Home / Fréttir / Mike Pompeo utanríkisráðherra ræðir viðskipti, öryggi og loftslag í Reykjavík

Mike Pompeo utanríkisráðherra ræðir viðskipti, öryggi og loftslag í Reykjavík

Mike Pompeo og Katrínu Júlíusdóttir í Ráðherrabústaðnum.
Mike Pompeo og Katrínu Júlíusdóttir í Ráðherrabústaðnum.

 

Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, hafði nokkurra klukkustunda viðdvöl á Íslandi föstudaginn 15. febrúar 2019. Bandarískur utanríkisráðherra hafði þá ekki komið til Íslands frá því í maí 2008 þegar Condoleezza Rice hitti Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, þáv. utanríkisráðherra, og Geir H. Haarde, þáv. forsætisráðherra, í Reykjavík.

Pompeo hefur í vikunni verið á ferð um Evrópu til að rækta tengsl við ríkisstjórnir þeirra landa sem hafa eins og Ísland verið „afskipt“ af hálfu Bandaríkjanna um árabil.

Þegar demókratinn Barack Omaba var Bandaríkjaforseti voru virkjuð bandarísk lagaákvæði um að takmarka ætti ferðir háttsettra opinberra bandarískra embættismanna til Íslands vegna hvalveiða Íslendinga. Þá var bandarískum embættismönnum fyrirlagt að geta þess ávallt í samtölum við íslenska embættismenn að Bandaríkjastjórn væri andvíg hvalveiðum Íslendinga.

Heimsókn Pompeos hófst um klukkan 12.00 og lauk síðdegis.

Hér fyrir neðan er fréttatilkynning stjórnvalda um komu Pompeos, tvær fréttir af ruv.is og ein af mbl.is.

 

Fréttatilkynning utanríkisráðuneytis og forsætisráðuneytis:

 

„Viðskipti, málefni norðurslóða og öryggis- og varnarmál voru meðal umræðuefna á hádegisverðarfundi Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkisráðherra og Michael Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sem haldinn var í Hörpu í dag [15. febrúar 2019], en Pompeo var staddur hér á landi í vinnuheimsókn í boði Guðlaugs Þórs. Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, tók einnig á móti Pompeo í Ráðherrabústaðnum í kurteisisheimsókn þar sem ráðherrarnir ræddu meðal annars loftslagsbreytingar, kjarnorkuafvopnun og Norðurskautsmál, auk þess sem þau ræddu tvíhliða samskipti landanna.

 

Á fundi utanríkisráðherranna var ákveðið að setja á fót árlegt viðskiptasamráð á milli Íslands og Bandaríkjanna, með þátttöku opinberra aðila og einkageirans, í því augnamiði að auka frekar tvíhliða viðskipti og fjárfestingar á milli landanna.

 

„Þetta er mjög ánægjulegur áfangi og í samræmi við þá stefnu Íslands að opna á frekari viðskiptatengsl við Bandaríkin. Þau eru okkar stærsti og mikilvægasti einstaki markaður enda nema árleg heildarviðskipti ríkjanna hátt í hundrað milljörðum króna. Ég vænti þess að hið árlega samráð skili okkur markverðum árangri fram á við og þátttaka aðila einkageirans verður mikilvægur liður í því,“ segir Guðlaugur Þór.

 

Mike Pompeo og Guðlaugur Þór Þórðarson á blaðamannafundi Hörpu.
Mike Pompeo og Guðlaugur Þór Þórðarson á blaðamannafundi Hörpu.

Ráðherrarnir ræddu auk þess mannréttindamál og málefni norðurslóða, en Ísland tekur við formennsku í Norðurskautsráðinu í maí. Þá ræddu þeir ennfremur öryggismál samhliða þeim breytingum sem verða norðurslóðum vegna áhrifa loftslagsbreytinga.

 

„Ísland og Bandaríkin eru samherjar í Norðurskautsráðinu og eru sammála um að vinna áfram að sjálfbærri þróun og stöðugleika á norðurslóð. Hafið sameinar okkur og verður meðal áherslumála Íslands í okkar formennskutíð og við væntum góðs af samstarfi við Bandaríkin og önnur ríki Norðurskautsráðsins. Við stöndum einnig frammi fyrir ýmsum áskorunum, líkt og á sviði leitar og björgunar, sem mikilvægt er að ríki vinni saman að enda hafsvæðin stór og innviðir á norðurslóðum takmarkaðir,“ segir Guðlaugur Þór.

