Home / Pistlar / Ólík afstaða forsætisráðherra og innanríkisráðherra til Schengen-samstarfsins

Ólík afstaða forsætisráðherra og innanríkisráðherra til Schengen-samstarfsins

Schengen

 

Munur er á afstöðu Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra og Ólafar Nordal innanríkisráðherra til Schengen-samstarfsins. Forsætisráðherra hefur horn í síðu samstarfsins af tilfinningaástæðum. Innanríkisráðherra vill að litið sé til staðreynda og tekið mið af þeim við ákvarðanir. Hér verður litið til Schengen og leitast við að skýra afstöðu ráðherranna.

Ólöf Nordal innanríkisráðherra sagði á alþingi fimmtudaginn 26. nóvember að Ísland væri ekki á leið úr Schengen-samstarfinu. Ráðherrann sagði að fylgst yrði vel með framvindu samstarfsins og hugað og kostum aðildar og göllum. Ekki hefði verið tekin ákvörðun um að herða landamæraeftirlit hér á landi. Það hefur verið gert í Svíþjóð og Noregi. Finnar hafa hvatt til þess að efnt væri til norræns fundart til að ræða hinar nýju hindranir sem eru einstæðar á landamærum Norðurlanda.

Á mbl.is er vitnað til ræðu innanríkisráðherra á alþingi en Ólöf Nordal sagði:

„Það er mik­il­vægt að við séum með opin aug­un fyr­ir bæði kost­um og göll­um þess að vera aðilar að Schengen. Og við skul­um ekk­ert vera hrædd við það að ræða líka um galla Schengen þótt að við þurf­um líka að gera okk­ur grein fyr­ir kost­un­um. Við höf­um ekki tekið neina ákvörðun um það að herða um­fram það sem nú er landa­mæra­eft­ir­litið. Þá er ég að tala um að reisa ís­lensku landa­mær­in. Sú ákvörðun er tek­in þegar fyr­ir ligg­ur hættumat rík­is­lög­reglu­stjóra.“

Fimmtudaginn 26. nóvember klukkan 08.00 hófu norskir landamæraverðir eftirlit með farþegum á ferjum frá Evrópu og einnig á aðkomuleiðum frá Svíþjóð. Norsk yfirvöld segja að norræna vegabréfasamstarfið sé enn virkt. Í því felst að þeir sem fara um landamæri Noregs í bíl eða ferju verða að geta sannað að þeir séu norrænir ríkisborgarar, það geti þeir gert með öðrum skilríkjum en vegabréfi. Yfirvöldin mæla hins vegar með að menn framvísi vegabréfi séu þeir beðnir um skilríki við komu til landsins.

Ætlun Norðmanna er að krefjast framvísunar á persónuskilríkjum næstu 10 daga af öllum sem koma með ferjum frá Þýskalandi, Danmörku og Svíþjóð til Noregs, bæði þegar farið er um borð eða komið frá borði. Í því felst að þeir sem hafa ekki fullnægjandi skilríki til að fara í land í Noregi fá ekki að fara um borð í ferjuna. Haldið verður uppi eftirliti í stöðvum á þjóðvegum frá Svíþjóð til Noregs en ekki verður öllum skipað að stöðva og framvísa skilríkjum.

Fulltrúi norskra yfirvalda segir að tilgangurinn sé ekki skapa Norðmönnum eða Norðurlandabúum erfiðleika við að fara yfir landamærin en hann mælir með að allir hafi vegabréf á sér.

Ákvarðanir norskra stjórnvalda í þessu efni má rekja til þess að forsætiráðherra Svíþjóðar kynnti þriðjudaginn 24. nóvember að Svíar hefðu ekki lengur stjórn á ástandinu vegna flóttamanna og hefðu því gripið til ráðstafana til að hefta straum aðkomufólks til landsins.

Erna Solberg, forsætisráðherra Noregs, sagði að Norðmenn gætu ekki beðið eftir að hið sama gerðist í Noregi og Svíþjóð. Þeir hefðu því þegar gripið til gagnráðstafana og mundu fylgjast náið með því sem gerðist í öðrum löndum og bregðast við á skjótan hátt.

