Home / Fréttir / Frakkland: Fyrrverandi forsætisráðherra til rannsóknar vegna COVID-19-vanrækslu

Frakkland: Fyrrverandi forsætisráðherra til rannsóknar vegna COVID-19-vanrækslu

Edouard Philippe
Edouard Philippe

Edouard Philippe baðst lausnar sem forsætisráðherra Frakklands að morgni föstudags 3. júlí. Nokkrum klukkustundum síðar skipaði Emmanuel Macron Frakklandsforseti þrautreyndan franskan embættismann, Jean Castex, forsætisráðherra og er ráðgert að ný ríkisstjórn setjist að völdum í Frakklandi miðvikudaginn 8. júlí.

Castex er bæjarstjóri í smábæ í Pýreneafjöllum þar sem hann nýtur stuðnings rúmlega 70% kjósenda. Undanfarið hefur hann stýrt útgöngu Frakka úr heimadvölinni vegna COVID-19-faraldursins. Hann hefur verið félagi í Lýðveldisflokknum, hægri flokki, og sinnti á sínum tíma verkefnum fyrir flokksfélaga sinn Nicolas Sarkozy þegar hann var forseti Frakklands.

Það liðu aðeins fáeinar klukkustundir frá afsögn Philppes þar tilkynnt var að hafin væri lögreglurannsókn vegna kæru gegn honum fyrir hve illa hann hefði haldið á COVID-19-málum sem forsætisráðherra.

Kæran um að hann hafi „látið undir höfuð leggjast að berjast gegn hörmungunum“ var lögð fyrir Cour de Justice de la République, sérstakan dómstól sem fjallar um mál vegna ráðherraábyrgðar.

Verði hann fundinn sekur kann Philippe að verða dæmdur í allt að tveggja ára fangelsi auk fjársekta.

Hann segist ætla að leggja fyrir rannsakendur í málinu gögn og svör við öllum spurningum til skýringar á aðgerðum sínum og ríkisstjórnarinnar undir forsæti sínu.

Auk forsætisráðherrans fyrrverandi beinist rannsóknin að Olivier Véran heilbrigðisráðherra og Agnès Buzyn, forvera hans, sem sagði af sér í febrúar og bauð sig fram sem borgarstjóri í París en hafði ekki erindi sem erfiði.

Kæran á hendur ráðherrunum er komin frá COVID-19-sjúklingum, læknum, starfsmönnum fangelsa, lögreglumönnum og öðrum. Frá miðjum mars hafa alls 90 kærur verið lagðar fyrir dómstólinn sem er áður óþekkt í Cour de Justice de la République. Af þeim hefur 44 verið hafnað en hinar eru enn til rannsóknar.

Um það bil 30.000 hafa dáið úr COVID-19 í Frakklandi, þetta er fimmta hæsta tala af ríkjum heims.

 

 

 

 

 

 

Skoða einnig

Ekki lengur í fyrsta sæti eftir 99 ár – hægri sveifla í Noregi

Í fyrsta sinn frá árinu 1924 er gengið til kosninga í Noregi án þess að …