
+Leiðtogar NATO-ríkjanna 29 komu saman til fundar í London þriðjudaginn 3. desember til að fagna 70 ára afmæli Atlantshafsbandalagsins (NATO). Á blaðamannafundi eftir að hafa hitt Donald Trump Bandaríkjaforseta sagði Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, að bandalagið nyti mikils stuðnings í Bandaríkjunum, það mætti líkja því við „mikla þverstæðu“ á sama tíma viðraðar væru efasemdir um Atlantshafstengsl Evrópu og Bandaríkjanna.
Donald Trump og Jens Stoltenberg hittust á morgunverðarfundi í London en Bandaríkjaforseti kom þangað að kvöldi mánudags 2. desember. Stoltenberg sagði: „Orðræðan er slæm en inntakið er einstaklega gott.“ Trump sagði hann mæti NATO og aðild að því mikils vegna þess hve sveigjanlegt bandalagið væri.
Þegar Trump ræddi við blaðamenn með Stoltenberg við hlið sér lét Bandaríkjaforseti gamminn geisa um hve illa Evrópumenn kæmu fram við Bandaríkjamenn og sagði:
„Evrópusambandið sýnir Bandaríkjunum mjög litla sanngirni í viðskiptum. Það gengur ekki að sæta ósanngirni vegna NATO og sama ósanngirni birtist síðan í viðskiptum, svona er þetta samt. Við getum ekki leyft þessu að gerast. Við ræðum við Evrópusambandið um viðskipti og þeir verða að taka sig á annars fer þetta allt á versta veg.“
Trump fór gagnrýnisorðum um Emmanuel Macron Frakklandsforseta sem hafði þau orð um NATO í nóvember að bandalagið væri „heiladautt“. Þetta voru „einstaklega móðgandi ummæli,“ sagði Trump:
„Hann var harðorður en þegar menn eru svona harðorðir fara þeir mjög óviðeigandi orðum um það sem snertir í raun 28, auk þeirra sjálfra, 28 þjóðir.
Ég held þið vitið að mikið atvinnuleysi er í Frakklandi. Frökkum vegnar alls ekki vel efnahagslega. Þeir hafa tekið til við að skattleggja framleiðslu annarra landa og þess vegna ætlum við að skattleggja þá.“
Síðar á blaðamannafundinum gaf Trump til kynna að Frakkar ætluðu að segja skilið við NATO þótt engir þyrftu meira á NATO að halda en stjórnvöld í París.
Leiðtogarnir þiggja boð Elísabetar II. drottningar í Buckingham-höll þriðjudaginn 3. desember en hittast að morgni 4. desember í Grove hóteli í
Hertfordshire á Suður-Englandi.
Donald Trump taldi enn á blaðamannafundinum í London að Þjóðverjar og aðrar þjóðir sýndu ekki nægan vilja til að standa við 2% fjárskuldbindingar sínar við NATO.
Í fyrri viku greindi Jens Stoltenberg þó frá því að fimmta árið í röð hefðu evrópsku bandalagsríkin og Kanada aukið útgjöld sín til varnarmála og á árinu 2020 mundu útgjöldin aukast um 130 milljarða dollara og yrðu 400 milljarðar dollarar í lok árs 2024. Á leið sinni til London sagði Trump á Twitter: „Frá því að ég varð forseti hefur fjöldi þeirra NATO-ríkja sem stendur við skuldbindingar sínar meira en tvöfaldast.“
Ummæli Macrons um „heiladauða“ NATO ollu reiði víða innan bandalagsins. Angela Merkel Þýskalandskanslari mótmælti þeim. Innan NATO hafa Þjóðverjar kynnt tilögu um gerð skýrslu um framtíðarleið bandalagsins.
Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseti reiddist Emmanuel Macron og einnig gagnrýni innan NATO á hernað Tyrkja gegn Kúrdum. Föstudaginn 29. nóvember réðst hann persónulega á Macron.
„Í fyrsta lagi ættir þú að láta athuga heilann í sjálfum þér. Yfirlýsingar af þessu tagi hæfa aðeins fólki á borð við þig sem glíma við heiladauða,“ sagði Erdogan og tók fram að hann mundi endurtaka þetta á fundi NATO.
Franskir embættismenn kölluðu sendimann Tyrkja í París „á teppið“. Frá Bandaríkjastjórn barst að innan NATO mundu margir gagnrýna Tyrki fyrir að kaupa S-400 varnarkerfi af Rússum.
Macron og Erdogan hittast á fundi með Angelu Merkel og Boris Johnson, forsætisráðherra Breta, þriðjudaginn 3. desember.
Emmanuel Macron reifaði í viðtali við The Economist sem birtist í nóvember að það ætti að nálgast Rússa með viðræður í huga.
Fyrir leiðtogafundinn í London tók Stoltenberg harða afstöðu gagnvart Rússum:
„Með herafla undir merkjum NATO í Póllandi og Eystrasaltsríkjunum sendum við Rússum mjög skýr skilaboð: sé ráðist á Pólland eða Eystrasaltsríkin svarar bandalagið í heild,“ sagði hann við fulltrúa Rzeczpospolita frá Póllandi, Süddeutsche Zeitung frá Þýskalandi og El País frá Spáni.
Bandaríkjamenn hafa hvatt Tyrki til að styðja varnaráætlanir NATO fyrir Pólland og Eystrasaltsríkin. Tyrkir hafna tilmælunum vegna þess að þeir fái ekki nægan stuðning frá NATO í baráttu sinni við Kúrda. Jens Stoltenberg sagði á blaðamannafundi í London að hann gerði sér vonir um að leysa mætti þennan ágreining.