Hinar hertu aðgerðir Norðmanna ná á þessu stigi ekki til þess að krafist sé skilríkja af þeim sem koma til landsins með flugvélum, járnbrautarlestum og langferðabílum. Dómsmálaráðherra Noregs hefur þó sagt að til slíks eftirlits kunni að koma. Það er í höndum ráðherrans og ráðuneytis hans að ákveða hvort eftirlitinu verði fram haldið eftir tíu daga.

Hér á landi bendir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra einkum á þá sem beina ekki gagnrýni að Schengen-samstarfinu og segir í Morgunblaðinu fimmtudaginn 26. nóvember „sérkennilegt „  að hér á Íslandi virðist „sumir einfaldlega líta framhjá því sem er raunverulega að gerast í Schengen þessa dagana“  það sé „komið á fremsta hlunn með að vera ónýtt“. Forsætisráðherra segir: „Þá er bara tvennt í stöðunni: Annaðhvort laga menn það [Schengen-samstarfið] eða þetta fyrirkomulag dettur upp fyrir.“

Í samtalinu kveðst forsætisráðherra aldrei hafa haft sterka sannfæringu fyrir þátttöku Íslands í Schengen-samstarfinu. Þá segir hann:

„Það sem yfirleitt hefur verið notað sem röksemd fyrir Schengen-samstarfinu er að það auðveldi ferðalög innan svæðisins og í öðru lagi auðveldi það upplýsingaskipti lögreglu á milli landa á svæðinu. Mér fannst lítil sem engin breyting verða, nema þá kannski til hins verra, með það hversu auðvelt væri að ferðast og ég get ekki ímyndað mér annað en lögregluyfirvöld í Evrópu haldi áfram að skiptast á upplýsingum þótt Schengen-samstarfinu ljúki. Það verður engin breyting á því, vegna þess að hér er um að ræða upplýsingar sem menn hafa hag af að deila með öðrum ríkjum á Schengen-svæðinu.“

Eins og af þessum orðum sést vísar forsætisráðherra ekki til neinna upplýsinga sem hann hefur aflað sér um Schengen-samstarfið eða eðli þess þótt hann hafi hinn 12. nóvember sl. sótt fjölmennan leiðtogafund Schengen- og Afríkuríkja í Valetta, höfuðborg Möltu. Af orðum ráðherrans má ráða honum þyki lítið til þess koma að fara ekki í gegnum vegabréfaeftirlit við komu til Schengen-ríkja auk þess sem hann „ímyndar“ sér eitthvað varðandi samvinnu lögreglu- og löggæsluaðila „þótt Schengen-samstarfinu ljúki“.

Eitt er að innleiða landamæraeftirlit og annað að binda enda á Schengen-samstarfið. Verði það gert hverfa allir samningar sem um það hafa verið gerðir og skuldbinda ríki á svo náin hátt til samstarfs að forveri Sigmundar Davíðs á formannsstóli Framsóknarflokksins, Halldór Ásgrímssom, leitaði oftar en einu sinni álits á því hvort aðild að Schengen stæðist stjórnarskrána.

Þá segir í Morgunblaðinu:

„Forsætisráðherra bendir á að upplýsingaskipti lögregluyfirvalda í Bretlandi við lögregluyfirvöld annars staðar í Evrópu séu mjög góð og þar breyti engu að Bretar séu ekki aðilar að Schengen-samstarfinu. Sama eigi við um Ísland, sem sé í góðum upplýsingaskiptum og samstarfi við hin Norðurlandaríkin, Interpol, Europol, Bretland og Evrópulöndin sem séu innan Schengen.

„Það er orðið nauðsynlegt, þegar glæpastarfsemi er orðin eins alþjóðavædd og raun ber vitni, að lögregla í hinum ólíku ríkjum hafi með sér samstarf og skiptist á upplýsingum. Það er ekki eins og menn sæju sér hag í því eða það væri raunhæft að loka á upplýsingastreymi á milli lögregluyfirvalda, hvað sem líður Schengen-samstarfinu.

