Home / Pistlar / Leitað leiða til að verja Schengen-landamæri þrátt fyrir vanbúnað Grikkja

Leitað leiða til að verja Schengen-landamæri þrátt fyrir vanbúnað Grikkja

Farandfólk vegalaust í Grikklandi,
Farandfólk vegalaust í Grikklandi,

 

Evrópskir innanríkisráðherrar samþykktu á fundi sínum í Amsterdam mánudaginn 25. janúar að kannaðar skyldu lagalegar leiðir til að framlengja til tveggja ára landamæravörslu á innri landamærum Schengen-ríkjanna sem hafin hefur verið til bráðabirgða í nokkrum ríkjum vegna straums farand- og flóttafólks til Evrópu og þessara ríkja.

Klaas Dijkhoff, innflytjendaráðherra Hollands, stjórnaði ráðherrafundinum. Hann sagði að þær reglur um lengd tímabundinna landamæravörslur, 6 mánuðir, dygðu ekki við núverandi aðstæður.

Þá ræddu ráðherrarnir einnig hvort flytja ætti ytri landamæri Schengen-svæðisins frá strönd Grikklands og landamærum þess gagnvart Tyrklandi að landamærum Makedóníu og Grikklands. Um þau landamæri fara þeir sem leggja leið sína frá Mið-Austurlöndum um Grikkland til ríkjanna norðar í Evrópu, Þýskalands og Norðurlanda.

Dijkhoff sagði markmiðið ekki að hrekja Grikkland út af Schengen-svæðinu öllu heldur að halda ríkjum sem hafa tekið upp landamæraeftirlit innan þess. Í Austurríki, Þýskaland, Danmörku og Svíþjóð hefur verið gripið til vörslu á landamærum til að stemma stigu við straumi fólks sem kemur að mestu um Grikkland. Frakkar tóku einnig upp landamæraeftirlit eftir hryðjuverkaárásirnar í París 13. nóvember.

Núgildandi reglur heimila Austurríkismönnum og Þjóðverjum sem gripu fyrstir til eftirlitsins í september að stunda það fram í maí. Eina leiðin til að framlengja heimildina til þessara ríkja er að framkvæmdastjórn ESB telji Grikki ófæra um að gæta ytri landamæra Schengen-svæðisins.

Hollenski ráðherrann sagði að á ráðherrafundinum hefði þess væri óskað að framkvæmdastjórnin tryggði lagalegar forsendur fyrir framlengingu á landamæravörslunni til bráðabirgða. Þá hefðu framkvæmdastjórninni verið „send skýr skilaboð“ um að hún veitti aðstoð á landamærum Makedóníu og Grikklands.

Grískir ráðherrar fóru hörðum orðum um þá sem hefðu hótað að reka Grikki úr Schengen-samstarfinu og setja vörslu við landamærin Grikklands og Makedóníu í því skyni að loka fólk inni í Grikklandi.

Ioannis Mouzalas, innflytjendaráðherra Grikklands, sagði á blaðamannafundi í Amsterdam: „Við höfum enga burði til að taka á móti öllu flóttafólkinu í Grikklandi. Við erum lítið land níu milljón mann, það er erfitt að taka við þremur milljónum flóttamanna.“

Hann sagði að yrði landamærunum lokað við Makedóníu mundi ólöglegum ferðum um þau fjölga og í Grikklandi stæðu menn fram fyrir neyðarástandi vegna þúsunda flóttamanna sem strandaglópa í Grikklandi.

Mouzalas og starfsbróðir hans Nikos Toskas, ráðherra almannaöryggis, sögðu að bornar væru lygar á Grikki með ásökunum um að þeir gættu ekki ytri landamæra Schengen-svæðisins. Að alþjóðalögum væri Grikkjum skylt að bjarga þeim sem kæmu á bátkænum frá Tyrklandi. Eina leiðin til að stöðva fólksstrauminn væri að ljúka stríðinu í Sýrlandi, bæta aðstæður fyrir flóttafólk í nágrenni Sýrlands og að Tyrkir stæðu við skuldbindingar sínar samkvæmt gildandi endursendingarsamningi við Grikki.

Aðrir ráðherrar létu sér ekki segjast við þetta og einkum ráðherrar frá Austurríki og Belgíu sögðu að stæðu Grikkir ekki við ábyrgð sína á gæslu landamæranna yrðu önnur ríki á leið aðkomufólksins að grípa til sinna ráða til að stöðva straum þess.

