Volodymyr Zelenskíj, forseti Úkraínu, sagði fimmtudaginn 23. febrúar, að þjóð sín mundi að lokum hafa betur í stríðinu sem hófst 24. febrúar 2022 þegar Rússar sendu brynvagna úr öllum áttum yfir landamæri Úkraínu og þotur og flugskeyti sprengdu borgir og bæi landsins.
„Við höfum ekki verið brotin á bak aftur, við höfum sigrast á mörgum raunum og við munum standa þetta af okkur. Við munum kalla alla til ábyrgðar sem hafa sýnt okkur þessa grimmd og hafið þetta stríð í landi okkar,“ sagði Zelenskíj á samfélagsmiðli.
Herstjórn Úkraínu tikynnti fimmtudaginn 23. febrúar að Rússar hefðu gert árás nálægt Kupiansk í austurhluta Kharkiv-héraðs og í Luhansk og Donetsk-héruðum en her hennar hefði hrundið árásum Rússa hvarvetna á víglínunni.
Í enn einni ræðunni sem Vladimir Pútin Rússlandsforseti flutti í aðdraganda eins árs afmælisdags stríðsins kynnti hann fimmtudaginn 23. febrúar áform um að taka á þessu ári í notkun nýja langdræga eldflaug búna mörgum kjarnaoddum af Sarmat-gerð.
„Eins og áður munum við beina aukinni athygli að því að styrkja þríeina kjarnorkuheraflann,“ sagði Pútin og vísaði til kjarnavopna á landi, á hafi og í lofti.
„Við munum halda áfram fjöldaframleiðslu á ofurhljóðfráu Kinzhal-flaugunum fyrir flugvélar, við munum hefja fjöldaframleiðslu á Tsirkon-ofurhljóðfráu flaugunum fyrir skip,“ sagði Pútin í tilkynningu sem birt var í Kreml snemma fimmtudaginn 23. febrúar.
Af hálfu Úkraínumanna og vestrænna bandamanna þeirra er þessum ummælum um kjarnorkuvopnin lýst sem tilraunum Pútins til að beina athygli frá óförum hans og hers Rússa á vígvellinum.
Undanfarið hafa Rússar sent hundruð þúsunda varaliða til orrustu á austur og suður landamærum Úkraínu. Vestrænir sérfræðingar telja að fyrir rússnesku herstjórninni hafi vakað að stækka yfirráðasvæði sitt fyrir eins árs afmæli innrásarinnar ¬–það hafi átt að verða afmælisgjöfin til Pútins.
Rússar mjakast áfram við smábæinn Bakhmut en engin merki sjást, enn að minnsta kosti, um stórsóknina.
Herstjórn Úkraínu sagði fyrri hluta fimmtudagsins 23. febrúar að liðsmönnum hennar hefði tekist að hrinda 90 árásum Rússa í norðaustri og austri á einum sólarhring. Það væru bara fastir liðir eins og venjulega.
Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna
Allsherjarþing SÞ kom saman í New York fimmtudaginn 23. febrúar. Talið er víst að þar verði samþykkt ályktun með kröfu um að stríðsaðgerðum í Úkraínu verði hætt.
Úkraínustjórn stefnir að því að auka enn frekar á einangrun Rússa á alþjóðavettvangi með atkvæðum sem flestra þjóða að baki kröfu um að þeir hætti stríðsaðgerðum.
Sendinefnd Rússa hjá SÞ segir að allt jafnvægi skorti í tillöguna sem liggur fyrir allsherjarþinginu.
Antonio Guterres, aðalritari SÞ, fordæmdi miðvikudaginn 22. febrúar innrás Rússa sem brot á stofnsáttmála SÞ og alþjóðalögum.
„Við höfum heyrt óljósar hótanir um beitingu kjarnavopna. Það er algjörlega óviðunandi að einhverjum detti í hug að nota svonefnd vígvallarkjarnavopn. Það er löngu tímabært að menn stigi til baka frá bjargbrúninni,“ sagði Guterres.
Biden fundar í Varsjá
Joe Biden Bandaríkjaforseti átti miðvikudaginn 22. febrúar fund í Varsjá með forystumönnum NATO ríkja á austvæng bandalagsins. Forsetinn fullvissaði fundarmenn um að Bandaríkjastjórn gerði sér ljósa grein fyrir hættunni og öðrum áhrifum af innrás Rússa í Úkraínu.
Ríkjahópurinn er kallaður B9 löndin innan NATO og stendur B fyrir Búkarest, höfuðborg Rúmeníu. Í hópnum eru Búlgaría, Eistland, Lettland, Litháen, Pólland, Rúmenía, Slóvakía, Tékkland og Ungverjaland.
„Þið eruð framlína sameiginlegra varna okkar,“ sagði Biden á fundinum. „Og ykkur er betur ljóst en nokkrum öðrum um hvað þessi átök snúast og hvað er þar í húfi. Ekki aðeins fyrir Úkraínu heldur fyrir frelsi og lýðræðisríki hvarvetn um Evrópu og um heim allan.“
Hann sagði að hver „þumlungur NATO“ yrði varinn og skuldbindingar þess efnis væru „heilagar“.