Home / Fréttir / Pútin hæðist að bandaríska sendiráðinu vegna regnbogafánans

Pútin hæðist að bandaríska sendiráðinu vegna regnbogafánans

Sendiráð Bandaríkjanna í Moskvu.
Sendiráð Bandaríkjanna í Moskvu.

Vladimir Pútin Rússlandsforseti hæddist föstudaginn 3. júlí að starfsfólki bandaríska sendiráðsins í Moskvu fyrir að hafa dregið regnbogafána að húni til að halda LGBT-réttindum á loft.

Pútin gaf til kynna að framtak sendiráðsins væri til marks um kynhneigð starfsfólks þess.

Orð rússneska leiðtogans féllu eftir talningu atkvæða í þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem yfirgnæfandi meirihluti kjósenda studdi breytingu á stjórnarskránni. Í krafti breytingarinnar getur Pútin setið sem forseti til ársins 2036.

Pútin sagði að ákvörðun bandaríska sendiráðsins um að flagga með LGBT-fánanum „afhjúpa[aði] eitthvað um fólkið sem vinnur þar“. Hann sagði einnig:

„Þetta skiptir ekki miklu. Við höfum oft rætt þetta og afstaða okkar er skýr.“

Pútin hafnar frjálslyndum vestrnum gildum og viðurkennir sjónarmið rússnesku rétttrúnaðarkirkjunnar.

„Já, við höfum samþykkt lög sem bannar áróður samkynhneigðra meðal ólögráða. Og hvað með það? Leyfum fólki að eldast og þá getur það ráðið eigin örlögum.“

Lögunum sem Pútin nefnir hefur verið beitt til að stöðva göngur samkynhneigðra og til að fangelsa aðgerðasinna úr hópi LGBT-fólks.

Pútin segir að í baráttunni fyrir nýrri stjórnarskrá hafi hann barist gegn því að hætt verði að tala um móður og föður og þess í staðp um „foreldri eitt“ og „foreldri tvö“.

Ekaterina Lakhova, leiðtogi Verkalýðsfélags rússneskra kvenna, sagðist föstudaginn 3. júlí óttast að „Regnboga-ís“ yrði áróðursvopn gegn hefðbundnum gildum. Henni þykir einnig að aðrar „marglitar“ auglýsingar geti verið áróður, skaðlegur börnum. RIA-fréttastofan skýrir frá þessu.

Við önnur sendiráð í Moskvu hafa menn dregið regnbogafánann að húni, þar á meðal við breska sendiráðið.

 

Heimild: Reuters.

 

Skoða einnig

Harðnandi hótanir Pútins og staðfastur stuðningur Bidens

Joe Biden Bandaríkjaforseti er í opinberri heimsókn í París laugardaginn 8. júní. Á fundi með …