Framtíð Schengen-samstarfsins er óráðin. Það er ekki bara mín skoðun, ég tel ástæðu til þess að árétta það. Þetta erum við að sjá gerast í Evrópu og þetta er það sem forystumenn Evrópusambandsins eru sjálfir að segja. Þetta þýðir að við Íslendingar þurfum að fylgjast með þessari þróun og vera reiðubúin að laga okkur að þeim breytingum sem kunna að verða,“ segir Sigmundur Davíð.“

Allt sýnist fremur reist á tilfinningu forsætisráðherra en vísan til einhvers sem er fast í hendi og komi í stað Schengen-samstarfsins.

Forsætisráðherra er þeirrar skoðunar að Bretar hafi sömu aðild að gagnagrunnum Schengen-samstarfsins og þátttakendur í samstarfinu. Það er ekki rétt.

Bretar fengu ekki aðgang að hinum mikla Schengen-gagnagrunni sem þekktur er undir skammstöfuninni SIS II fyrr en 13. apríl 2015. Gagnagrunninum er lýst sem „lykil-verkfæri í samvinnu yfirvalda einstakra landa í baráttunni gegn hryðjuverkum og alvarlegum, skipulögðum glæpum“.

Þegar til Schengen-samstarfsins var stofnað fyrir 30 árum var þegar hafist handa við að leggja grunn að samvinnu þjóðanna í baráttu gegn þeim sem mundu nota samstarf ríkjanna í ólögmætum tilgangi. SIS II er endurnýjuð útgáfa á þessum gagnagrunni þar sem meðal annars er að finna „lífkenni“ það eru einstaklingsbundin einkenni eins og ljósmynd, fingraför, lífsýni eða skönnuð sjónhimna. Innleiðingu á reglum um slíkar upplýsingar í ferðaskilríkjum má rekja beint til árásann á New York og Washington 11. september 2001 og hefður Ísland átt samleið með Schengen-ríkjunum við innleiðingu þeirra. Án þeirrar samleiðar hefði verið mun erfiðara en ella að skapa íslenska ríkinu núverandi stöðu, til dæmis með tilliti til flug- og siglingaöryggis sem er lykillinn að góðum og greiðum samgöngum ekki síst til Bandaríkjanna.

Þegar Bretar fengu heimild í apríl 2015 til að nota SIS II vegna aðildar sinnar að ESB var heimildin takmörkuð við lögreglurannsóknir en hún nær ekki til skoðunar á vegabréfum vegna stöðu Breta utan Schengen-samstarfsins.

Í SIS II hefur verið skráð gífurlega mikið magn upplýsinga til afnota fyrir lögreglulið við rannsókn mála. Upplýsingarnar sem er að finna í grunninum snerta ekki aðeins einstakling eða hlut sem stolið hefur verið, svo að dæmi sé tekið, heldur einnig fyrirmælin um það sem gera skal þegar viðkomandi einstaklingur eða hlutur hefur fundist. Í hverju landi starfa svonefndar SIRENE-skrifstofur sem hafa það hlutverk að vera tengi- og upplýsingaaðili vegna SIS-aðgerða.

Árið 2013 var skráð notkun á kerfinu rúmlega 1,2 milljarða skipti, árið 2014 var hún tæplega tveir milljarðar. Þeir sem nota kerfið segja að árangurinn af tilvist þess megi mæla. Í kerfi sem þessu nota menn enska orðið „hits“ um þau tilvik þegar upplýsingar eru slegnar inn í kerfið og það svarar með vísan til viðvörunar sem annað ríki hefur slegið inn í það.  Árið 2014 voru rúmlega 134.000 „hits“ við notkun kerfisins. Það sem fannst fyrir tilstilli SIS var meðal annars: 8.774 einstaklingar sem leitað var til handtöku; 3.961 týndir einstaklingar; 31.255 einstaklingar sem leitað var vegna rannsóknar mála; 34.155 hlutir; 25.888 þriðja ríkis borgarar sem höfðu ekki heimild til að koma inn á eða dveljast á Schengen-svæðinu. Auk þess var 23.942 sinnum leitað fyrir sér vegna einstaklinga eða hluta.

Hér skal ekkert fullyrt um hvort aðgangur Breta að SIS II kerfinu hafi opnað Schengen-ríkjum leið inn í breska lögreglukerfið, Police National Database, sem lýst er „umdeildu“ í The Register þaðan sem þessar upplýsingar eru fengnar. Biometrics Commissioner í Bretlandi, það er persónuvernd, telur að ekki sé nægilegt sjálfstætt ytra eftirlit með breska lögreglukerfinu.

