
Á vefsíðu þýska blaðsins Frankfurter Allgemeine Zeitung birtist laugardaginn 2. janúar grein eftir Rainer Hermann þar sem hann greinir frá handbók Ríkis íslams um hvernig haga beri stríðsátökum við kristna menn og flytja þau til Evrópu. Greinin birtist hér í lauslegri þýðingu:
Rafbókin er 71 síða og hefst á setningu sem vekur ótta: „Stríðið hefst í hjarta Evrópu“. Í mars 2015 tókst að ná í eintak af bók á ensku sem ber titilinn Að halda lífi á Vesturlöndum. Handbók fyrir Mujahedin [heilagan stríðsmann]. Eintakið var tekið af Twitter-reikningi sem talinn var á vegum Ríkis íslams (RÍ) en hefur síðan verið lokað. Þetta var hvorki fyrsta né síðasta leiðbeiningarritið fyrir heilaga stríðsmenn með ráðum um hvernig þeir ættu að búa sig undir stríðið mikla í Evrópu. Það má þakka það vefsíðunni Memri Jihad and Terrorism Threat Monitor að menn kynntust þessu ógnvekjandi riti. Þar er að finna beinar lýsingar sem varpa ljósi á meginstefnu RÍ og getu samtakanna.
Í handbókinni er sigur yfir Róm lýst sem markmiðinu. Strax á forsíðu fyrsta heftis vef-tímaritsins Dabiq í júlí 2014 birtist mynd af Vatíkaninu. Hertaka Vatíkansins jafngilti endanlegum „sigri yfir hinum trúlausu“. Hugmyndafræðingar RÍ segja spámenn íslams hafa boðað að upphaf hins hinsta dóms yfir Róm hæfist með orrustu múslima gegn „her Rómar“ í Dabiq skammt frá Aleppo. Á tíma Mohammeds Ostroms hafi Konstantínópel, nú Istanbúl, verið miðstöð kristninnar en ekki Róm.
Hermenn RÍ eru búnir undir hina miklu orrustu við Aleppo ákveði „Róm“, það er Vesturlönd, að senda landhermenn til Sýrlands. Nú virðist forgangsmál hjá RÍ að færa sig upp á skaftið í Evrópu og breyta henni í vígvöll. Eftir að hafa orðið að hörfa frá Raqqa, fyrstu höfuðborg sinni, vegna loftárása Vesturlanda var í neyð ákveðið að sýna þá „dygð“ að flytja hluta yfirstjórnarinnar til Líbíu og halda þaðan áfram árásinni á Róm.
Í þessu skyni nýtist þeim að eigin sögn víðtæk blinda Vesturlanda þar sem því sé fagnað sem „sigri“ að tekist hafi að hrekja RÍ á brott úr íraska bænum Ramadi. Vegna þessa hafi flestir hinna tvö þúsund RÍ-hermanna sem höfðu bæinn á valdi sínu komist lifandi á brott til annarra bæja auk þess sem bærinn sjálfur sé víða rústir einar vegna loftárása Vesturlanda.
Hryðjuverkamenn geta slegist í hóp flóttamanna
Hluti yfirstjórnar RÍ og nokkur hundruð hermenn fóru strax í haust frá Raqqa um tyrkneskar hafnir og yfir Miðjarðarhaf til Líbíu. Næst Darna, hefðbundinni háborg öfgasinnaðra íslamista, stjórna þeir nú þegar hafnarborginni Sirte og leitast við að koma á fót ógnarstjórn hryðjuverkamanna á strönd landsins. Frá Líbíu eru aðeins nokkur hundruð kílómetrar til Ítalíu og Grikklands. Þaðan verður lagt af stað til þess sem RÍ hefur kynnt sem „sigur yfir Evrópu“. Í þessu skyni geta þeir slegist í hóp flóttamanna sem flýja í bátum til Evrópu.
Fyrir utan þetta er talið að RÍ ráði nú yfir þúsundum óvirkra félaga í Evrópu sem unnt sé að virkja. Þetta hafi verið gert hryðjuverkanóttina í París í nóvember. Þá var unnið eitt best skipulagða hryðjuverk í Evrópu. Meira að segja var undirbúið hvað fyndist á vettvangi ódæðisins – sýrlenskt vegabréf. Fyrir ódæðismönnunum vakti að telja umheiminum trú um að sýrlenskur múslimi hefði verið að verki, svo var ekki.
