Home / Viðburðir Varðbergs / Opinn fundur um almannavarnir

Opinn fundur um almannavarnir

Varðbergsfundur um almannavarnir,
fimmtudaginn 31. janúar kl. 12.00 til 13.00
í Þjóðminjasafninu.

Undanfarin ár hefur reynt á almannavarnakerfið vegna náttúruhamfara. Óveður í haust og í vetur eru nýjustu dæmin um hvernig kerfið er virkjað til að tryggja öryggi almennings. Þetta mikilvæga öryggiskerfi alls almennings er í sífelldri þróun og mótun. Samhæfingar- og stjórnstöð almannavarna í Skógarhlíð er virkjuð þegar nauðsyn krefst að mati þeirra sem koma að stjórn leitar og björgunar eða viðbragða við hættuástandi. Liður í öflugum almannavörnum er miðlun upplýsinga um hlutverk þeirra og eðli.

Varðberg hefur boðið Víði Reynissyni, deildarstjóra almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra, að flytja erindi á opnum fundi í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns fimmtudaginn 31. janúar klukkan 12.00 til 13.00. Hann mun ræða um almannavarnir í nútíð, nýjar áskoranir og öryggi almennings.

Víðir Reynisson gekk í Hjálparsveit skáta í Reykjavík árið 1986 og hefur síðan tekið þátt í fjölmörgum aðgerðum í þágu almannaöryggis, þar á meðal umfangsmiklum björgunaraðgerðum eins og snjóflóðunum árið 1995. Upphaflega var hann almennur félagi, síðar stjórnandi hópa og að lokum þátttakandi í svæðisstjórn.

Árið 2000 hóf Víðir störf hjá Almannavörnum ríkisins og varð starfsmaður við embætti ríkislögreglustjóra þegar málefni almannavarna voru flutt þangað árið 2003. Hann lauk prófi frá lögregluskóla ríkisins árið 2006 og tók í árslok við sem deildarstjóri almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra. Hann hefur sem yfirmaður samhæfingarstöðvar almannavarna leitt samhæfingu milli viðbragðsaðila, opinberra stofnana og ráðuneyta.

Víðir var einn stjórnenda alþjóðabjörgunarsveitar Slysavarnafélagsins Landsbjargar milli áranna 2005-2011. Hann er nú félagi í UNDAC-sveitinni (United Nation Disaster Assessment and Coordination Team). Hann hefur einnig hlotið þjálfun innan almannavarnakerfis ESB. Hann starfaði sem formaður starfshóps EFTA um almannavarnir árin 2004-2005 og hefur setið í almannavarnanefnd ESB frá árinu 2003.

Allir velkomnir.

Skoða einnig

Brottför varnarliðsins – þróun varnarmála – ráðstefna fimmtudag 6. október

Utanríkisráðherra Lilja D. Alfreðsdóttir setur ráðstefnu um brottför varnarliðsins og þróun varnarmála í fyrlestrarsal Þjóðminjasafnsins …