Thomas de Maizière, innanríksiráðherra Þýskalands, sagði að Grikkir yrðu að vinna „heimavinnuna sína“. Hann sagði: „Höfuðmarkmið mitt hér í dag var að taka af allan vafa gagnvart ríkjum sem ekki áttuðu sig á hinum knýjandi vanda að á næstu vikum verðum við að fækka þeim verulega sem koma til Þýskalands.“

Frásögnin hér að ofan er reist á frétt Valentinu Pop í The Wall Street Journal. Í breska blaðinu The Daily Telegraph sagði þriðjudaginn 26. janúar að Grikkir hefðu verið hvattir til að opna búðir fyrir 300.000 flóttamenn til að stöðva ferð þeirra norður á bóginn.

Þá segir breska blaðið að Theresa May, innanríkisráðherra Breta, hafi á Amsterdam-fundinum sakað aðra ráðherra um að gera ekkert til að sporna við krísunni sem nú ógnaði samheldni innan ESB.

Tekið er fram að May sé kunn fyrir efasemdir sínar um ESB-aðild Breta og hún sé ákaft hvött til að leiða „brottfarar“-baráttuna fyrir væntnalega þjóðaratkvæðagreiðslu í Bretlandi en á ráðherrafundinum hafi hún sagt: „Við höfum því miður talað meira en aðhafst.“

 

Í Le Monde segir þriðjudaginn 26. janúar að talið sé að framkvæmdastjórn ESB muni á fundi sínum miðvikudaginn 27. janúar taka afstöðu til óskar ráðherranna um að kanna lögfræðileg rök fyrir að lengja heimild til landamæravörslu til tveggja ára.  Segir blaðið að þá verði ákveðið að senda sérfræðinga til Grikklands til að kanna stöðuna á landamærum Tyrklands og Grikklands, ytri landamærum Schengen-svæðisins. Síðan verði tillaga send til leiðtogaráðs ESB sem verði að samþykkja hana með auknum meirihluta. Grikkir fá síðan þrjá mánuði til að bæta það sem þykir ekki í lagi. Talið er vonlaust að það takist miðað við fjölda fólks sem streymir yfir Eyjahaf þótt nú sé vetur (44.000 frá 1. janúar). Verði niðurstaðan sú að gæsla á ytri landamæranum sé enn ónóg leggur framkvæmdastjórnin til að Schengen-aðildarríki hafi heimild til að halda úti gæslu á landamærum sínum enn um tveggja ára skeið.

Frá desember 2015 hafa landamæraverðir í Makedóníu og Serbíu aðeins hleypt þeim í gegn sem taldir eru líklegir til að vera réttmætir hælisleitendur (Sýrlendingar, Afganir og Írakar). Við það hefur vandi Grikkja magnast. Þeir hafa ekki neina aðstöðu fyrir þá sem fara um landið frá Norður-Afríku eða Pakistan en komast ekki leiðar sinnar við Makedóníu. Spenna magnast vegna þessa. Mánudaginn 25. janúar var til dæmis Pakistani drepinn í búðum skammt frá landamærum Makedóníu eftir rimmu við Afgana. Hundruð farandfólks sofa undir berum himni í miðborg Aþenu.

Á grísku eyjunum neitar lögreglan að skrá þá sem koma frá Marokkó eða Alsír. Án opinberra skilríkja komast þeir síðan ekki á skipi til meginlandsins. Þetta leiðir til þess að hvergi er skjól að finna fyrir þetta farandfólk á eyjunum og svartur markaður með fölsk skilríki blómstrar. Grísk yfirvöld fara fram á aðstoð frá Frontex, Landamærastofnun Evrópu, við að endursenda fólkið til Tyrklands frá eyjunum. „Stjórnvöld í Marokkó eða Pakistan neita að taka við ríkisborgurum sínum og við förum þess við ESB að þrýst verði á Tyrki svo að þeir virði samning um endursendingu sem þeir hafa gert við Grikki og ESB,“ segir heimildarmaður gjörkunnugur málavöxtum við Le Monde.

Þegar kemur að gæslu landamæra Makedóníu og Grikklands vaknar spurning hvort Frontex geti komið þar við sögu þar sem Makedónía er hvorki aðili að ESB eða Schengen-samstarfinu. Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar ESB, útilokar þátttöku Frontex en segir að skoða megi „önnur úrræði“. „Það verður að reisa aðra varnarlínu,“ segir evrópskur stjórnarerindreki.

„Hvers vegna á að aðstoða Makedóníu í stað þess að leggja okkur lið?“ spyr háttsettur grískur ráðamaður. „Við höfum þörf fyrir að Evrópumenn sýni okkur samstöðu, ekki að vera ýtt til hliðar í Schengen, hafi Frontex ekki einu sinni lengur heimild til að hjálpa okkur myndum við ekki lengur ytri landamærin. Þetta er ábyrgðarlaus stefna.“

 

 

 

 

Skoða einnig

Ólík afstaða forsætisráðherra og innanríkisráðherra til Schengen-samstarfsins

  Munur er á afstöðu Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra og Ólafar Nordal innanríkisráðherra til Schengen-samstarfsins. …