
Volodymyr Zelenskíj Úkraínuforseti sagði síðdegis sunnudaginn 21. maí að hermenn Rússneska sambandsríkisins hefðu ekki hernumið bæinn Bakhmut í austurhluta Úkraínu. Fyrr þennan sama sunnudag sagði forsetinn að Bakhmut væri aðeins til „hjörtum okkar“. Laugardaginn 20. maí sögðust Rússar hafa náð bænum á sitt vald.
Zelenskíj var í Hirósíma í Japan þegar hann sagði Rússa ekki hafa náð Bakhmut á sitt vald. Tók hann þar þátt í fundi leiðtoga sjö iðnríkja heims, G7-ríkjahópsins. Þegar blaðamaður spurði forsetann um stöðuna í Bakhmut svaraði hann: „Eins og staðan er í dag hafa hermenn Rússneska sambandsríkisins ekki hernumið Bakhmut.“
Í frétt Euronews segir að vegna átakanna í stríðinu sé ógjörningur að sannreyna hver staðan sé í Bakhmut þar sem lengsta orrusta stríðsins hafi verið háð. Þá auðveldi misvísandi yfirlýsingar úkraínskra og rússneskra embættismanna ekki neinum að átta sig á stöðunni.
Þegar Zelenskíj svaraði spurningu blaðamanns á ensku fyrr í tengslum við G7-leiðtogafundinn túlkuðu margir orð hans á þann veg að rússneski herinn hefði náð Bakhmut.
„Nú í dag er Bakhmut aðeins í hjörtum okkar. Það er ekkert á þessum stað,“ sagði Zelenskíj þá um bæinn og bætti við að þar væri ekkert að finna nema fjölmarga „dauða Rússa“.
Blóðugir bardagar hafa verið um bæinn í átta mánuði, lengstu og líklega blóðugustu bardagar stríðsins.
Rússneska varnarmálaráðuneytið notaði nafn bæjarins frá sovéttímanum, Artjomovsk, í tilkynningu sinni laugardaginn 21. maí þar sem sagði að liðsmenn Wagner-einkahersins með stuðningi stórskotaliðs og flughers hefðu lokið „frelsun bæjarins Artjomovsk“.
Rússneskir ríkisfjölmiðar vitnuðu til upplýsingadeildar forsetaskrifstofunnar í Kreml og orða Vladimírs Pútins Rússlandsforseta sem hún dreifði. Þar óskar forsetinn Wagner málaliðunum og rússneska hernum til hamingju með að hafa lokið „frelsun Artjomovsk“.
Jevgeníj Prigósjín, foringi Wagner-málaliðanna, setti myndskeið á Telegram samfélagssíðuna þar sem sagði að Bakhmut hefði að fullu komist á vald Rússa um hádegi laugardaginn 20. maí. Hann stóð í hópi nokkurra hermanna á mynd með húsarústir í bakgrunni og heyra mátti sprengjudrunur í fjarlægð.
Zelenskíj lagði í mars áherslu á að Bakhmut yrði varinn. Tækist Rússum að leggja bæinn undir sig gæti það orðið þeim lyftistöng á alþjóðavettvangi. Það kynni að gera stjórninni í Kyív erfitt um vik og knýja hana til að sætta sig við óaðgengilegar kröfur.
Greinendur á stríðsátökunum segja að það yrði högg fyrir Úkraínu að tapa Bakhmut og kynni að veita Rússum eitthvert taktískt forskot en réði ekki úrslitum um niðurstöðu stríðsins.
Bakhmut er 55 km fyrir norðan héraðshöfuðborgina Donetsk sem er í höndum Rússa. Íbúar í Bakhmut voru um 80.000, umhverfis Bakhmut eru salt- og gifsnámur.