„Evrópusambandið stefnir að því að stíga stærsta evrópska samrunaskrefið til þessa með því að koma á fót Evrópsku landamæra- og strandgæslunni sem ætlað er að koma í stað Frontex, landamærastofnun Evrópu, og fá ný völd þar á meðal til að beita liðsafla ef hætta er talinn á að ytri landamæri Schengen-svæðisins verði rofin. Talið er að á tímabilinu frá janúar til nóvember 2015 hafi 1,5 milljón manna farið ólöglega inn á Schengen-svæðið. Þessi tala er hærri en nokkur önnur í sögu Evrópusambandsins.“
Þannig hefst grein eftir Alexandros Koronakis, ritstjóra og framkvæmdastjóra blaðsins New Europe, mánudaginn 14. Desember 2015. Blaðið er gefið út í Brussel og einnig er unnt að nálgast það á netinu. Hér verður þessi fróðlega grein ritstjórans að hluta íslenskuð en hún á erindi við Íslendinga vegna aðildar að Schengen og Frontex en varðskip og eftirlitsflugvél Landhelgisgæslu Íslands hafa starfað á vegum Frontex. Alexandros Koronakis segir:
„Að sögn ESB-embættismanna og í skjölum sem New Europe hefur kynnt sér er stefnt að þvi að Evrópska landamæra- og strandgæslan verði starfrækt undir nýrri ESB-stofnun sem á þessu stigi er kölluð Evrópska landamærastofnunin. Talið er að fjárveitingar til stofnunarinnar verði tvöfalt hærri en þær hafa verið til Frontex og starfsmannafjöldi meira en tvöfaldur miðað við Frontex. Þá verði gert ráð fyrir hið minnsta 1.500 manna bakvaktarsveitum sem kalla megi út frá aðildarríkjum stofnunarinnar með þriggja daga fyrirvara. Framkvæmdastjórn ESB mun kynna ráðherraráði ESB og ESB-þinginu tillögur sínar þriðjudaginn 15. desember.
ESB glímir við flóttamannakrísu og stendur frammi sambærilegum vanda og í september 2010 þegar aðildarríki ESB áttuðu sig á að regluverk og stofnanir á heimavelli dugðu ekki til að takast á við fjármálakreppuna. Þá varð til Evrópska bankasambandið, ein eftirlitsstofnun til að fylgjast með bankaeftirlitum í einstökum ríkjum. Stofnuninni var falin úrlausn verkefna á sameiginlegum grunni sem ríkjunum var um megn að leysa hvert um sig. Í síðustu viku virkjuðu Grikkir þrjú ESB-neyðarákvæði til að snúast gegn flóttamannakrísunni en þau dugðu ekki og er nú svo komið að hvorki einstök aðildarríki né núverandi ESB-kerfi ræður við vandann. Evrópska landamærastofnunin mun hafa heimildir og getu til að takast á við flóttamannakrísuna á sameiginlegum grunni. Á fundi leiðtogaráðs ESB í síðasta mánuði var það niðurstaða leiðtoganna að ekkert eitt ríki gæti tekist á við þennan vanda.
Frans Timmermans, fyrsti varaforseti framkvæmdastjórnar ESB, sagði við New Europe:
„Að hafa stjórn á ytri landamærum ESB hvílir sameiginlega á okkur öllum sem evrópskt viðfangsefni. Við verðum að aðstoða ytri landamæraríki í krísu og við þurfum tæki til að geta gert það á árangursríkari hátt. Þess vegna mun framkvæmdastjórn ESB leggja til að komið verði á fót Evrópskri landamæra- og strandgæslu – með mun víðtækari heimildir en núverandi landamærastofnun Frontex – sem gegnir í grunn samræmingarhlutverki – og fái hún aðgang að bakvaktarsveitum landamæravarða og tæknibúnaði. Örugg ytri landamæri gera okkur kleift að heimila frjálsa för innan ESB.“ [Það sem Timmermans segir um ESB á raunar við um allt Schengen-svæðið og EES.]
