Home / Fréttir / Zelenskíj með norrænum leiðtogum í Osló

Zelenskíj með norrænum leiðtogum í Osló

Frá vinstri: Ulf Kristersson, forsætisráðherra Svíþjóðar, Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, Volodymyr Zelensky, forseti Úkraínu, Jonas Gahr Støre, forsætisráðherra Noregs, Sauli Niinistö, forseti Finnlands, og Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur.

Volodymyr Zelenskíj, forseti Úkraínu, kom til Oslóar snemma morguns miðvikudaginn 13. desember eftir næturflug frá Washington þar sem hann ræddi við Joe Biden Bandaríkjaforseta og forystumenn á Bandaríkjaþingi um stuðning í stríðinu við innrásarlið Rússa í Úkraínu.

Þennan sama miðvikudag hittust forseti Finnlands og forsætisráðherrar Danmerkur, Íslands, Noregs og Svíþjóðar á fundi í Osló og færði Zelenskíj þeim sérstakar þakkir fyrir stuðning ríkjanna við Úkraínu.

Í tilkynningu forsætisráðuneytsins um fundinn segir að þar hafi verið rætt um stöðu og horfur í hernaðarátökunum og um friðaráætlun Úkraínu. Í sameiginlegri yfirlýsingu fundarins heita norrænu leiðtogarnir áframhaldandi órofa stuðningi við Úkraínu. Þar er einnig lögð áhersla á að Rússar verði dregnir til ábyrgðar fyrir stríðsglæpi sína í Úkraínu.

Norðurlöndin lýsa yfir fullum stuðningi við áætlun Úkraínu um réttlátan og varanlegan frið. Þá segir í yfirlýsingunni að Úkraína eigi heima í hópi lýðræðisríkja Evrópu og að norrænu ríkin muni áfram styðja Úkraínu til aðildar að Atlantshafsbandalaginu.

Volomydyr Zelenskíj og Katrín Jaobsdóttir í Osló 13. desember 2023.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra átti tvíhliða fund með Úkraínuforseta. Þar ræddu þau m. a. um stuðning Íslands við Úkraínu og frekari tækifæri til og samstarfs, segir ráðuneytið.

Á blaðamannafundi var Zelenskíj spurður um fund sem hann átti með Viktor Orbán, forsætisráðherra Ungverjalands, sunnudaginn 10. desember í Buenos Aires þegar nýr forseti Argentínu var settur í embætti.

Í móttöku vegna innsetningarinnar tókst Zelenskjí að króa Orbán af úti í horni til að ræða við hann um stuðning hans við málstað Vladimirs Pútins Rússlandsforseta á vettvangi NATO og ESB. Hann lýsti samtalinu á blaðamannafundinum í Osló:

„Ég get sagt ykkur að þetta var sérstakur fundur. Ég nefndi að sem nágrannaríki ættum við að geta hist og rætt saman. Ég lagði mig fram um að sýna honum að ég væri jákvæður. Og ég talaði mjög hreint út við hann þegar ég sagði að hann hefði ekki neina ástæðu til að leggja stein í götu aðildar Úkraínu að ESB. Ég bað hann að gefa mér eina ástæðu fyrir því að hann gerði það – ekki tvær, ekki þrjár heldur eina. Ég bíð enn eftir svari.“

Zelesnkíj benti á að það væri einkum veturinn sem hindraði að sótt væri fram á vígvellinum. Allt gengi hægar á þessum árstíma, einnig hjá óvininum.

Zelenskíj hefur ekki komið áður til Noregs. Norðmenn gerðu miklar öryggisráðstafanir vegna komu hans sem haldið var leyndri þar til flugvél hans lenti. Fyrir utan að hitta norrænu leiðtogana fór Zelenskíj í konungshöllina og hitti norsku konungshjónin auk ríkisarfans og konu hans.

 

Skoða einnig

Harðnandi hótanir Pútins og staðfastur stuðningur Bidens

Joe Biden Bandaríkjaforseti er í opinberri heimsókn í París laugardaginn 8. júní. Á fundi með …