 

Atlantshafsbandalagsið fagnar sjötíu ára afmæli sínu í Washington í apríl og ræddu utanríkisráðherrarnir samvinnu Íslands og Bandaríkjanna innan bandalagsins, sem og tvíhliða samstarf ríkjanna á sviðum öryggis- og varnarmála, sem hefur farið vaxandi á umliðnum árum og tekið mið af breytingum og horfum í öryggisumhverfi Evrópu og á Norður Atlantshafi.

 

„Samstarf ríkjanna í öryggis- og varnarmálum á sér langa og farsæla sögu, grundvallast á samningum og tekur mið af aðstæðum hverju sinni. Framlag Íslands, sem hefur farið vaxandi og er ávallt borgaralegt í eðli sínu, er mikils metið innan Atlantshafsbandalagsins og í Washington. Ísland verður áfram traust og trúverðugt bandalagsríki – líkt og undanfarin sjötíu ár,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson.

 

Að loknum vinnuhádegisverði tók Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, á móti utanríkisráðherra Bandaríkjanna í Ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu. Á fundi sínum ræddu þau um áhrif loftslagsbreytinga og ákvörðun Bandaríkjanna um að segja sig frá Parísarsamkomulaginu, sem forsætisráðherra sagði hafa verið mikil vonbrigði. Hvatti hún bandarísk stjórnvöld til þess að taka virkan þátt í alþjóðlegri baráttu gegn þeim alvarlegu afleiðingum loftslagsbreytinga sem heimurinn stendur frammi fyrir.

 

„Til að árangur náist í baráttunni gegn loftslagsbreytingum þarf þátttöku allra þjóða og nú erum við komin að þeim tímapunkti að aðgerða er þörf. Ég hvatti utanríkisráðherra Bandaríkjanna til dáða í þeim efnum,“ segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.

 

Þróun á sviði kjarnorkuafvopnunarmála var einnig rædd og meðal annars sú staða sem komin er upp í tengslum við uppsögn Bandaríkjanna á samningnum við Rússa um meðaldræg kjarnavopn. Lýsti forsætisráðherra yfir áhyggjum sínum á þróun mála og lagði áherslu á mikilvægi þess að komið yrði í veg fyrir nýtt vopnakapphlaup í heiminum. Þar minnti hún utanríkisráðherra Bandaríkjanna á að í þjóðaröryggisstefnu Íslands er kveðið á um að Ísland verði friðlýst fyrir kjarnorkuvopnum, að teknu tilliti til alþjóðlegra skuldbindinga.

 

Í lok heimsóknar sinnar kynnti Pompeo sér varnartengda starfsemi Landhelgisgæslu Íslands á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli.“

 

Klukkan 14.31 birtist neðangreind frétt Auðar Aðalsteinsdóttur á ruv.is:

„Á blaðamannafundi fyrir stundu sagðist Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra hafa rætt viðskiptasamband Íslands og Bandaríkjanna á fundi sínum með Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna. Hann sagði enn ónotuð tækifæri í viðskiptum milli landanna og þeir hefðu ákveðið að koma á samráðsvettvangi á sviði viðskipta milli ríkjanna. Pompeo sagðist vonast til að það bæri fljótlega ávöxt.

 

Guðlaugur Þór og Pompeo voru spurðir hvort það væri upphafið að einhverju meira, fríverslunarsamningum eða öðru. Þeir útilokuðu það ekki og sögðu að þó að þeir geri sér grein fyrir að það séu hindranir í veginum standi vonir þeirra til meira og áframhaldandi viðskiptasambands.

 

Í ræðum sínum lögðu Pompeo og Guðlaugur Þór áherslu á náin tengsl Íslands og Bandaríkjanna í gegnum tíðina. „Við erum bandarískari en aðrar Evrópuþjóðir,“ sagði Guðlaugur. Löndin séu tengd gegnum sameiginlegan arf en einnig grundvallarviðmið og gildi sem þurfi að vernda.

 

Þeir töluðu einnig báðir um að landfræðilegar breytingar í Norðurhöfum, sem meðal annars opna nýjar flutningaleiðir, kalli á frekari samvinnu landanna, til dæmis á sviði leitar og björgunar. Löndin eigi bæði hagsmuna að gæta á þessu svæði og nauðsynlegt sé að efla samstarfið.