Tekist á við annmarka á Frontex
Framkvæmdastjórn ESB vill leggja niður Frontex og að ný og endurbætt Evrópsk landamæra- og strandgæsla komi í staðinn. Þetta verður gert með nýrri reglugerð en ekki breytingu á þeirri sem fyrir er. Annmarkar á Frontex voru taldir þess eðlis að ekki dygði það eitt að breyta þeim. Frontex er aðeins samræmingaraðili, hefur ekki einu sinni heimild til að kaupa tæki til eigin nota.
Björgun mannslífa á hafi úti
Þegar Frontex kom til sögunnar var unnt að hafa stjórn á straumi flótta- og farandfólks. Frontex hafði ekki sem stofnun heimild til leitar og björgunar. Sé litið til Lampedusa þar sem hundruð manna týndu lífi gat Frontex aðeins tekið þátt í sameiginlegum aðgerðum sem takmörkuðust við landamæravörslu. Þótt við ESB blöstu þúsundir báta á leið yfir landamærin við ómannúðlegar og hættulegar aðstæður til ferðalaga gat Frontex aðeins bjargað fólki í sjávarháska ef tilviljun réð hvort til fólksins sást eins og mælt er fyrir um hafréttarlögum.
Fleiri starfsmenn og bakvaktarsveitir Evrópsku landamæra- og strandgæslunnar
Í upphafi árs 2015 voru 300 fastir starfsmenn hjá Frontex en þeim var fjölgað í 400 eftir að flóttamannakrísan magnaðist. Starfsmennirnir sinna þó flestir skrifstofustörfum. Starfsmenn úti á vettvangi fengust aðeins með því að aðildarríkin miðluðu þeim til Frontex. Beðið var um 775 slíka starfsmenn til að aðstoða Grikki og Ungverja fyrr á þessu ári en önnur ríki hafa til þessa aðeins sent 447.
Heimildarmenn innan ESB segja að fastir starfsmenn nýju Evrópsku landamæra- og strandgæslunnar verði 1.000. Þá verði aðildarríkin beðin um að skuldbinda sig til að mynda alls 1.500 manna bakvaktarsveit eða varalið. Menn í þessari sveit megi kalla til starfa innan þriggja daga frá því að þess sé óskað af landamærastofnuninni. Þegar þessir menn starfa fyrir hana verði ESB-fáninn á einkennisbúningi þeirra til að greina þá frá starfsmönnum ríkja og annarra alþjóðastofnana á vettvangi.
Samhliða því sem ríki skuldbindi sig til að láta í té þennan mannafla verði þeim einnig skylt að leggja fram nauðsynleg tæki. Fyrir utan að geta leitað eftir þessum mannafla og tækjum er ráðgert að nýja stofnunin hafi einnig heimild til að kaupa tæki og búnað, í því felst að hún geti eignast eigin skip, þyrlur, eftirlitsbifreiðar og nauðsynleg tæki til að taka fingraför. Grikkir vita ekki enn hvernig þeir eiga að eignast 50 Eurodac-fingrafaravélar til að setja í skráningarstöðvar fyrir flóttamenn á ytri landamærum sínum.
Evrópska heimsendingarstofan
Um þessar mundir er eitt erfiðasta viðfangsefni þeirra sem glíma við flóttamannakrísuna að senda einstaklinga sem uppfylla ekki skilyrði til hælisvistar aftur til heimalands síns. Frontex gegnir mjög takmörkuðu hlutverki við heimsendingar, um þessar mundir snýst það aðeins um samræmingu og leit að tækifærum til virkrar samvinnu milli aðildarríkja sem hafa í hyggju að senda fólk til baka til sömu landa. Þegar slíkt er á döfinni auðveldar Frontex samræmingu í því skyni að lækka útgjöld og stuðla að skilvirkni.
Evrópska heimsendingarstofan verður hluti af Evrópsku landamærastofnuninni og mun ráða yfir sérfræðingum um brottvísanir og heimsendingar sem senda má til starfa með skömmum fyrirvara. Sérfræðingarnir munu hafa heimild til að grípa sjálfir til brottvísana og skipuleggja flugferðir til að framkvæma þær. Þetta skiptir sérstaklega miklu máli við skráningarstöðvar á ytri landamærunum þar sem fjöldi aðkomufólksins veldur því oft að yfirvöld ráða ekki við að senda fólk sem hafnað hefur verið hælisvist aftur til síns heima.
