LANDHELGISGÆSLAN OG VARNARTENGD VERKEFNI
FIMMTUDAGINN 3. APRÍL KL. 12.00 TIL 13.00
Í FYRIRLESTRASAL ÞJÓÐMINJASAFNS VIÐ SUÐURGÖTU
Landhelgisgæsla Íslands hefur frá 1. janúar 2011 annast daglega framkvæmd öryggis- og varnartengdra verkefna hér á landi. Verkefnið felst annars vegar í daglegum rekstri varnar- öryggis- og upplýsingakerfa Atlantshafsbandalagsins (NATO), rekstri öryggissvæða- og mannvirkja og samskiptum við stofnanir NATO, aðildarþjóðirnar og Norðurlandaþjóðirnar og hins vegar samskiptum við þá aðila hér á landi sem að verkefninu koma.
Starfsmenn Landhelgisgæslunnar annast rekstur íslenska loftvarnakerfisins sem er hluti af samþættu loftvarnakerfi NATO og mannvirkja Atlantshafsbandalagsins, þar með ratsjár- og fjarskiptastöðva hérlendis. Sá rekstur er eitt veigamesta framlag Íslands til sameiginlegra varna ríkja NATO.
Í Þjóðarpúlsi Gallup mældist Landhelgisgæslan nýlega með mest traust stofnana hér á landi eða 89%. Er þetta fjórða árið í röð sem Landhelgisgæslan mælist með mest traust íslenskra stofnana.
Georg Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslu Íslands frá ársbyrjun 2005. Áður gegndi hann embætti forstjóra Útlendingastofnunar, lögreglustjóra í Reykjavík, sýslumanns í Vestmannaeyjum auk fleiri trúnaðarstarfa innan réttarvörslukerfisins.
Jón Björgvin Guðnason, framkvæmdastjóri lofthelgis- og öryggismálasviðs Landhelgisgæslu Íslands í Keflavík síðan 2011. Hann var áður einn af stjórnendum Ratsjárstofnunar. Frá 2006 hefur hann annast framkvæmd öryggis- og varnartengdra verkefna fyrir Íslands hönd innan ramma NATO-samstarfsins.