„Að afmá gráa svæðið“
Í íslamska heiminum hafa menn um nokkurt skeið rætt sín á milli að múslímar hafi tvisvar sinnum haldið af stað til Evrópu: á áttundu öld til þess að sigra Evrópu og í samtímanum til að flýja undan íslam. Til að snúast gegn þessari jákvæðu mynd af landi „hinna trúlausu kristnu“ hefur RÍ boðað það ráð í nýjasta hefti af vefritinu Dabiq að „afmá gráa svæðið“ sem geri múslimum og Vesturlandabúum kleift að búa hlið við hlið. Markmiðið er að beita hryðjuverkum til að skapa andrúmsloft ótta og hræðslu í þeim tilgangi að ýta undir starfsemi öfgaflokka og hreyfinga til hægri svo að múslimar eigi þann eina kost að ganga í lið með RÍ. Þannig verði unnið að því að „tryggja skiptingu heimsins“.
Denis Cuspert sem á sínum tíma var rappari í Berlín en tók svo upp nafnið Abu Talha al Almani og hóf að berjast með RÍ boðaði nokkrum mánuðum fyrir andlát sitt 15. október, á myndbandi sem tekið var í Sýrlandi, að óvirkir félagar mundu gera árásir í Evrópu. Á árinu 2015 fóru mörg myndbönd með sama boðskap um netheima. Á einu þeirra brenna franskir ríkisborgarar vegabréf sín og lýsa yfir stríði gegn Vesturlöndum þar sem þar hafi „menn vanvirt íslam og Múhameð“. Á öðru myndbandi þar sem töluð er rússneska segja skeggjaðir ungir menn sem segjast tala fyrir hönd „RÍ-Wilajat Kaukasus“ að öll meðul helgi tilganginn, jafnvel að eitra vatn. Þar segir einnig: „Kreml verður okkar, konur ykkar verða hórur okkar, börn ykkar þrælar okkar.“
Abu Muhammed al Adnani, talsmaður RÍ, hafði þegar í september 2014 hvatt til þess að almennir borgarar yrðu drepnir í þeim löndum sem tækju þátt í alþjóðlegu samstarfi gegn RÍ, „sama með hvaða aðferð – með sprengju, kúlu, hnífi, bifreið, steini eða sparki í magann hvar sem finna mætti krossfarana í heimalandi þeirra“. Hverjum sem úthellti „einum blóðdropa krossfara“ yrði umbunað, sagði Adnani. „Því í augum Allah erum við óvinir.“ Það var meira segja brugðist af alvöru við hótun með atómsprengju. Ástralska leyniþjónustan varaði vorið 2015 við því að RÍ ætlaði að búa til „óhreina sprengju“ tækist samtökunum að tryggja sér nægilega mikið af geislavirku efni frá sjúkrahúsum og rannsóknarstofnunum, þetta hefur greinilega verið á döfinni. Í einum kafla handbókarinnar Að halda lífi á Vesturlöndum er að finna leiðbeiningar um gerð atómsprengju en einnig fjarstýrðra og nagla-sprengja auk Mólótoff-kokkteila.
Lítt áberandi
Hinir nafnlausu höfundar handbókarinnar ráðleggja stríðsmönnum sínum að láta ekki útlit sitt draga að sér athygli í Evrópu heldur klæða sig að sið Evrópubúa. Karlar skuli skera skegg sitt og raka sig og konur forðast að klæðast svörtu frá toppi til táar. Geri þau þetta ekki segir í bókinni að leitað verði á þeim í flugstöðvum og þau fái enga vinnu hvort sem þau leiti hennar í verksmiðjum eða hjá hinu opinbera.
Þegar kemur að öflun fjár er mælt með því í bókinni að leitað sé félagslegrar aðstoðar standi hún til boða auk þess að svindla með greiðslukortum og Paypal gefist færi á því. Veitt er ráð um hvernig verðandi ódæðismenn eiga að nota netið án þess að skilja eftir sig spor þar og hvernig best sé að halda sér í bestu líkamlegu formi – með hlaupum og með því að hlaupa upp og niður tröppur – og hvernig æfa beri vopnaburð á óbeinan hátt. Loks birtast kort í bókinni sem sýna hvernig maður kemst frá Sýrlandi til Tyrklands en einnig hvernig stríðsmaður án ferðaskilríkja á að haga ferðum sínum frá Bretlandi til Sýrlands eftir að hafa framið ódæði. Upphafssetning bókarinnar er: „Stríðið hefst í hjarta Evrópu.“