Home / Fréttir / Bandaríkin og norrænu ríkin sammælast um aukið öryggissamstarf

Bandaríkin og norrænu ríkin sammælast um aukið öryggissamstarf

Leiðtogarfundur í Helsinki 13. júlí 2023, frá vinstri: Ulf Kristersson, forsætisráðherra Svíþjóðar, Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, Sauli Niinistö, forseti Finnlands, Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Jonas Gahr Støre, forsætisráðherra Noregs, (mynd: vefsíða stjórnarráðsins).

Joe Biden Bandaríkjaforseti hélt til Helsinki frá ríkisoddvitafundi NATO sem lauk í Vilníus, höfuðborg Litháens, 12. júlí 2023. Í Helsinki sat forsetinn fund með Sauli Niinistö Finnlandsforseta og forsætisráðherrunumn: Mette Frederiksen Danmörku, Katrínu Jakobsdóttur, Jonas Gahr Støre Noregi, og Ulf Kristersson Svíþjóð fimmtudaginn 13. júlí. Hér er lauslegs þýðing vardberg.is á yfrlýsingu fundar forsetans með ráðherrunum:

Þrettánda júlí 2023 hittust forsetar Finnlands og Bandaríkjanna og forsætisráðherrar Danmerkur, Íslands, Noregs og Svíþjóðar í Helsinki á þriðja leiðtogafundi Bandaríkjanna og norrænu ríkjanna. Með vísan til fyrri funda með sama sniði áréttuðu leiðtogarnir öflugt samstarf Bandaríkjanna og norrænu ríkjanna og sívaxandi samvinnu milli landa þeirra, þeir ræddu sérstaklega öryggismál, umhverfismál, tækni og samfélagið.

Þegar rætt var um öryggismál ítrekuðu norrænu ríkin og Bandaríkin afdráttarlausa fordæmingu sína á árásarstríði Rússa á hendur Úkraínumönnum. Þau veita áfram óhagganlegan stuðning sinn við sjálfstæði Úkraínu, fullveldi og rétt til yfirráða innan eigin landamæra sem njóta alþjóðlegrar viðurkenningar. Þau heita Úkraínumönnum stuðning eins lengi og þörf er á honum, þar á meðal til að efla öryggi þeirra, og til stuðnings þeim efnahagslega, lögfræðilega og mannúðlega. Leiðtogarnir skuldbinda sig til að vinna að því á alþjóðavettvangi að fá stuðning sem flestra ríkja við réttlátan og varanlegan frið í Úkraínu sem reistur sé á grunnþáttum sáttmála SÞ. Í þessu felst að virkja enn frekar samstarfsríki um heim allan til samtals um þau viðfangsefni sem við blasa vegna stríðsins.

Fundur leiðtoganna er haldinn í beinu framhaldi af ríkisoddvitafundi NATO í Vilníus og af því tilefni áréttuðu leiðtogarnir hve bandalagið gegnir mikilvægu hlutverki fyrir svæðisbundið öryggi og stöðugleika auk gildis þess fyrir ríkin beggja vegna Atlantshafs. Leiðtogar Bandaríkjanna og norrænu ríkjanna fögnuðu yfirlýsingunni sem gefin var 10. júlí 2023 af Svíum, Tyrkjum og framkvæmdastjóra NATO og fagna því að Svíar gangi í NATO eins skjótt og verða má. Leiðtogarnir telja að aðild Finna og Svía að NATO styrki getu norrænu ríkjanna til að leggja jafnvel enn meira af mörkum til öryggis allra aðildarlanda NATO. Norrænu ríkin létu einnig í ljós þakklæti fyrir að Bandaríkjamenn skuldbinda sig áfram til að tryggja öryggi beggja vegna Atlantshafs, í Evrópu og Norður-Evrópu og þau eru reiðubúin til að dýpka öryggis- og varnarsamstarf sitt við Bandaríkin, þar á meðal með því að nýta sameiginlega norræna samstarfsvettvanginn (NORDEFCO).

Þegar leiðtogarnir ræddu umhverfismál undirstrikuðu þeir að viðbrögð gegn loftslagsbreytingum og samdrætti í líffræðilegum fjölbreytileika væru meðal brýnustu verkefna í þágu plánetu okkar. Í þessu samhengi lögðu leiðtogarnir áherslu á mikilvægi þess að vernda og viðhalda norðurslóðum (e. Arctic) og stuðla að sjálfbæru efnahags- og atvinnulífi þar í nánu samráði við frumbyggja norðurslóða. Leiðtogar Bandaríkjanna og norrænu ríkjanna ræddu leiðir til að efla samvinnu um hreina tækni, nýtingu auðlinda og orku, orkuöryggi, mikilvæg jarðefni og birgðaflutningaleiðir með háan álagsstuðul. Þeir töldu samvinnu um þessi atriði skiptu miklu til að ná sameiginlegum markmiðum gegn hættuástandinu í loftslagsmálum, til að flýta fyrir hreinum orkuskiptum og til að stuðla að metnaðarfullum kröfum á sviði félagsmála, vinnumála og stjórnarhátta. Leiðtogarnir ætla staðfastlega að nýta tækifærin sem felast í umskiptunum til að skapa ný störf og hagvöxt. Bandaríkin og norrænu ríkin vinna einnig náið saman á viðkomandi alþjóðavettvöngum til að takast á við loftslagsbreytingar, minnkandi líffræðilegan fjölbreytileika, heilbrigði hafsins og sjálfbæra þróun.

Í umræðum um tæknimál viðurkenndu leiðtogarnir lykilþýðingu mikilvægrar og nýrrar tækni – að teknu tilliti til viðeigandi varúðar og skaðaminnkandi aðgerða – fyrir hnattræna farsæld og öryggi. Bandaríkin og norrænu ríkin ætla að efla samvinnu um tækni eins og 5G og 6G, gervigreind, netöryggi og skammtatækni. Þeir töldu að samvinna um grunn- og hagnýtar rannsóknir gerðu bandarískum og norrænum samstarfsaðilum kleift að vera tækniklega í fremstu röð og þróa tækni og staðla sem féllu að sameiginlegum gildum og hagsmunum og nýttust í því skyni að vernda lýðræði, virða mannréttindi og grundvallarfrelsi. Leiðtogarnir lögðu áherslu á strategískt mikilvægi alþjóðlegs tengikerfis.

Þegar leiðtogarnir ræddu samfélagsleg málefni ítrekuðu þeir að grunn- og sameiginleg gildi lýðræðis, virðing fyrir mannréttindum, jafnrétti kynjanna, vernd og jöfn þjónusta fyrir alla, réttarríkið og efnahagslegt frelsi væru grundvöllur bandarískrar-norrænnar samvinnu. Þessi gildi eru samofin viðnámsþrótti samfélaga okkar. Á þessum grunni mun aukin samvinna milli Bandaríkjanna og norrænu ríkjanna skapa blómlegri og öruggari framtíð fyrir alla íbúa okkar og vinna gegn því að þeir sér öðrum strategískt háðir eða séu berskjaldaðir.  Leiðtogarnir töldu mikilvægt að milliliðalaus samskipti einstaklinga yrðu liður í sambandi landa þeirra á öllum stigum, það væri lykilþáttur í bandarískum-norrænum tengslum.

 

 

Skoða einnig

Rússar við Kharkiv – Úkraínumenn sækja á Krím

Rússar hafa sótt fram á nokkrum stöðum í Úkraínu undanfarna daga en yfirhershöfðingi NATO í …