Athygli félagsmanna Varðbergs er hér með vakin á því að vefsíðan vefsugerc33.sg-host.com hefur verið endurgerð og þar er ætlunin að birta reglulega fréttir sem varða málefni, innlend og erlend, sem falla undir markmið félagsins. Umræður um öryggismál í okkar heimshluta hafa aukist mjög undanfarin misseri og telur stjórn Varðbergs brýnt að nýta netið til að miðla upplýsingum til félagsmanna sinna bæði í því skyni að rækta betur samband við þá og vekja menn almennt til umhugsunar um hvert stefnir í utanríkis- og öryggismálum.
Fyrir utan að endurnýja vefsíðuna hefur Varðberg einnig haslað sér völl á samfélagssíðunni Facebook. Þar er unnt að stofna til umræðna um þau mál sem kynnt eru. Hægt er að ganga í facebook hóp Varðbergs í gegnum heimasíðuna eða með því að fara á eftirfarandi slóð: https://www.facebook.com/vardberg
Um leið og frá þessu nýmæli í starfi félagsins er skýrt skal vakin athygli á að þriðjudaginn 19. maí klukkan 16.30 til 18.00 verður málstofa í Norræna húsinu um öryggisáskoranir á norðurslóðum frá sjónarhorni Norðmanna. Rannsóknasetur um Norðurslóðir við Háskóla Íslands og norska sendiráðið efna til málstofunnar.
Dr. John Andreas Olsen, hershöfðingi í norska flughernum, sérfræðingur norska varnarmálaráðuneytisins um öryggismálastefnu Noregs og gestakennari við Varnarmálaháskóla Svíþjóðar (e. Swedish Defence University) flytur erindi um öryggis- og varnarstefnu Noregs með sérstöku tilliti til norðurslóða. Sendiherra Noregs á Íslandi, Cecilie Landsverk setur málþingið. Fundarstjóri er Alyson Bailes, aðjúnkt við Stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands, og leiðir hún jafnframt umræður.