Home / Fréttir / Zelenskíj segir 1.300 úkraínska hermenn hafa fallið

Zelenskíj segir 1.300 úkraínska hermenn hafa fallið

Hermaður borinn til grafar í Kyív.

Volodymyr Zelenskíj, forseti Úkraínu, sagði laugardaginn 12. mars að mikið mannfall væri í herliði Rússa á vígvöllunum í Úkraínu.

Ekki liggur fyrir óhlutdræg staðfesting á orðum hans en hann segir að frá 24. febrúar, daginn sem rússneski herinn hélt inn í Úkraínu, hafi Rússar mátt þola mesta mannfall sitt í áratugi.

Hann nefndi enga tölu um látna en sagði að frá föstudegi 11. mars hefðu 500 til 600 rússneskir hermenn lagt niður vopn.

Bandaríkjastjórn segir, að sögn AFP-fréttastofunnar, að alls hafi 2000 til 4000 Rússar fallið í valinn.

Í fyrri viku sagði rússneska herstjórnin að 498 rússneskir hermenn hefðu fallið á vígvellinum,

 • Zelenskíj segir að 1.300 úkraínskir hermenn hafi týnt lífi frá upphafi stríðsins við Rússa. Hann segir að Rússar sendi liðsauka á vígvöllinn.
 • Laugardaginn 12. mars beinist athygli mjög að almennum borgurum sem glíma við að komast úr bæjum og borgum sem Rússar hafa umkringt, þar á meðal frá höfuðborginni, Kyív.
 • Oleksij Kuleba, héraðsstjóri á Kyív-svæðinu, sagði að brottflutningur fólks hefði ekki tekist að morgni laugardagsins vegna bardaga og loftárása. Þegar leið á daginn opnuðust einhverjar glufur fyrir fólk á leið úr borginni.
 • Ástandið er mjög alvarlegt í hafnarborginni Mariupol. Brottflutningur fólks er hindraður og sömu sögu er að segja um ferðir þeirra sem reyna að komast til borgarinnar til að sinna hjálparstarfi.
 • Dmjitro Kuleba, utanríkisráðherra Úkraínu, lýsir ástandinu sem „mesta mannlega harmleik á jarðarkringlunni“.
 • Sagt er að 1.500 almennir borgarar hafi verið drepnir í Mariupol á 12 dögum.
 • Emmanuel Macron Frakklandsforseti og Olaf Scholz Þýskalandskanslari ræddu laugardaginn 12. mars við Vladimir Pútin Rússlandsforseta í síma. Pútin tók ekki í mál að samþykkja vopnahlé.
 • Volodymyr Zelenskíj, forseti Úkraníu, ræddi einnig við Macron og Scholz í síma laugardaginn 12. mars.
 • Sameinuðu þjóðirnar (SÞ) sögðu að Rússar kynnu að hafa gerst sekir um stríðsglæpi í Mariupol og á fleiri stöðum. Ráðist hafi verið á fólk sem reyndi að komast undan sprengjuárásum Rússa í brunakulda í borg án vatns og hita og við matvælaskort. Læknar án landamæra sögðu við AFP að staðan í borginni væri „vonlaus“.
 • Framkvæmdastjórn ESB ætlar að tvöfalda hernaðaraðstoð sína við Úkraínu og hefur lagt til að 500 milljónum evra verði varið til viðbótar í þessu skyni.
 • SÞ segja að alls hafi meira en 2,5 milljónir manna flúið frá Úkraínu frá því að innrásin hófst 24. febrúar.

Skoða einnig

ESB-þingmenn hafna tillögum Orbáns um Úkraínu

Nýkjörið 720 manna ESB-þing kom saman til fyrsta fundar í Strassborg þriðjudaginn 16. júlí og …