Vefsíðan vefsugerc33.sg-host.com lýtur ritstjórn og ábyrgð Björns Bjarnasonar.
Varðberg – samtök um vestræna samvinnu og alþjóðamál er félag sem stofnað var á fjölmennum fundi á Hótel Sögu fimmtudaginn 9. desember árið 2010. Með félaginu runnu tvö félög: Samtök um vestræna samvinnu og Varðberg saman í eitt.
Samtök um vestræna samvinnu (SVS) voru stofnuð 19. apríl 1958. Knútur Hallsson, síðar ráðuneytisstjóra menntamálaráðuneytisins, kynntist samtökunum Atlantic Treaty Association (ATA) snemma árs 1958 á fundi í París en þau störfuðu sem samtök almennra borgara til stuðnings Atlantshafsbandalaginu, sem stofnað hafði verið árið 1949. Stóð Knútur að því ásamt fleirum að fá Pétur Benediktsson, sendiherra, bankastjóra og alþingismann, til að taka að sér formennsku í SVS sem gerðist aðili að ATA. Árið 1963 var Knútur kjörinn formaður SVS og gegndi hann formennsku til ársins 1973.
Varðberg, félag ungra áhugamanna um um vestræna samvinnu, var stofnað 18. júlí 1961 og stóðu ungir menn úr Alþýðuflokki, Framsóknarflokki og Sjálfstæðisflokki að stofnun félagsins. Í frétt um stofnfundinn í Morgunblaðinu 21. júlí segir að nafn félagsins beri vott „þeim einbeitta ásetningi félagsmanna að standa vörð um lýðræðislega stjórnarhætti í samstarfi við þær menningarþjóðir, sem okkur eru skyldastar.“
Guðmundur H. Garðarsson, viðskiptafræðingur, setti stofnfundinn sem haldinn var í Tjarnarcafé. Jón Rafn Guðmundsson, skrifstofustjóri, var kjörinn fundarstjóri og Hrafnkell Ásgeirsson, stud. jur., fundarritari. Sigurður Guðmundsson, framkvæmdastjóri, las fundargerðir undirbúningsnefndar en Guðmundur H. Garðarsson lýsti aðdraganda að stofnun félagsins og var hann kjörinn fyrsti formaður félagsins.
Á stofnfundinum flutti Óttar Þorgilsson, fulltrúi í upplýsingadeild
NATO, Varðbergi kveðjur og árnaðaróskir frá Dirk V. Stikker, framkvæmdastjóra Atlantshafsbandalagsins.
Upplýsingaskrifstofa NATO var opnuð í Reykjavík árið 1961. Henni var lokað í sparnaðarskyni ágúst 2010. Skrifstofan annaðist miðlun upplýsinga um NATO á Íslandi eins og nafn hennar bar með sér. Þar var auk þess samastaður stjórna SVS og Varðbergs.
Forstöðu fyrir upplýsingaskrifstofu NATO höfðu: Óttar Þorgilsson, Ólafur Egilsson, Magnús Þórðarson og Dagný Lárusdóttir.
Eftir að ákvörðun var tekin um að loka upplýsingaskrifstofu NATO á fyrri hluta árs 2010 ákváðu þáverandi formenn SVS, Björn Bjarnason, fyrrverandi ráðherra, og Varðbergs, Stefán Einar Stefánsson, viðskiptasiðfræðingur, að vinna að því á vettvangi félaganna að sameina þau í eitt. Gekk það eftir með samruna þeirra á stofnfundi á hótel Sögu 9. desember 2010, þar sem til varð félagið: Varðberg, samtök um vestræna samvinnu og alþjóðamál. Var Björn Bjarnason kjörinn fyrsti formaður þess.
Á stofnfundinum flutti Tryggvi Hjaltason, öryggis- og greiningafræðingur, erindi um leiðtogafund Atlantshafsbandalagsins í Lissabon 19. og 20. nóvember og nýja grunnstefnu bandalagsins í öryggismálum.
Stjórn hins sameinaða félags ákvað að leggja áherslu á að þróa rafrænt samband við félagsmenn og leggja áherslu á upplýsingamiðlun á netinu auk þess að efna til funda og stunda annað kynningarstarf. Var fyrsta rafræna bréfið sent til félagsmanna vegna fundar sem efnt var til 25. mars 2011 með Laurence C. Smith, prófessor við Kaliforníuháskóla í Los Angeles, sem ræddi um nýjar norðurslóðir.
Í maí 2015 var vefsíða Varðbergs uppfærð og hafin útgáfa daglegra frétta um utanríkis- og öryggismál auk þess sem síðan var tengd Facebook.
Tilgangur Varðbergs er:
1. Að beita sér fyrir umræðum og kynningu á alþjóðamálum, einkum þeim þáttum þeirra sem snúa að öryggis- og varnarmálum á norðurhveli jarðar.
2. Að efla skilning á gildi lýðræðislegra stjórnarhátta.
3. Að vinna að kynningu á samstarfi og menningu þjóða, sérstaklega störfum og stefnu Atlantshafsbandalagsins.
4. Að hafa samstarf við hliðstæð félög erlendis, eftir nánari ákvörðun stjórnar samtakanna.
Tilgangi sínum hyggst Varðberg ná:
1. Með fundum, málstofum og ráðstefnum með innlendum og erlendum fyrirlestrum.
2. Með samvinnu við háskóla og menntaskóla, rannsóknastofnanir, félög og hugveitur innan lands og utan.
3. Með þátttöku í Atlantic Treaty Association og Young Atlantic Treaty Association.
4. Með útgáfustarfi.