Volodymyr Zelenskíj, forseti Úkraínu, ávarpaði fund áhrifa- og fjármálamanna í Davos í Sviss í dag (18. janúar) og sagði um þyrluhrap í úthverfi Kyív í morgun: „Það verða ekki slys í stríði.“ Fjórtán týndu lífið þegar þyrlan hrapaði, af ókunnri ástæðu, til jarðar við leikskóla. Meðal þeirra sem fórust voru innanríkisráðherra Úkraínu og nánir samstarfsmenn hans.
Þegar forsetinn var spurður um slysið sagði að sögn Sky News: „Þetta er ekki slys, þetta má rekja til stríðsins, og stríð hafa á sér margar hliðar. Það verða ekki slys í stríði.“
Fulltrúar úkraínskra yfirvalda munu rannsaka allt sem tengist þessu óvenjulega hrapi Super Púmunnar sem flutti innanríkisráðherrann.
Í fjar-ávarpi sínu í Davos sagði Zelenskíj einnig að staða Úkraínu væri sterk og her landsins mundi ljúka stríðinu. Hann hvatti vestræn ríki einnig til að rétta þjóð sinni og her hjálparhönd.
„Heimurinn má ekki hika, hvorki nú né nokkru sinni,“ sagði forsetinn. Hann hafi hikað 2014 þegar Rússar innlimuðu Krímskaga og líka þegar innrásin var gerð í febrúar 2022.
Þrýstingur eykst jafnt og þétt á Þjóðverja til að knýja þá til að heimila ríkjum sem þeir hafa selt Leopard 2 skriðdreka að senda þá til Úkraínu – þýska stjórnin setti sem skilyrði við sölu skriðdrekanna að þeir yrðu aðeins notaðir af kaupendum.
Olaf Scholz Þýskalandskanslari var á fundinum Davos í dag og var spurður hvers vegna stjórn hans gæfi skriðdrekunum ekki grænt ljós.
Hann svaraði með þeim orðum að Þjóðverjar styddu Úkraínumenn „eins lengi og nauðsyn krefði“ og minnti einnig á aðstoðina sem þeir hefðu þegar veitt. Þjóðverjar vildu þó einnig komast hjá því að stríð yrði „milli Rússlands og NATO“.
Kanslarinn svaraði með öðrum orðum ekki spurningunni um skriðdrekana.
Sérfræðingar segja að þetta hik Þjóðverja megi rekja til sögulegrar arfleifðar og stríðsreynslu Þjóðverja. Þá megi ekki heldur gleyma því að sagan geymi dæmi um að Þjóðverjar sýni Rússum „sérstakan skilning“. Erfitt sé að uppræta þann arf.