Home / Viðburðir Varðbergs / Rannsóknarheimildir lögreglu – hádegisfundur Varðbergs

Rannsóknarheimildir lögreglu – hádegisfundur Varðbergs

Rannsóknarheimildir lögreglu

Hádegisfundur Varðbergs,
fimmtudaginn 14. mars í Þjóðminjasafni

Stefán Eiríksson, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, flytur erindi um rannsóknarheimildir lögreglu á hádegisfundi Varðbergs fimmtudaginn 14. mars í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns klukkan 12.00 til 13.00.

Miklar umræður hafa verið undanfarið um rannsóknarheimildir lögreglu. Frumvarp innanríkisráðherra um breytingu á ákvæði um símahlustun hefur legið fyrir þingi í allan vetur án þess að hljóta afgreiðslu úr þingnefnd. Nefndin hefur hins vegar samþykkt tillögu um að fela innanríkisráðherra  að vinna og leggja fyrir alþingi frumvarp sem veitir lögreglu sambærilegar heimildir og lögregla annarra norrænna ríkja hefur til að rannsaka og grípa til fyrirbyggjandi aðgerða gegn skipulagðri glæpastarfsemi.

Á Varðbergsfundinum gefst tækifæri til að ræða þessi mál við yfirmann stærsta lögregluembættis landsins.

Stefán Eiríksson fæddist á Akureyri 6. júní 1970. Hann lauk embættisprófi í lögfræði frá Háskóla Íslands 1996 og fékk leyfi til málflutnings fyrir héraðsdómi 1997. Hann var lögfræðingur í dóms- og kirkjumálaráðuneyti 1996-1999, sendiráðunautur í sendiráði Íslands í Brussel 1999-2001 og skrifstofustjóri dómsmála- og löggæsluskrifstofu dóms- og kirkjumálaráðuneytis 2001-2006. Árið 2006 var hann skipaður lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu og hefur gegnt því embætti síðan. Stefán hefur átt sæti í mörgum nefndum á vegum ríkisins á sviði löggæslumála og fleiri sviðum, starfað við kennslu samhliða öðrum störfum og er í dag stundakennari í lögfræði við Háskólann í Reykjavík. Þá hefur hann skrifað fræðigreinar í innlend og erlend tímarit og bækur á sviði löggæslumála og rannsókna sakamála.

Skoða einnig

Brottför varnarliðsins – þróun varnarmála – ráðstefna fimmtudag 6. október

Utanríkisráðherra Lilja D. Alfreðsdóttir setur ráðstefnu um brottför varnarliðsins og þróun varnarmála í fyrlestrarsal Þjóðminjasafnsins …