Samræmt heimsendingarskjal
Í fyrsta sinn verður einnig gefið út samræmt, evrópskt heimsendingar- eða brottvísunarskjal. Þetta skjal verður fellt inn í endurkomusamninga sem Evrópuríki gera við þriðju ríki. Þetta skjal mun tryggja að þriðju ríki hafi hvorki lagalegar né stjórnsýslulegar ástæður til að hafna endurkomu fólks sem reist er á evrópska heimsendingar- eða brottvísunarskjalinu. […]
Evrópska landamærastofnunin getur aðstoðað ríki utan Schengen-svæðisins
Reglur um Frontex banna stofnuninni samstarf við þriðju ríki. Nýja landamærastofnunin fær rýmri heimildir til að starfa með nágrannaríkjum óski þau eftir því. Þetta skiptir til dæmis miklu þegar til þess er litið að flótta- og farandfólk streymir inn í ESB-lönd um Balkanlönd utan sambandsins eins og Serbíu, Albaníu og Fyrrverandi júgóslavenska lýðveldið Makedóníu.
Ágallar á ytri landamærum
Nú er málum þannig háttað að starfsmenn Frontex hafa ekki öryggisvottun til að skoða gagnagrunna Europol og Interpol eða aðra gagnagrunna sem geta auðveldað þeim að tryggja öryggi Schengen-landamæra gegn glæpamönnum og hryðjuverkamönnum. Starfsmenn hinnar nýju Evrópsku landamærastofnunar munu hafa nauðsynlegar heimildir til að auka öryggi á landamærum Evrópu gegn slíkum ógnum.
Þá er ráðgert, sé það talið nauðsynlegt, að tengifulltrúar verði innan ráðuneyta einstakra ríkja svo að miðla megi samstundis upplýsingum til Evrópsku landamærastofnunarinnar. Tengifulltrúarnir munu einnig starfa í ríkjum utan ESB sé þess óskað og það hlýtur samþykki.
Tengifulltrúarnir munu gera stofnuninni kleift að gera tímanlega ráðstafanir til að koma í veg fyrir krísu. Stofnunin mun hvetja aðildarríki til að grípa til endurbóta sé það talið nauðsynlegt eða senda hraðlið á vettvang til að takast á við bráðan landamæravanda.
Frumkvæðisréttur til varnar Schengen-landamærum
Djarfasta tillagan varðandi Evrópsku landamærastofnunina er að hún fái heimild til að grípa til sinna ráða sé hætta talin á að ytri landamærum Schengen-svæðisins sé raskað eða ógnað. Þá getur stofnunin komið til sögunnar jafnvel þótt aðildarríki hennar biðji ekki um það, raunar gildir hið sama þótt viðkomandi ríki samþykki ekki að það þarfnist aðstoðar.
Tillagan um þetta efni hefur ekki verið samþykkt af sérfræðingum ESB en engu að síður er hún til skoðunar, þótt ólíklegt sé að attvik af þessu tagi gætu orðið enda mundu þau skapa mikla innbyrðis spennu milli ríkja.
Stjórnendur ríkja á borð við Grikkland hafa löngum hvatt til þess að ESB liti á gæslu ytri landamæra sem sameiginlegt verkefni. Það verður í fyrsta sinn gert með Evrópsku landamærastofnuninni með henni verða settar samræmdar kröfur sem gilda hvarvetna og beitt samræmdum aðferðum við að verja hin sameiginlegu landamæri.[…]
Evrópska landamærastofnunin og Evrópska landamæra- og strandgæslan eru svar Evrópu til bjargar Schengen-svæðinu verði samþykkt að koma þeim á fót. Með þeim verður einnig stigið djarfasta evrópska samrunaskrefið í sögu sambandsins: skref sem er óhjákvæmilega nauðsynlegt, ekki til að styrkja kjarna Evrópusambandsins, heldur til vernda aðildarríkin 28.“