Home / Fréttir / Zelenskíj fagnað sem hetju í Washington

Zelenskíj fagnað sem hetju í Washington

Að baki Zelenskíj í ræðustól Bandaríkjaþings halda þingforsetar á gjöf hans, árituðum fána Úkraínu.

Volodymyr Zelenskíj, forseti Úkraínu, senri aftur til Evrópu fimmtudaginn 22. desember eftir að hafa daginn áður verið í Washington, höfuðborg Bandaríkjanna, á fundum með Joe Biden forseta og bandarískum þingmönnum. Við komuna til Póllands síðdegis með flugvél bandaríska flughersins tók Andrzej Duda, forseti Póllands, á móti Zelenskíj og ræddu þeir saman áður en Úkraínuforseti hélt til Kyív úr fyrstu opinberu utanlandsferð sinni frá því að Rússar réðust inn í land hans fyrir um 300 dögum.

Zelenskíj var fagnað sem hetju þegar hann ávarpaði báðar deildir Bandaríkjaþings á Capitol-hæðinni að kvöldi miðvikudags 21. desember að lokinni heimsókn sinni í Hvíta húsið þar sem hann og Joe Biden Bandaríkjaforseti héldu sameiginlegan blaðamannafund að loknum einkaviðræðum sínum. Úkraínuforseti var í einkennisfötum hers lands síns eins og hann hefur verið síðan stríðið hófst.

Biden hét því að styðja Úkraínumenn í stríðinu við Rússa eins lengi og þess þyrfti. Zelenskíj sagðist ekki sjá hvernig ná mætti „réttlátum friði“ með þeim sem hefðu hagað sér á þann villimannlega hátt sem við blasti þar sem Rússar færu í Úkraínu, eyðilegging og grimmd væri það sem eftir stæði þegar þeir væru hraktir á brott. Kallaði hann Rússland hryðjuverkaland og stjórnendur þess hryðjuverkamenn.

Hvarvetna þar sem Zelenskíj tók til máls á þeim tæpu 10 klukkustundum sem hann dvaldist í Washington færði hann Bandaríkjamönnum „hverjum og einum“ þakkir fyrir fjárstuðninginn við þjóð sína, þar væri ekki um „ölmusu“ að ræða heldur „fjárfestingu“ í hnattrænu öryggi og lýðræði.

Í þingræðunni vék hann að frægum sigurorrustum Bandaríkjamanna eins og þegar þeim tókst að stöðva Ardennasókn (e. Battle of the Bulge) Þjóðverja og hrekja á flótta um áramótin 1944/1945. Var þetta síðasta stórsókn Þjóðverja í annarri heimsstyrjöldinni.

Zelenskíj spáði því að á næsta ári yrðu „þáttaskil“ í átökunum í landi hans „þegar hugrekki Úkraínumanna og staðfesta Bandaríkjamanna tryggir framtíð sameiginlegs frelsis okkar – frelsi þeirra sem standa vörð um eigin gildi“.

Hann sagði að milljarða tugirnir sem runnið hefðu til Úkraínumanna bæði í dollurum og vopnum á þessu ári frá Bandaríkjunum væru Úkraínumönnum lífsnauðsynlegir til að sigrast á Rússum og meiri stuðning þyrfti í framtíðinni.

„Fjármunir ykkar eru ekki ölmusa. Þeir eru fjárfesting í hnattrænu öryggi og lýðræði sem við getum nýtt á mjög ábyrgan hátt.“

Rétt fyrir komu Zelenskíjs tilkynnti Bandaríkjastjórn að hún mundi afhenda Úkraínumönnum hergögn og annað að verðmæti 1.8 milljarða dollara, þar yrði í fyrsta sinn um Patriot-gagneldflaugakerfi að ræða.

Á Bandaríkjaþingi er stefnt að því nú í vikunni að samþykkja nýja fjárhagsaðstoð til Úkraínu, allt að 45 milljörðum dollara.

Þingmenn fögnuðu með dynjandi lófataki þegar Zelenskíj í upphafi komu sinnar í þingsalinn afhenti Kamölu Harris, varaforseta og forseta öldungadeildarinnar, og Nancy Pelosi, forseta fulltrúadeildarinnar, fána Úkraínu sem hafði verið áritaður af hermönnum í víglínuborginni Bakhmut í umdeilda Donetsk héraðinu í austurhluta Úkraínu. Zelenskíj fór þangað þriðjudaginn 20. desember til að heiðra hermennina skömmu áður en hann hélt til Bandaríkjanna. Pelosi endurgalt gjöfina með því að færa Zelenskíj bandaríska fánann sem blakt hafði á þinghúsinu daginn sem hann heimsótti það.

Það fór vel á með forsetunum á blaðamannafundi í Hvíta húsinu.

Á blaðamannafundinum í Hvíta húsinu sagði Joe Biden að Vladimir Pútin virtist ekki hafa nein áform um að „stöðva þetta grimmdarstríð“ og nú ætlaði hann að nota veturinn sem vopn til að brjóta Úkraínumenn á bak aftur.

Zelenskjí sagði að Úkraínumenn mundu aldrei gefast og Biden endurtók oftar en einu sinni að Bandaríkjamenn stæðu með þeim eins lengi og þörf krefði.

Það virtist fara vel á með forsetunum á blaðamannafundinum og slógu þeir á létta strengi þótt viðfangsefnið væri alvarlegt.

 

 

Skoða einnig

Bardagareyndur hershöfðingi settur yfir rússnesku herstjórnina í norðvestri

Þriggja stjörnu hershöfðinginn Aleksandr Lapin var 15. maí skipaður yfirmaður Leningrad-herstjórnarsvæðisins í Rússlandi. Svæðið er …