Home / Fréttir / Handaband staðfestir danskan ríkisborgararétt

Handaband staðfestir danskan ríkisborgararétt

Inger Støjberg ráðherra fagnar fyrsta nýja, danska ríkisborgaranum með handabandi. ríkisborgarandu
Inger Støjberg ráðherra fagnar fyrsta nýja, danska ríkisborgaranum með handabandi.

Inger Støjberg, innflytjenda- og aðlögunarráðherra Dana, veitti níu einstaklingum danskan ríkisborgararétt við hátíðlega athöfn fimmtudaginn 17. janúar. Var það í fyrsta sinn sem ráðherrann tók þátt í slíkum viðburði frá því að ný dönsk lög um ríkisborgararétt tóku gildi 1. janúar 2019.

Á dönsku tala menn um grundlovsceremoni – stjórnarskrárathöfn – sem venjulega fer fram í sveitarfélaginu þar sem nýi ríkisborgarinn býr. Athöfnin 17. janúar var með öðru sniði vegna gildistöku nýju laganna og komu nýju ríkisborgararnir til Kaupmannahafnar frá níu mismunandi stöðum í Danmörku.

Í nýju lögunum er meðal annars mælt fyrir um að þeir sem koma til athafnarinnar taki í hönd viðkomandi embættismanns til að staðfesta veitingu ríkisborgararéttarins. Ríkisstjórnarflokkarnir, Danski þjóðarflokkurinn og stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn, Jafnaðarmannaflokkurinn, samþykktu nýju lögin 29. júní 2018.

Hverjum þeim sem sótt hefur um danskan ríkisborgararétt og fengið hann ber taka berhentur í hönd embættismanns. Með reglunni er knúið á um að ekki verði farið að óskum múslima sem neita að taka í hönd einhvers af gagnstæðu kyni.

Við athöfnina 17. janúar lýsti Støjberg mikilvægi handabandsins, í því fælist staðfesting á að ríkisborgararétturinn hefði verið veittur. „Einmitt á því augnabliki verða menn ríkisborgarar,“ sagði ráðherrann.

Innan Venstre-flokksins (mið-hægri), flokks Støjberg, eru ekki allir sáttir við nýju lögin Thomas Andresen, bæjarstjóri í Aabenraa á Suður-Jótlandi, gagnrýndi skylduna til handabands og sagði hana „ganga of langt“ og bera vott um „yfirlæti“.

Athöfnin 17. janúar var í Eigtveds Pakhus í Kaupmannahöfn. Segir í fréttum að þar hafi verið fleiri fjölmiðlamenn en nýir handhafar ríkisborgararéttarins. Málið veki athygli út fyrir landamæri Danmerkur.

„Í því felst eitthvað alveg sérstakt að fá danskan ríkisborgararétt,“ sagði ráðherrann og bætti við: „Nú getum við notið sameiginlegrar hygge. Það er einnig hluti þess að vera Dani.“

Boðið var upp á léttar veitingar við athöfnina.

Sveitarstjórnir efna framvegis til athafna með nýjum ríkisborgurum. Neiti einhver þeirra að staðfesta rétt sinn með handabandi er það fræðilega séð skylda sveitarstjóra að tilkynna höfnunina til útlendingayfirvalda.

Nokkrir sveitarstjórar hafa lýst óánægju með að þurfa að sinna handabands-skyldunni. Lars Løkke Rasmussen forsætisráðherra sagði danska ríkisútvarpinu (DR) sl. haust að hann hefði skilning á þessari afstöðu. „Þá verðum við að finna aðra leið í málinu. Við teljum rétt að þetta fari fram á heimavelli,“ sagði forsætisráðherrann.

 

 

Skoða einnig

Rússar við Kharkiv – Úkraínumenn sækja á Krím

Rússar hafa sótt fram á nokkrum stöðum í Úkraínu undanfarna daga en yfirhershöfðingi NATO í …