 

Pompeo sagðist vonast til að geta eflt efnahagsleg tengsl þjóðanna og minntist á að Bandaríkin séu orðin stærsta einstaka viðskiptaþjóð Íslands. „Það verða alltaf áskoranir og við getum ekki tekið viðskiptasambönd sem sjálfsagðan hlut,“ sagði Pompeo. Stjórnvöld í Bandaríkjunum vilji nú rækta aftur viðskiptasambönd sem fyrrverandi stjórnvöld hafi vanrækt. „Við munum ekki lengur taka vini, sanna bandamenn og samstarfsaðila sem sjálfsagðan hlut. Við höfum hreinlega ekki efni á að vanrækja þá. Við sækjumst líka eftir raunverulegu samstarfi við ykkur á Norðurslóðum, sem verða sífellt mikilvægari, og hlökkum til að vinna með ykkur að þeim málum. Við vitum að þegar Bandaríkin hörfa, fylla Kínverjar og Rússar í skarðið, það er óhjákvæmilegt ef við erum ekki þar. Við hlökkum til að standa þétt með Íslandi í samstarfinu á norðurslóðum,“ sagði Pompeo.“

 

Klukkan 18.21 birtist þessi frétt Kristínar Sigurðardóttur á ruv.is:

 

„Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra lýsti vonbrigðum sínum með að Bandaríkjamenn hafi dregið sig úr Parísarsamkomulaginu þegar hún átti fund með utanríkisráðherra Bandaríkjanna í dag. Þá hvatti hún til þess að böndum yrði komið á útbreiðslu kjarnorkuvopna. Jafnframt lýsti hún áhyggjum yfir því að samkomulag við Rússa væri í uppnámi.

 

Katrín átti óformlegan tuttugu mínútna fund með Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, í ráðherrabústaðnum um tvöleytið í dag.

 

„Annars vegar setti ég á dagskrá að ræða loftslagsmál og lýsti vonbrigðum mínum með það, og vonbrigðum okkar með það að Bandaríkin hafi dregið sig út úr Parísarsamkomulaginu. Síðan ræddum við líka kjarnorkuafvopnun og þá stöðu sem er uppi þar sem samkomulag Bandaríkjamanna og Rússa er auðvitað í uppnámi um áframhaldandi afvopnun. Og ég lýsti áhyggjum mínum af þeirri stöðu. Þeirri sýn að það sé auðvitað mjög mikilvægt að koma böndum á útbreiðslu kjarnorkuvopna í heiminum til að tryggja betur öryggi okkar allra,“ segir Katrín.

 

En voru mannréttindamál og tilefni mótmælanna fyrir utan ráðherrabústaðinn rædd?

 

„Utanríkisráðherra tók þau mál upp. Við ákváðum það fyrirfram að hann myndi nýta sinn tíma sem var rýmri til þess að taka þau mál upp. Við fengum bæði afhenta áskorun um að við tækjum það upp og hann tók þau mál upp við hann á sínum fundi,“ segir Katrín.“

 

Á mbl.is birtist viðtal við Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra klukkan 18.28:

 

Ég lagði áherslu á tvö mál á fundinum. Annars vegar Norðurskautsráðið, sem Ísland tekur við formennsku í í maí, þar sem ég ítrekað það hversu miklu máli það skipti að við náum að viðhalda góðum og friðsömum samskiptum um þetta svæði, og hins vegar loftlagsbreytingar þar sem við sammæltumst um að vera ósammála. Sú umræða tók mestan tíma á fundinum.“

Þetta segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í samtali við mbl.is um fund hennar með Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, í ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu í Reykjavík. Katrín segist enn fremur hafa rætt um kjarnorkuafvopnum þar sem hún hafi lýst áhyggjum sínum af uppsögn kjarnorkuvopnasamkomulagsins á milli Bandaríkjanna og Rússlands.

„Þetta voru nokkurn veginn sömu mál og ég ræddi á leiðtogafundi NATO síðasta sumar við forseta Bandaríkjanna þar sem ég áréttaði þá afstöðu mína og okkar að því fleiri kjarnorkuvopn, því verr,“ segir Katrín. Spurð um þau ummæli Pompeo á blaðamannafundi í dag að Bandaríkin vildu efla tengsl sín við Ísland á viðskiptasviðinu og í varnarmálum segir hún:

„Það er auðvitað varnarsamningur í gildi á milli Íslands og Bandaríkjanna en á sama tíma hefur ekki verið rætt um neina fasta viðveru hér á landi og það var ekki rætt á okkar fundi,“ segir Katrín. Það hefði ekki farið framhjá neinum að aukin hernaðarleg áhersla væri á Norður-Atlantshafið og Norðurslóðir en hún hefði haldið á lofti sínum sjónarmiðum um að friðsamleg samskipti væru alltaf besta lausnin og eina lausnin sem dugaði.“

 

 

 

 

Skoða einnig

Utanríkisráðherra Póllands hvetur til endurhervæðingar í Evrópu

Evrópuþjóðir verða að gera áætlun til langs tíma um endurhervæðingu til að skapa mótvægi við …