NATO OG MIKILVÆGI GIUK-HLIÐSINS
Opinn Varðbergsfundur
föstudaginn 23. september kl. 12.00 til 13.00
í Safnahúsinu við Hverfisgötu
ræðumaður:
Clive Johnstone flotaforingi,
yfirmaður sameiginlegrar flotastjórnar NATO.
Miklar breytingar hafa orðið á umræðum um öryggismál í Evrópu og á Norður-Atlantshafi undanfarin misseri. Í erindi sínu ræðir Johnstone flotaforingi stöðuna á hafsvæðunum umhverfis Ísland. Enn á ný er talið nauðsynlegt að huga að hernaðarlegum umsvifum í hafdjúpunum og kafbátaleit auk öryggis á siglingaleiðum. Í því sambandi hefur athygli að nýju beinst að aðstöðu fyrir kafbátaleitarflugvélar á Keflavíkurflugvelli, réttum 10 árum eftir brottför bandaríska varnarliðsins þaðan. Að loknu erindinu svarar flotaforinginn spurningum fundarmanna.
Clive Johnstone flotaforingi, yfirmaður sameiginlegrar flotastjórnar NATO.
Clive Johnstone er yfirmaður sameiginlegrar flotastjórnar NATO. Hann er æðsti hernaðarlegi ráðgjafi innan NATO um flotamálefni og fer með yfirstjórn fastaflota NATO.
Johnstone hefur gegnt flestum æðstu trúnaðarstöðum innan breska flotans eftir að hann lauk námi í Durham-háskóla og Konunglega flotaháskólanum Britannia. Hann var sjóliði á herskipum, allt frá tundurduflaslæðurum til flugmóðurskipa. Sinnti hann í upphafi meðal annars störfum sem siglingafræðingur og flugbrautarstjóri. Hann hefur tekið þátt í aðgerðum á Norður-Atlantshafi, Karabíahafi, Persaflóa, Indlandshafi, við Balkanskaga og á Austur-Miðjarðarhafi.
Hann hefur verið skipherra um borð í freigátunni HMS IRON DUKE og landgönguliðsskipinu HMS BULWARK. Hann var sæmdur heiðursmerki fyrir framgöngu sína á Persaflóa og fyrir að bjarga breskum ríkisborgurum frá Beirút.
Störf hans í landi hafa snúist um rekstur flotans og skipulagningu aðgerða. Árið 2008 var hann skipaður yfirmaður starfsliðs breska herráðsformannsins. Í maí 2013 varð hann aðstoðar-yfirmaður breska flotaráðsins áður en hann varð yfirmaður sameiginlegrar flotastjórnar NATO í október 2015.
Johnstone flotaforingi hefur lagt sig fram um þátttöku í opinberum umræðum um flotamálefni og öryggi á hafinu bæði sem yfirmaður í breska flotanum og hjá NATO.
Hann og eiginkona hans Alison (atvinnu óperusöngkona) leita sér, þegar tækifæri gefst, hvíldar ásamt tveimur dætrum sínum í bústað sínum í Skotlandi.