Gagnagrunnurinn sem hér er lýst nýtist lögreglu beint við störf hennar og er í raun liður í hinu sameiginlega lögreglustarfi sem þróast hefur innan Schengen-samstarfsins og snýr að þremur meginþáttum: Europol, Evrópulögreglunni, Eurojust, einskonar saksóknaraembætti, og Cepol, evrópska lögregluskólanum. Ísland á aðild að þessu samstarfi vegna Schengen-aðildarinnar.

Að bera líkja aðild að þessu samstarfi við þátttöku í Interpol, alþjóðalögreglunni í Lyon í Frakklandi, er misskilningur. Interpol er ekki tæki til lögregluaðgerða heldur einskonar miðstöð fyrir tilkynningar sem menn vilja að berist til lögregluyfirvalda um heim allan. Þar hefur einnig orðið til rafrænn gagnagrunnur sem nýtist vel við leit að þeim eru eftirlýstir meðal annars þegar vegabréf eru borin saman við hann. Hafa mörg fölsuð skilríki fundist með því að nota þann gagnagrunn.

Stefnt er að því að í mars 2016 verði allar ytri landamærastöðvar Schengen-svæðisins beintengdar við þennan gagnagrunn Interpol og renni því upplýsingar í ferðaskilríkjum sjálfkrafa í gegnum grunninn og þeir sem starfa við landamæravörslu sjá þá „hits“ ef svo ber undir og geti haft afskipti af viðkomandi einstaklingi.

Í ágúst 2015 skilaði þverpólitísk þingmannanefnd tillögum til innanríkisráðherra um ný útlendingalög. Í tillögunum er meðal annars gert ráð fyrir að dregið verði úr heimildum til ákæru og refsingar vegna þess að framvísað er fölsuðum eða röngum skilríkjum við komu til landsins. Áform í þá veru ganga þvert á allar hugmyndir um að nýta betur gagnagrunn Interpol um stolin og týnd skilríki. Til hvers að leita að slíku ef athæfið er refsilaust? Hvaða skoðun skyldi forsætisráðherra Íslands hafa á þessu máli? Af hverju ætli engum detti í hug að stofna til umræðna um það þegar áhuginn er svo mikill á landamæravörslu og framkvæmd hennar?

Ákvörðun um tengingu ytri landamærastöðva Schengen-ríkjanna við Interpol-gagnagrunninn var tekin á aukafundi innanríkis- og dómsmálaráðherra Schengen-ríkjanna hinn 20. nóvember 2015 þegar þeir ræddu hert viðbrögð vegna hryðjuverkanna í París föstudaginn 13. nóvember. Aðild að framkvæmd þessara ákvarðana er mikilvæg fyrir íslensk yfirvöld vegna þess að Ísland er útvörður Schengen-svæðisins gagnvart Norður-Ameríku.

Í Morgunblaðinu fimmtudaginn 26. nóvember birtist frétt um að Isavia spái að 6,25 milljón farþega muni fara um Keflavíkurflugvöll árið 2016 en á árinu 2015 verði þessi fjöldi um 4,9 milljón farþegar. Á árinu 2016 munu 25 flugfélög fljúga á 80 áfangastaði frá flugvellinum. Gert er ráð fyrir að erlendum ferðamönnum fjölgi um 22,2% árið 2016 en þeir eru um 1,1 milljón árið 2015.

Vilji íslensk stjórnvöld segja skilið við Schengen-samstarfið er óhjákvæmilegt að fyrir liggi mat á hvaða áhrif slit á samstarfinu hafi fyrir hina miklu og sívaxandi starfsemi á Keflavíkurflugvelli. Augljóst er að samstarfið hefur hvorki staðið í vegi fyrir að fjölgun ferðamanna til landsins né vexti í flutningi fólks um Ísland yfir Atlantshaf.

 

 

 

 

 

Skoða einnig

Evrópska landamærastofnunin tæki til að tryggja gæslu Schengen-landamæra

  „Evrópusambandið stefnir að því að stíga stærsta evrópska samrunaskrefið til þessa með því að …