Varðberg, samtök um vestræna samvinnu og alþjóðamál, efnir til hádegisfundar 12.00 til 13.00 fimmtudaginn 8. mars í ráðstefnusal Þjóðminjasafns við Suðurgötu.
Umræður um öryggi borgara hér á landi og annars staðar beinast í vaxandi mæli að skipulagðri glæpastarfsemi og viðbrögðum yfirvalda við henni. Til að ræða þetta mál hefur stjórn Varðbergs fengið tvo yfirmenn innan lögreglunnar, Jón F.Bjartmarz, yfirlögregluþjón hjá ríkislögreglustjóra (RLS), og Karl Steinar Valsson, aðstoðaryfirlögregluþjón hjá embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu.
Jón F. Bjartmarz: Skipulögð glæpastarfsemi og alþjóðleg lögreglusamvinna.
Jón F. Bjartmarz hefur verið yfirlögregluþjónn hjá embætti ríkislögreglustjóra frá 1997 og er sviðsstjóri löggæslu- og öryggissviðs sem nær til almannavarnadeildar, alþjóðadeildar, fjarskiptamiðstöðvar, greiningardeildar og sérsveitar. Hann hóf störf sem lögreglumaður árið 1979. Auk lögreglumenntunar hefur hann sótt nám í skóla breska landhersins í sprengjueyðingu, skóla bandarísku alríkislögreglunnar, FBI, 1992 og lögregluháskóla FBI 2001. Þáttakandi í alþjóðlegu samstarfi á sviði löggæslu og borgaralegra öryggismála.
Karl Steinar Valsson: Ráða íslensk lögregluyfirvöld við skipulagða brotastarfsemi?
Karl Steinar Valsson er aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu (LRH). Hann hóf störf sem lögreglumaður árið 1986. Auk lögreglumenntunar er hann menntaður afbrotafræðingur og með meistaragráðu í viðskiptafræði og stjórnun (MBA). Hann hefur starfað sem stjórnandi ýmissa deilda lögreglu síðan 1997. Síðan 2007 hefur hann stýrt fíkniefnadeild LRH sem í dag sérhæfir sig í rannsóknum á skipulagðri brotastarfsemi.
Fundarstjóri: Björn Bjarnason, formaður Varðbergs.