réttarhöldunum. Forsetum er heimilað að kalla lögfræðinga sér til varnar og leggja fram gögn og vitnisburði sér til stuðnings.

Demókratar hafa meirihluta í fulltrúadeildinni en repúblíkanar í öldungadeildinni. Samþykki fulltrúadeildin ákæruna þurfa tveir þriðju öldungadeildarþingmanna að samþykkja sakfellingu og þar með embættismissi forsetans.

Til þess að Trump verði sakfelldur þarf því talsverðum fjölda repúblíkana að snúast hugur gegn honum í öldungadeildinni. Talið er mjög ólíklegt að það gerist í þessu máli.

Tímaramminn er óviss. Demókrötum er þó mikið í mun að ganga eins hratt til verks og verða má. Á Twitter segist Trump fagna „sanngjörnum réttarhöldum í öldungadeildinni“.

 

Skoða einnig

Tortryggni í garð Moskvuvaldsins vex í gömlu Sovétlýðveldunum

Stuðningur við forsystusveit Rússlands hefur hrapað í nágrannalöndum landsins. Íbúar landanna eru tortryggnir í garð …