Home / Fréttir / Zelenskíj varar Norðmenn við norðurher Rússa

Zelenskíj varar Norðmenn við norðurher Rússa

 

Fylgst með ræðu Zelenskíjs í sal norska stórþingsins.

Volodymyr Zelenskíj, forseti Úkraínu, ávarpaði norska stórþingið með fjarfundabúnaði miðvikudaginn 30. mars. Hann flutti þar varnaðarorð vegna árásarstefnu ráðamanna í Moskvu gagnvart nágrannalöndum sínum. Stefnan næði einnig til Noregs.

„Mér finnst líklegt að þið teljið nýjar hættur steðja að landamærum ykkar gagnvart Rússlandi á norðurslóðum,“ sagði forsetinn og minnti á að undanfarin ár hefðu Rússar stóreflt herafla sinn í norðri.

„Þeir hafa komið sér upp svo stórum herafla þarna uppi [á norðurslóðum] að heilbrigð skynsemi dugar ekki til að skýra það. Gegn hverjum? Hvers vegna gera þeir þetta?“ spurði Zelenskíj.

Hann sagði að orrusturnar sem nú væru háðar í Úkraínu mundu „ráða framtíð Evrópu“. Með því að herja á Úkraínumenn vekti fyrir Rússum að halda áfram tilraunum sínum til að eyðileggja grunnstoðir Evrópu „og þessi árás beinist ekki aðeins að okkar landamærum heldur einnig ykkar landamærum“ sagði hann við norsku þingmennina.

Úkraínuforseti nefndi söguleg tengsl og sagði að norskir víkingar hefðu oft heimsótt Kyív fyrir 1000 árum. Hann vakti einnig máls á framlagi Úkraínumanna til frelsunar Norður-Noregs úr höndum herafla þýskra nazista. Hann sagði að fyrsti sovéski hermaðurinn sem kom til að frelsa Kirkenes í Norður-Noregi í október 1944 hefði verið Úkraínumaður frá borginni Sumy. Nú væri hart barist við Rússa í Sumy-héraði.

Forsetinn hvatti norsku ríkisstjórnina til að veita landi sínu og þjóð meiri stuðning. Hann nefndi sérstaklega flaugar til að granda skipum, loftvarnakerfi og varnarkerfi gegn bryndrekum.

Þá óskaði hann einnig eftir stuðningi Norðmanna við endurreisnina að stríðinu loknu og nefndi sérstaklega reynslu Norðmanna af meðferð einstaklinga, almennra borgara og hermanna, með áfallastreituröskun vegna stríðs.

Vegna innrásar Rússa ákvað norska ríkisstjórnin í fyrsta sinn í sögu landsins að láta aðila að stríðsátökum í té vopn þegar 2000 M72 vopn til að granda skriðdrekum voru send til Úkraínu í lok febrúar. Sama dag og Zelenskíj ávarpaði norska stórþingið, 30. mars, ákvað norska stjórnin að senda 2000 M72 til viðbótar til Úkraínu.

 

 

Skoða einnig

Bardagareyndur hershöfðingi settur yfir rússnesku herstjórnina í norðvestri

Þriggja stjörnu hershöfðinginn Aleksandr Lapin var 15. maí skipaður yfirmaður Leningrad-herstjórnarsvæðisins í Rússlandi. Svæðið er …