Home / Fréttir / Úkraínuher að brjóta varnarmátt Rússa, segir eistneskur njósnaforingi

Úkraínuher að brjóta varnarmátt Rússa, segir eistneskur njósnaforingi

Úkraínuher er á mörkum þess að brjótast á afdrifaríkan hátt í gegnum varnarlínu Rússa í gagnsókn sinni í austur segir yfirmaður leyniþjónustu Eistlands.

Margo Grosberg segir að þrýstingur Úkraínumanna þrengi nú æ meira að lémagna hermönnum í fremstu víglínu Rússa og þeir kunni brátt að brotna undan honum. Minnti hann að úkraínski herinn hefði eyðilagt stjórnstöð rússneska hersins og sótt fram umhverfis Bakhmut.

Grosberg benti einnig á kvartanir rússneskra hershöfðingja yfir að þá skorti varaliða til að leysa af magnþrota hermenn samhliða því sem þessi þrýstingur leiði til þess að andóf eykst.

„Allt þetta sýnir að Úkraínumenn færast nær meiri háttar árangri,“ sagði hann við eistneskan fjölmiðil.

Fyrir fáeinum dögum rak rússneska herstjórnin einn af hershöfðingjum sínum úr starfi eftir að hann kvartaði og sagði menn sína að þrotum komna. Þá eyðilagði stýriflaug rússneska stjórnstöð í hernumdu hafnarborginni Berdjansk og varð hershöfðingja að bana.

Ummæli eistneska njósnaforingjans stangast á við þá vaxandi varkárni sem embættismenn Úkraínu sýna þegar þeir ræða um árangurinn af gagnsókninni. Fyrir tveimur mánuðum hömpuðu þeir sókninni en segja nú að henni miði hægar en þeir væntu.

Volodymyr Zelenskjí Úkraínuforseti sagði síðdegis föstudaginn 14. júlí að Rússar beittu öllu afli sínu til að verjast gagnsókninni.

„Það ber að færa þakkir fyrir hverja þúsund metra sem við sækjum fram og fyrir hvern þann árangur sem stórfylki okkar ná,“ sagði forsetinn.

Í samtali við The New York Times sögðu úkraínskir embættismenn að á fyrstu tveimur vikum gagnsóknarinnar hefði her þeirra tapað um 20% vopna sinna og brynvarðra farartækja sem stefnt var gegn rússnesku varnarlínunni. Með því að hægja á gagnsókninni hefði tjónið lækkað í 10%.

Herfræðingar segja að Rússar hafi nýtt ládeyðu í bardögum fyrr á árinu til að styrkja varnir sínar með skotgröfum sem teygja sig marga kílómetra og með því að dreifa jarðsprengjum á margra hektara svæði. Jarðsprengjusvæðin tefji mjög för Úkraínuhers og þegar hann hægi á sér verði hann auðveldara skotmark stórskotaliðs. Þá eru yfirburðir Rússa í lofthernaði Úkraínuher hættulegir.

Breska varnarmálaráðuneytið er sammála eistneska njósnaforingjanum um að andóf aukist innan rússneska hersins. Sagt er að Vladimir Pútin Rússlandsforseti hafi losað sig við 28 hershöfðingja í hreinsunum frá því að Wagner-málaliðarnir gerðu uppreisn í júní.

Breska varnarmálaráðuneytið segir að brottrekstur Ivan Popovs hershöfðingja fyrir fáeinum dögum hafi sérstöðu og skipti sérstaklega miklu þar sem hann sé fyrsti rússneski hershöfðinginn til að saka Kremlverja beint um að bregðast hermönnum sínum.

Ráðuneytið telur að bein gagnrýni frá undirmönnum eigi eftir að verða vaxandi vandamál í rússneska hernum.

Heimild: The Telegraph.

 

 

Skoða einnig

Harðnandi hótanir Pútins og staðfastur stuðningur Bidens

Joe Biden Bandaríkjaforseti er í opinberri heimsókn í París laugardaginn 8. júní. Á fundi með …