Gísli Jökull Gíslason rannsóknarlögreglumaður fjallar um jarðveg byltinga
Hungur og uppskerubrestur oft upphaf átaka
Sigurður Bogi Sævarsson (sbs@mbl.is) blaðamaður á Morgunblaðinu birtir mánudaginn 11. apríl samtal við Gísla Jökul Gíslason lögreglumann sem er ræðumaður á fundi Varðbegs kl. 12.00 til 13.00 fimmtudaginn 14. apríl í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafnsins við Suðurgötu. Hér fyrir neðan er vitnað í grein Sigurðar Boga:Félagsleg ólga og byltingarástand, sem svo er kallað, á yfirleitt uppruna sinn í hungri, fátækt í bágum félagslegum aðstæðum sem skapað hafa vonleysi meðal fólks. Þetta segir Gísli Jökull Gíslason rannsóknarlögreglumaður sem næsta fimmtudag er framsögumaður á hádegisfundi Varðbergs – samtaka um vestræna samvinnu. Erindi Gísla Jökuls ber yfirskriftina Jarðvegur óeirða og byltinga. Titillinn útskýrir að nokkru umfjöllunarefnið, sem er tengsl óeirða, byltinga, matvælaverðs og -öryggis. Rannsóknir sýna að oft eru bein tengsl á milli þessa og því er jafnvel hægt að segja fyrir um óeirðir.Gísli Jökull hefur starfað sem lögreglumaður á höfuðborgarsvæðinu í 18 ár. Síðustu vikuna hefur hann staðið vaktina við Alþingi með mannfjöldastjórnunarsveit lögreglunnar. Mótmælin þar, sem beinst hafa gegn ríkisstjórninni, hafa verið friðsamleg og ekki hefur komið til neinna árekstra og átaka, sem er alveg eftir bókinni.
Gísli Jökull segir:
„Hér er ekki jarðvegur til óeirða og byltinga og mótmæli jafnan friðsamleg. Hins vegar eru ógnanir til staðar og tölvuárásir eru aðeins eitt af mörgu í breytilegum heimi sem eru nýjar áskoranir. Nýlega sáum við þróaða aðferð til að svíkja fé út úr fyrirtækjum þar sem þrjótar fóru inni í samskipti innan fyrirtækja. Íslendingar mega temja sér meiri öryggisvitund og það er skynsamlegt að vera með viðbragðsáætlanir fyrir verstu hugsanleg tilvik.“
Hver er hann?
• Gísli Jökull Gíslason starfar við rannsóknardeild Kópavogsstöðvar Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Hann hefur verið lögreglumaður síðan 1998. Hefur kennt á námskeiðum um seinni heimsstyrjöldina hjá Endurmenntun HÍ og flutt fyrirlestra.• Er kvæntur Pálínu Gísladóttur og eiga þau þrjár dætur.