Home / Fréttir / Zelenskíj: Úkraínumenn hafa gert kraftaverk

Zelenskíj: Úkraínumenn hafa gert kraftaverk

Volodymyr Zelenskíj flytur jólaávarp sitt.

Volodymyr Zelemskíj, forseti Úkraínu, hét því í ávarpi að kvöldi aðfangadags að færa Úkraínumönnum „aftur frelsi“. Hann hvatti þjóðina til að láta ekki bugast í vetrarkuldum þrátt fyrir árásir og ógnanir Rússa.

Zelenskíji sagði Úkraínumenn hafa haldið út þrátt fyrir „árásir, ógnanir, kjarnorkuhótanir, hryðjuverk og flugskeytaárásir“ frá því að Rússar réðust inn í land þeirra fyrir 10 mánuðum.

„Frelsið er dýrkeypt, þrældómur er þó enn dýrkeyptari“ sagði Zelenskíj í sjónvarpsávarpi sínu. „Við skulum halda út þennan vetur af því að við vitum fyrir hvað við berjumst.“

Þá sagði forsetinn:

„Við munum fagna á frídögum okkar! Eins og alltaf. Við munum brosa og vera hamingjusöm. Eins og alltaf. Aðeins eitt er öðru vísi. Við munum ekki bíða eftir kraftaverki. Við höfum nefnilega sjálf gert það.“

Forsetinn vék sérstaklega að þeim Úkraínumönnum sem eru fangar Rússa um jólin og þeim sem leitað hafa skjóls erlendis vegna grimmdar innrásarliðsins.

„Við munum færa öllum íbúum Úkraínu, körlum og konum, frelsi á ný,“ lofaði forsetinn.

Nokkrum klukkustundum fyrir ávarp Zelenskíjs höfðu að minnsta kosti 10 manns og 60 særst í flugskeytaárás Rússa á hafnarborgina Kherson í suðurhluta Úkraínu.

Forsetinn fordæmdi árásina og sagði hana hryðjuverk gegn almennum borgurum við upphaf jólahátíðarhalda. Hann sýndi myndir af því sem gerðist í Kherson, þar sem menn lágu í blóði sínu á götum úti, bifreiðar stóðu í ljósum logum og svartur reykur reis upp úr nálægu fjölbýlishúsi.

„Hér blasir við lífið eins og það er í Úkraínu og hjá Úkraínumönnum,“ sagði forsetinn á Telegram samfélagssíðunni 24. desember. Hann sagði morðárásirnar gerðar „til að hræða og til skemmtunar“.

Jólin flutt

Flestir Úkraínumenn eru í rétttrúnaðarkirkjunni og hafa því haldið jól hátíðleg 7. janúar eins og gert er í Rússlandi. Rétttrúnaðarkirkjan í Úkraínu brást hins vegar við innrás Rússa á þann veg að heimila söfnuðum að halda jólin hátíðleg 25. desember eins og almennt er gert á Vesturlöndum.

Patríarkinn af Kiýv hefur sagt að hann íhugi varanlega breytingu á dagsetningu jólahaldsins ef meirihluti safnaða vilji það. Í fyrra sýndi könnun að 58% Úkraínumanna vildu enga breytingu nú eru 44% hlynnt henni. Stuðningurinn er einkum mikill meðal ungs fólks, þótt aðeins þriðjungur fólks haldi jól 25. desember.

Tæplega 14 milljónir Úkraínumanna eru fjarri heimilum sínum um jólin annaðhvort innan Úkraínu eða annars staðar í Evrópu og geta því ekki fagnað jólum heima hjá sér.

 

Skoða einnig

Döpur og dauf ræða „nýs“ Trumps á flokksþingi

„Nýi Donald Trump róaði og þaggaði niður í þjóðinni í 28 mínútur í gærkvöldi. Síðan …