Home / Fréttir / Ótímasett skref Úkraínu inn í NATO ákveðið á toppfundi í Vilníus

Ótímasett skref Úkraínu inn í NATO ákveðið á toppfundi í Vilníus

Jens Stoltenberg skýrir ákvörðunina varðandi aðild Úlkraínu að NATO

Á ríkisoddvitafundi NATO í Vilníus, höfuðborg Litháens, var þriðjudaginn 11. júlí ákveðið að Úkraína gæti gengið í bandalagið „þegar bandalagsríkin samþykktu það og skilyrðum yrði fullnægt“. Volodymyr Zelenskíj Úkraínuforseti vildi að ákvörðun um aðild lands síns yrði tímasett annað væri „fráleitt“.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra situr fundinn fyrir Íslands hönd. Hún sagði við fréttaritara ríkisútvarpsins í Vilníus áður en yfirlýsing fundarins var birt síðdegis 11. júlí að hún vildi að skilaboðin um aðild Úkraínu yrðu skýr. Orðrétt var haft eftir forsætisráðherra á ruv.is:

„Við höfum verið með okkar eigin afstöðu í þessu máli sem er að við sýnum því skilning að Úkraína er ekki að ganga inn á þessum fundi. Það liggur algjörlega fyrir en við viljum líka senda skýrari skilaboð umfram það sem hefur verið kallað yfirlýsing í anda Búkarest. Við viljum senda skýrari skilaboð en svo.“

Á fundinum í Búkarest 2008 var ágreiningur meðal ríkisoddvitanna, dyr NATO voru skildar eftir opnar án skilgreiningar eða skilyrða. Vladimir Pútin Rússlandsforseti sat fundinn og taldi að sér vegið með umræðum um aðild Úkraínu og Georgíu að NATO. Nokkru síðar réðst hann inn í Georgíu og lagði hluta landsins undir Rússa. Árið 2014 hernam hann Krímskaga og önnur héruð í Úkraínu.

Í Vilníusályktuninni er viðurkennt að meiri hraði þurfi að vera á viðbrögðum af hálfu NATO-ríkjanna án þess að settur sé tímarammi.

Í aðdraganda fundarins í Vilníus sagði Zelenskíj að hann sæi ekki ástæðu til að sækja hann yrðu óskir hans hafðar að engu. Hann er þó á fundarstað og ræðir við ríkisoddvitana auk þess að ávarpa fjölmennan útifund í Vilníus.

Stjórnvöld Úkraínu viðurkenna að landið geti ekki gengið í NATO á meðan Úkraínuher berst við Rússa, þau vilja hins vegar aðild að bandalaginu eins fljótt og verða má eftir að átökum lýkur.

Á blaðamannafundi síðdegis 11. júlí sagði Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, að á toppfundinum hefði verið áréttað að Úkraína myndi ganga í bandalagið. Samþykkt var að falla frá formsatriðum sem gert er ráð fyrir í aðgerðaáætlun vegna aðildar. Úkraína fær því flýtimeðferð þegar aðild er talin tímabær.

Zelenskíj sagði á Twitter að skortur á staðfestri tímasettri áætlun leiddi til þess að hugsanleg aðild lands síns yrði þrætu- eða samningsatriði milli þriðju aðila.

„Skilinn er eftir sá möguleiki að hugsanlega megi nota aðild Úkraínu að NATO sem skiptimynt í viðræðum við Rússa. Óvissa er veikleiki,“ sagði hann.

Innan NATO óttast sumir að verði tekin ákvörðun um nær sjálfvirka aðild Úkraínu að bandalaginu verði það til að Rússar stigmagni átökin í og gegn Úkraínu.

Í Vilníusyfirlýsingunni segir að samþætting herafla og póltískur samruni Úkraínu við bandalagið aukist jafnt og þétt og einnig hafi verið unnið að umbótum í landinu. NATO-ríkin styðji frekari umbætur.

Stofnað hefur verið sérstakt samstarfsráð Úkraínu og NATO og tekur Zelenskíj þátt í fyrsta fundi þess miðvikudaginn 12. júlí.

Fyrir utan pólitískar yfirlýsingar um framtíðarsamskiptin við Úkraínu var ákveðið á toppfundinum þriðjudaginn 11. júlí að veita Úkraínustjórn margvíslegan hernaðarlegan stuðning.

Ellefu ríki hafa ákveðið að taka höndum saman um þjálfun á úkraínskum flughermönnum svo að þeir geti flogið F-16 orrustuþotum þegar ákveðið verður að afhenda Úkraínustjórn þær. Miðstöð þjálfunarinnar verður í Rúmeníu og verðr hún opnuð í ágúst 2023.

Kremlverjar fóru hörðum orðum um toppfundinn og sögðu að þar væri komið fram við Rússa sem „óvini“ og gerði viðkvæmt öryggisástand í heiminum enn brothættara.

Dmitríj Peskov, talsmaður Kremlverja, sagði á blaðamannafundi í Moskvu, að þar fylgdust menn vel með því sem gerðist á fundinum og þær upplýsingar yrðu notaðar til að gaumgæfa nauðsynleg viðbrögð af hálfu Rússa.

 

Skoða einnig

Döpur og dauf ræða „nýs“ Trumps á flokksþingi

„Nýi Donald Trump róaði og þaggaði niður í þjóðinni í 28 mínútur í gærkvöldi. Síðan …