Home / Fréttir / Zelenskíj semur um smíði á sænskum bryndreka

Zelenskíj semur um smíði á sænskum bryndreka

 

Ulf Kristersson, forsætisráðherra Svía, og Volodymyr Zelenskíji Úkraæinuforseti á leið til blaðamannafundar í Harpsund 19. ágúst 2023

Volodymyr Zelenskíj Úkraínuforseti og eiginkona hans, Olena, heimsóttu Svíþjóð laugardaginn 19. ágúst. Þar var gengið frá nýjum samningi milli ríkjanna um að þau stæðu sameiginlega að smíði sænsks bryndreka, Stridsfordon 90 (CV90), í Úkraínu.

„Þetta skiptir okkur mjög miklu,“ sagði Zelenskíj á sameiginlegum blaðamannafundi með Ulf Kristersson, forsætisráðherra Svía.

Fundir forystumannanna voru á opinberu setri sænska forsætisráðherrans í Harpsund fyrir utan Stokkhólm. Þeir ræddu öryggismál, ESB og stuðning Svía við Úkraínu.

„Ég lýsi dýpstu virðingu fyrir þér, úkraínsku þjóðinni og andstöðu ykkar gegn rússnesku innrásinni,“ sagði Ulf Kristersson.

Zelenskíj sagði það mikinn heiður fyrir sig að vera í Svíþjóð og hann þakkaði sænsku þjóðinni og forystumönnum hennar stuðninginn við Úkraínu. Úkraínsku forsetahjónin hittu sænsku konungshjónin.

Úkrínuforseti fagnaði samningnum um heimild til að smíða sænska bryndrekann CV90 í Úkarínu. Lögð yrði áhersla á að taka fyrsta heimasmíðaða tækið í notkun sem fyrst. Hann mæltist einnig til þess að Svíar sendu orrustuþotur af gerðinni JAS Gripen til Úkraínu.

Fyrr í vikunni kynnti sænska ríkisstjórnin 3,4 milljarða SEK (42,5 milljarða ISK) stuðning við Úkraínu, var það í 13. skipti sem samþykkt var að styðja landið en alls hafa Svíar látið 17 milljarða SEK renna til Úkraínu (212 milljarða ISK).

Létti sænski skriðdrekinn CV90.

Stridsfordon 90 (CV90) er léttur beltaskriðdreki sem dugar mjög vel  í snjó og votlendi. Hann getur flutt sex til átta menn í fullum herklæðum. Búa má drekann fallbyssu og búnaði til loft- og skriðdrekavarna, þá eru rafeindatæki hans margbrotin og þaðan er bæði unnt að fylgjast með og stjórna aðgerðum á vígvellinum. Sagt er að nú séu um 1.400 slíkir brynvaagnar í notkun í 17 ólíkum útgáfum. Þeir hafa verið seldir til tíu landa og þar af eru sjö innan NATO.

 

 

Skoða einnig

Sænska þingið samþykkir tvíhliða samstarfssamning við Bandaríkin um varnarmál

Sænska þingið samþykkti tvíhliða samstarfssamning við Bandaríkin um varnarmál þriðjudaginn 18. júní. Víðtækur stuðningur var …