Home / Pistlar / (Greining) Er lækkunin á olíuverði varanleg?

(Greining) Er lækkunin á olíuverði varanleg?

Olíuverð fellur nú hratt og er í kringum 40 dollara á tunnuna eftir að hafa verið yfir 100 dollara síðustu ár og hæst 145 dollarar árið 2008. Það er ýmislegt sem veldur þessari lækkun á olíuverði og eru flestir greinendur sammála um að minnkandi eftirspurn frá ríkjum eins og Kína í kjölfar þess að það hægist á hagkerfinu þar ásamt aukinni framleiðslu síðustu ára séu helstu orsakir núverandi verðlækkunar. En það eru fleiri þættir sem hafa áhrif og þeir þættir kunna að hafa meiri varanleg áhrif á orkuverð í heiminum. Ljóst er t.a.m. að þegar kemur að ákveðinni tegund af orku þá hefur kostnaðarkúrvan verið beygð niður á við og mun hún halda áfram að beygjast í þá átt. Í Bandaríkjunum t.a.m. er nú að eiga sér stað bylting í skilvirkni við að ná olíu upp úr jörðinni með svokallaðri fracking aðferð, þegar vatni og þrýsting er sprautað ofan í jarðlögin þannig að þau brotni og losa þannig um olíu sem áður var ill-aðgengileg. Á aðeins 8 árum hefur skilvirkni við þessa aðferð margfaldast og kostnaður þ.a.l. lækkað mikið. Olíufyrirtækið Texas Eagle Ford segir t.a.m. að það sé með 70% ávöxtun miðað við olíuverð í 55 bandaríkjadali tunnuna. Í dag eru til framleiðendur í þessum flokk, oft nefndir leirsteins olíu framleiðendur (shale oil), sem koma út á jöfnu þó að olíuverð fari niður í 10 dollara á tunnuna. Mörg þessara fyrirtækja geta því unað sér vel þrátt fyrir að orkuverð haldist í 40 dollurum á tunnuna til lengri tíma.oil-price-drop

Á CERA WEEK energy conference í ár kom t.d. fram að kostnaður við framangreinda aðferð muni líklega falla um 40% á þessu ári og 60-70% fyrir lok 2016. Þetta þýðir að kostnaðarverð við að ná í orku eru að falla hratt vegna tækniframfara. Á sömu ráðstefnu tilkynnti t.a.m. orkufyrirtækið Pioneer Natural Resources að þau hefðu borað 18.000 feta brunn á 16 dögum. Sambærilegur brunnur hefði tekið 30 daga í fyrra. Framfarirnar eru ótrúlegar.

Allt þetta hefur að sjálfsögðu gífurlega miklar afleiðingar fyrir heiminn, að mestu jákvæðar sé litið til efnahagslegra þátta, en þessi tegund af olíuborun er umdeild þegar kemur að umhverfisáhrifum. En fyrir ríki sem eru háð háu olíverði er þessi þróun ekki eins jákvæð. Eftirfarandi setningu mátti lesa í nýlegri skýrslu frá seðlabanka Saudi Arabíu: “It is becoming apparent that non-OPEC producers are not as responsive to low oil prices as had been thought, at least in the short-run,” sem lauslega útleggst að það sé orðið ljóst að olíuframleiðendur utan OPEC ríkjanna eru ekki eins viðkvæmir fyrir lágu olíuverði og áður var talið. Saudi Arabía reyndi fyrir stuttu að valda þrýsting á skuldsettan leirsteins olíu geiran í Bandaríkjunum með því að auka framleiðslu sína og ná þannig verðinu undir „sársaukamörk“ hjá þeim iðnaði. Í dag er þó orðið ljóst að þetta vopn snerist í höndunum á þeim og lítur út fyrir að leirsteins iðnaðurinn geti veðrað verðlækkanir á olíu nokkuð vel og varanlega á meðan olíuiðnaður Saudi Araba getur það ekki eins vel. OPEC löndin eru gjarnan sökuð um að hafa vísvitandi haldið verði á olíu yfir 90 dollara á tunnuna síðustu ár sem hafði þær óvæntu afleiðingar að nýir afkimar í olíuiðnaði gátu vaxið og þróast í skjóli hás olíverðs.

Myndin sýnir hvert verð þarf að vera á hverja olíutunnu til þess að tilgreind ríki geti verið á núlli í ríkisfjármálum sínum.
Myndin sýnir hvert verð þarf að vera á hverja olíutunnu til að efnahagur tilgreindra ríkja sé á núlli.

Þá er ljóst að það eru miklir möguleikar til leirsteinsolíuvæðingar í fjölda ríkja eins og Ástralíu, Kanada, Kína, Argentínu og Mexíkó sem öll eru rík af þessum jarðlögum. Sádarnir eru hinsvegar orðnir svo stressaðir að þeir réðust fyrir stuttu í ríkisskuldabréfaútboð, það fyrsta síðan 2007.

Þessi þróun hefur fært Bandaríkjunum enn meira vald á alþjóðasviðinu vegna þess að þeir eru sífellt nær því að verða sjálfum sér nógir um orku ásamt því að geta haft vaxandi áhrif á orkuframleiðslu og þar með verðlagningu í heiminum. Þetta kemur svo að sjálfsögðu verst niður á ríkjum sem þurfa helst hátt olíuverð til þess að halda hagkerfinu gangandi en það eru helst ríki í Mið-Austurlöndum, Rússland, Venezúela og Nígería eins og sjá má í myndinni meðfylgjandi þessari greiningu.

Það er enn e.t.v. of snemmt að segja til um það hvort að verðlækkun á olíu sé varanleg en það eru nokkrir þættir sem gefa von um að lækkunin kunni að vera til lengri tíma:

  1. Mikið magn af olíujarðlögum eru að verða aðgengilegari á miklum hraða vegna tækniframfara.
  2. Íranir sem eru stórir olíuframleiðendur eru nú líklega að komast aftur óhindrað inn á alþjóðamarkaði vegna afléttingar á viðskiptabanni.
  3. Annarskonar orkugjafar eins og sólarorka verða sífellt skilvirkari en sólarorka er nú næstum helmingi ódýrari en hún var fyrir 10 arum.
  4. Enn er að finnast töluvert magn af olíu og gaslindum víðsvegar um heiminn sem er ávöxtur þess að þegar olíuverð var hátt var meiri peningur til þess að leita af olíu á svæðum sem áður var talið að það myndi ekki borga sig.

Það er því full ástæða til að fyllast bjartsýni, eða svartsýni eftir því hvar þú ert staddur í heiminum, um að orkuverð kunni að vera að lækka varanlega. Í það minnsta verður að teljast ólíklegt að jafnvægisverð olíu næstu ára sé yfir 100 dollara.

 

Skoða einnig

Ólík afstaða forsætisráðherra og innanríkisráðherra til Schengen-samstarfsins

  Munur er á afstöðu Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra og Ólafar Nordal innanríkisráðherra til Schengen-samstarfsins. …