Home / Fréttir / Zelenskíj gagnrýnir Kínverja fyrir að styðja stríðsrekstur Rússa

Zelenskíj gagnrýnir Kínverja fyrir að styðja stríðsrekstur Rússa

Volodymyr Zelenskíj flytur ræðu í Singapore 2. júní 2024.

Volodymyr Zelenskíj var harðorður í garð kínverskra stjórnvalda sunnudaginn 2. júní og sakaði þau um að leggja Rússum lið við að grafa undan alþjóðlegri friðarráðstefnu ríkisoddvita um Úkraínu sem boðað er til í Sviss 15. til 16. júní.

Zelenskíj er í Singapore þar sem hann ávarpaði svonefndan Shangri-La-umræðufund þar sem á óformlegan hátt er fjallað um öryggis- og varnarmál á Kyrrahafssvæði Asíu undir forystu Alþjóðahermálastofnunarinnar í London.

Zelenskíj sagði að Rússar nýttu sér áhrif Kínverja á svæðinu og krafta kínverskra stjórnarerindreka þar til að spilla fyrir friðarráðstefnunni sem Úkraínumenn boða í Sviss.

Fréttaskýrendur benda á að óvenjulegt sé að Úkraínuforseti beini spjótum sínum á þennan hátt að kínverskum ráðamönnum eftir að hafa árum saman stigið mjög varlega til jarðar í von um að geta sannfært þá um haldleysi þess að fylgja vináttustefnu „án takmarka“ gagnvart Rússum. Zelenskíj sagði að stjórn sín hefði sannanir fyrir því að Kínverjar veittu Rússum aðstoð í stríði þeirra gegn Úkraínu þó að Xi Jinping Kínaforseti hefði lofað sér í símtali fyrir ári að Kínverjar myndu ekki blanda sér í stríðið.

„Við væntum þess ekki að Kínverjar styðji okkur hernaðarlega. Við höfum aldrei beðið þá. Á hinn bóginn eigum við ekki von á því að Kínverjar styðji við varnir Rússlands,“ sagði Zelenskíj. „Það ræddum við í símtalinu við kínverska leiðtogann. Hann lofaði mér að Kínverjar myndu standa til hliðar, myndu ekki láta Rússum í té vopn. Nú liggja fyrir leynilegar upplýsingar um að einhvern veginn, á einhvern hátt komi eitthvað inn á rússneska markaði frá Kína… hlutir í rússneskan vopnabúnað koma frá Kína.“

Fyrr þennan sama sunnudag sagði Dong Jun varnarmálaráðherra Kína að kínverska stjórnin veitti ekki stríðsrekstri Vladimirs Pútíns neina aðstoð.

Dong sagði í ræðu sinni á Shangri-La-umræðufundinum að Kínverjar hefðu hvorki veitt Rússum né Úkraínumönnum aðgang að vopnum og þeir væru traustir fylgismenn friðar og samtals.

Zelenskíj sakaði Kínverja einnig um að hafna fundi með Úkraínumönnum. Þeir hefðu margoft óskað eftir að fá að hitta Xi Kínaforseta en árangurslaust. Hann hefði ekki hitt neinn Rússa í Singapore.

Zelenskíj sagði að staðfest væri að fulltrúar 106 ríkja yrðu á friðarráðstefnunni í Sviss. Kínverjar segjast ekki senda fulltrúa á ráðstefnuna vegna þess að Rússum sé ekki boðið þangað. Hafa Kínverjar þess í stað hreyft þeirri hugmynd að þeir bjóði sjálfir til friðarráðstefnu með þátttöku Rússa og Úkraínumanna. Í liðinni viku gaf Sergeij Lavrov utanríkisráðherra Rússlands til kynna að rússnesk stjórnvöld væru hlynnt þessari hugmynd.

Á blaðamannafundi í Singapore var Zelenskíj spurður hvort Úkraínustjórn myndi senda menn á slíka ríkisoddvitaráðstefnu. Hann svaraði að ráðamenn Kína ættu ekkert með að kalla til slíkrar ráðstefnu.

Zelenskíj hefur verið á ferð og flugi um allan heim undanfarið og hvatt stjórnarleiðtoga til að sækja ráðstefnuna í Sviss eftir tvær vikur. Hann segist vilja ræða þrjú höfuðmál: kjarnorkuöryggi, fæðuöryggi og frelsun stríðsfanga auk barna frá Úkraínu sem Rússar hafa numið á brott.

Heimild: Politico

Skoða einnig

Kjarnorkuknúinn Norðurflotakafbátur í fyrstu ferð sinni um N-Atlantshaf til Kúbu

Fjögur skip úr rússneska Norðurflotanum, þar á meðal há-nútímalegur, vel vopnaður kjarnorkuknúinn kafbátur, verða í …