
Yfirstjórn bandaríska flotans hefur tilkynnt að tundurspillirinn USS Donald Cook sé á leið inn á Svarta haf til að sinna verkefnum á hafi úti og stuðla að stöðugleika á hafinu í samvinnu við NATO-ríki á svæðinu.
Skipið sem er af Arleigh Burke-gerð og vopnað stýriflaugum var á siglingu í Hellusundi (Dardanellasundi) við Tyrkland laugardaginn 19. janúar. Stefndi skipið þá í norður inn á Svartahaf sagði í tilkynningu flotans.
„Bandaríski flotinn sendir reglulega skip inn á Svartahaf í samræmi við ákvæði Montreux samkomulagsins og alþjóðalög,“ sagði í tilkynningunni.
Þar kemur ekki fram hvenær þess er vænst að skipið verði komið inn á hafið en rússneska TASS-fréttastofan vitnaði í heimildarmenn í rússneska varnarmálaráðuneytinu sem sögðu að fylgst væri með ferðum skipsins. Samkvæmt alþjóðasamningum hefur það heimild til að vera 21 dag á Svartahafi.
Spenna hefur magnast á þessum slóðum frá 25. nóvember 2018 þegar Rússar skutu á þrjá úkraínska eftirlitsbáta og hertóku skammt frá Kerch-sundi sem tengir Svartahaf og Azovhaf.
Rússar segja að skip Úkraínustjórnar hafi verið í heimildarleysi innan rússnesks yfirráðasvæðis undan strönd Krímskaga sem Rússar innlimuðu ólöglega árið 2014. Rússar hafa 24 menn úr áhöfnum skipanna í haldi og kunna þeir að verða lögsóttir fyrir óheimila för yfir landamæri.
Bandaríkjastjórn, Evrópusambandið og ríkisstjórnir annarra Vesturlanda hafa krafist þess að föngunum verði sleppt.
„Bandaríkjamenn og bandaríski flotinn standa eins og áður við hlið bandamanna sinna til varnar sameiginlegum svæðisbundnum hagsmunum og stöðugleika á hafinu,“ sagði Matthew J. Powel, æðsti maður um borð í Donald Cook. „Koma okkar inn á Svartahaf sýnir fjölhæfni flotans til að vinna að sameiginlegum öryggismarkmiðum sem gerir okkur kleift að bregðast á öflugan hátt við framtíðar hættuástandi og koma í veg fyrir árás.“
John Bolton, þjóðaröryggisráðgjafi Donalds Trumps Bandaríkjaforseta, sagði í desember að ekki yrði um neinn marktækan fund Trumps með Vladimir Pútín Rússlandsforseta að ræða á meðan Úkraínumennirnir 24 væru í haldi Rússa.