Home / Fréttir / Zelenskíji sakar Pútin um að stuðla að „hnattrænu stórslysi“

Zelenskíji sakar Pútin um að stuðla að „hnattrænu stórslysi“

Volodymyr Zelenskíj Úkraínuforseti sakar Vladimir Pútín Rússlandsforseta um að stuðla að „hnattrænu stórslysi“ og hruni matvælamarkaða heims með árásum á korngeymslu og hleðslukerfi skipa í höfn við Dóná.

Snemma að morgni miðvikudagsins 2. ágúst gerðu Rússar drónaárás á helstu höfn Úkraínumanna  við Dóna í borginni Izmail, handan árinnar er Rúmenía. Árásin leiddi til þess að kornverð hækkaði um heim allan.

Nokkrar byggingar í Izmail eyðilögðust og hætta varð að lesta korni um borð í skip sem höfðu komið þangað til að ná í farm sinn og skjóta sér þannig undan kornsölubanninu sem Pútín setti um miðjan júlí og varð í raun hafnbann á Úkraínu.

Korni lestað í Izmail
.

Bann Rússa brýtur gegn samkomulagi sem gert var undir forsjá Sameinuðu þjóðanna (SÞ). Með vísan til bannsins hófu Rússar árásir á korngeymslur Úkraínumanna og hafnarmannvirki.

Ríkisstjórn Úkraínu segir að eyðilögð hafi verið 40.000 tonn af kornvöru sem senda átti til markaða í Afríku, Kína og Ísrael.

Í sjónvarpsávarpi að kvöldi 2. ágústs sagði Zelenskíj að fyrir rússneska ríkið væri þetta ekki aðeins orrusta gegn frelsi og landi Úkraínumanna heldur berðust Moskvumenn til þess að valda „hnattrænu stórslysi“. Það væri til marks um „sturlun“ þeirra að þeir vildu að matvælamarkaðir heims hryndu, það verði hættuástand vegna verðlagshækkana og truflun á birgðaflutningum.

Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseti hvatti Pútín til að hefja að nýju viðræður um framhald samnings sem Erdogan beitti sér fyrir í fyrrasumar til að tryggja hindrunarlausan útflutning á korni frá Úkraínu um Svartahaf og út á heimsmarkað. Rússar riftu samkomulaginu 17. júlí 2023.

Eftir að Erdogan hafði snúið sér símleiðis til Rússa sagði talsmaður hans að forsetinn hefði hvatt til að ekki yrði ýtt undir frekari spennu milli Rússa og Úkraínumanna.

Dmitríj Peskov, talsmaður Pútíns, sagði að forsetinn þyrfti samþykki við breytingum á framkvæmd samkomulagsins svo að Rússar gætu flutt út korn og áburð án þess að á þá væru settar greiðsluhömlur með refsiaðgerðum. Yrði tekið tillit til hagsmuna Rússa tæki samkomulagið strax gildi að nýju.

 

Skoða einnig

Ekki lengur í fyrsta sæti eftir 99 ár – hægri sveifla í Noregi

Í fyrsta sinn frá árinu 1924 er gengið til kosninga í Noregi án þess að …