Home / Fréttir / Zelenskíj situr toppfund NATO – Svíar enn utan dyra

Zelenskíj situr toppfund NATO – Svíar enn utan dyra

framkvæmdastjóri NATO, og
Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, og Gitanas Nauseda, forseti Litháens.

Ríkisoddvitafundur NATO verður í Vilníus, höfuðborg Litháens, í næstu viku. Gitanas Nauseda, forseti Litháens, gestgjafi fundarins sagði fimmtudaginn 6. júlí að þar verði „margt“ í boði fyrir Úkraínumenn sem óska eftir aðild að varnarbandalaginu.

„Ég hef á tilfinningunni að við munum komast að niðurstöðu sem valdi Úkraínumönnum ekki vonbrigðum og þar sem meira verður sagt en venjulega af okkar hálfu,“ sagði forsetinn.

Hann sagði að Volodymyr Zelenskíj Úkraínuforseti fengi kannski ekki allt sem hann vildi miðað við metnaðarfull áform hann en gann fengi örugglega mikið.

Í fyrri viku sagði Zelenskíj að hann óskaði eftir að fá „mjög skýrt og skiljanlegt merki“ á fundinum um að Úkraína gæti gengið í NATO eftir að stríðinu lyki.

Þá var jafnframt gefið til kynna af stjórnvöldum í Kyív að forsetinn færi ekki til Vilníus nema komið yrði til móts við væntingar hans.

Aðild Svía

Þess hefur verið vænst að Tyrkir féllu frá andstöðu sinni við aðild Svíþjóðar fyrir ríkisoddvitafundinn í Vilníus.

Nú er ljóst að Ulf Kristersson, forsætisráðherra Svíþjóðar, tekur ekki þátt í fundinum vegna þess að Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseti hafnar enn komu Svía inn í bandalagið.

Erdogan beitir enn þeim rökum gegn Svíum að þeir veiti kúrdískum útlögum, óvinum Tyrklands, skjól, þeir séu félagar í Verkamannaflokki Kúrdistan sem litið er á sem hryðjuverkamenn af Erdogan og stjórn hans. Ungverska stjórnin hefur tekið stöðu með Tyrkjum en utanríkisráðherra Ungverjalands segir að stjórn landsins staðfesti aðild Svía um leið og Tyrkir gera það.

Málið er vandræðalegt á vettvangi NATO þar sem mörgum er mjög misboðið vegna þess að á þennan hátt ali Tyrkir á sundrung innan bandalagsins og spilli fyrir orðspori þess á örlagatímum vegna stríðs í Úkraínu. Svíar hurfu frá 200 ára hlutleysisstefnu sinni þegar þeir lögðu 5. júlí 2022 formlega inn aðildarumsókn sína að NATO.

Ulf Kristersson forsætisráðherra hitti Joe Biden Bandaríkjaforseta í Hvíta húsinu í Washington 5. júlí 2023. Þar áréttaði forsætisráðherrann að Svíum væri „mikið í mun“ að fá aðild sína að NATO samþykkta.

Biden sagði að Svíar myndu leggja mikið af mörkum til bandalagsins og hann styddi eindregið aðild þeirra að því. Jafnframt kom fram forsetinn styddi að Tyrkir fengju að kaupa bandarískar orrustuþotur eins og þeir hafa lengi viljað. Fréttaskýrendur velta fyrir sér hvort ákvörðun um að leyfa Tyrkjum flugvélakaupin breyti afstöðu Erdogans til Svía.

Framkvæmdastjóri NATO

Í aðdraganda ríkisoddvitafundarins hafa verið umræður hver taki við af Jens Stoltenberg sem framkvæmdastjóri NATO en starfstími hans var framlengdur um eitt ár í fyrra. Allt lék um tíma á reiðiskjálfi meðal danskra stjórnmálamanna og fjölmiðlamanna vegna vangaveltna um hvort Mette Frederiksen, forsætisráðherra Dana, yrði valin framkvæmdastjóri.

Eftir að hún heimsótti Washington og hitti Biden, sem fór um hana fögrum orðum, fjaraði undan þessum vangaveltum. Þá beindi Biden athygli sinni að Ursulu von der Leyen, forseta framkvæmdastjórnar ESB, sem segist laus mála gagnvart ESB eftir kosningar til ESB-þingsins sumarið 2024. Er sagt að Jill, eiginkona Bidens, hvetji hann til að tryggja konu í fyrsta sinn NATO-stöðuna.

Um nýjan framkvæmdastjóra NATO verður aðeins rætt í bakherbergjum í Vilníus því að Jens Stoltenberg hefur orðið við óskum um að gegna embættinu eitt ár enn.

Bretar buðu Ben Wallace varnarmálaráðherra fram sem eftirmann Stoltenbergs. Í The Telegraph fimmtudaginn 6. júlí segir að Joe Biden hafi hafnað honum og lýst stuðningi við Ursulu von der Leyen.

Forsetinn vilji ekki Ben Wallace vegna þess að Bretar hafi tilkynnt að þeir ætluðu að þjálfa úkraínska flugmenn til að fljúga F-16 orrustuþotum án þess að hafa fyrst leitað samþykkis forsetans.

Breskir íhaldsþingmenn mega ekki heyra minnst á von der Leyen í tengslum við NATO. Á vefsíðu breska vikuritsins The Spectator, sem stendur nærri Íhaldsflokknum, birtist á dögunum grein undir dulnefni þar sem gert er lítið úr forystuhæfileikum von der Leyen og minnt á að hún hafi veikt mjög þýska herinn sem varnarmálaráðherra í stjórn Angelu Merkel Þýskalandskanslara.

Ben Wallace segist ekki hafa hug á að sækjast eftir NATO-embættinu.

 

 

Skoða einnig

Utanríkisráðherra Póllands hvetur til endurhervæðingar í Evrópu

Evrópuþjóðir verða að gera áætlun til langs tíma um endurhervæðingu til að skapa mótvægi við …