Home / Fréttir / Yfirnjósnari Dana varar við kínverskum hátæknifyrirtækjum

Yfirnjósnari Dana varar við kínverskum hátæknifyrirtækjum

Lars Findsen, forstjóri njósnastofnunar danska hersins.
Lars Findsen, forstjóri njósnastofnunar danska hersins.

Lars Findsen, yfirmaður njósnadeildar danska hersins, Forsvarets Efterretningstjeneste (FE), segir í forsíðuviðtali við Jyllands-Posten mánudaginn 3. águst, að full ástæða sé til að vara við því að kínversk yfirvöld kunni að koma fyrir eftirlitsbúnaði þannig að þau geti um „bakdyrnar“ fylgst með þeim sem nýta sér kínverskan tæknibúnað. Þannig miðli kínverskir framleiðendur eftirlitsmyndavéla upplýsingum til kínverskra njósnastofnana.

Hann segir að háð sé keppni um virðingu fyrir gildum í heiminum og hún sé meðal annars reist á nýtingu hátæknibúnaðar. Vestrænar þjóðir sem treysti á hugsjónir frelsis og lýðræðis búi við vaxandi samkeppni frá þjóðum sem búi við aðra stjórnarhætti, aðrar hugsjónir og önnur viðhorf til þess að setja hömlur á eigin borgara. Í sumum ríkjum sé eftirlitstækni beitt gagnrýnislaust gegn borgurum ríkjanna.

Sé ekki gætt varúðar og gengið fram með fullri aðgát sé unnt að opna erlendum njósnurum aðgang við kaup á tæknibúnaði frá löndum þar sem gildismatið er allt annað. Þá kunni menn einnig óafvitandi að leggja þeim stjórnvöldum lið sem kúga íbúa eigin lands. Loks kunni einnig að vera stuðlað að því að „rangur aðili“ nái að einoka ákveðna tækni og þar með öðlast mikið vald.

Lars Findsen vill gjarnan að einstaklingar, fyrirtæki og opinberir aðilar velti málum vel fyrir sér og hafi baráttu um gildi í huga þegar teknar séu ákvarðanir.

Rifjað er upp að fyrir skömmu birti Jyllands-Posten frétt um að danski herinn og borgarstjórn Árósa hefðu keypt tæki af Hikvision, kínversku fyrirtæki sem framleiðir eftirlitsbúnað. Hikvision hefur komið að umfangsmiklu eftirliti með Uighurum í Norðvestur-Kína sem eru ofsóttir af kínverskum stjórnvöldum. Þá eru vörur fyrirtækisins á bannlista í Bandaríkjunum. Segja bandarísk stjórnvöld að fundist hafi „bakdyr“ á tækjum frá Hikvision. Danska blaðið Politiken segir í frétt að danskir sérfræðingar hafi veitt Hikvision aðstoð við að gera algrím (algoriðma) sem geti auðveldað kínverskum yfirvöldum að ofsækja fólk.

Lars Findsen segir að vissulega hljóti menn að líta til þess hve Kínverjar standi framarlega í framleiðslu og sölu á hvers kyns hátæknibúnaði. Á hinn bóginn verði einnig að líta til kínverskrar löggjafar sem skyldar einkarekna og opinbera aðila til samstarfs við kínverskar njósnastofnanir við ákveðnar aðstæður. Lögin heimili kínverskum njósnastofnunum að skylda fyrirtæki, stofnanir og einstaklinga til að afhenda upplýsingar sem taldar eru hafa þýðingu fyrir öryggi Kína.

Njósnastofnanir á Vesturlöndum hafa lýst áhyggjum vegna þessa og sumir vísa til þessara lagaákvæða þegar þeir segja að allar upplýsingar sem séu afhentar kínversku fyrirtæki geti að lokum lent í höndunum á kínverskum njósnurum.

Í Jyllands-Posten er minnt á ágreininginn vegna innleiðingar á 5G-farkerfinu frá kínverska fyrirtækinu Huawei. Bandaríkjastjórn hafi bannað 5G-viðskipti við Huawei og nú hafi breska stjórnin samþykkt að vísa Huawei út í kuldann.

Andstaðan við Huawei sé meðal annars vegna ákvæða kínversku njósnalaganna og skyldu fyrirtækja í Kína til að þjóna kínverskum njósnastofnunum.

Tommy Zwicky, upplýsingastjóri Huawei í Danmörku, segir að lögin séu ekki skilin rétt þegar þetta sé fullyrt um skyldu kínverskra fyrirtækja, upplýsingaskylda þeirra til njósnastofnana takmarkist við starfsemi fyrirtækjanna í Kína.

Þetta sé sambærilegt og í dönskum lögum standi að dómari geti með úrskurði skyldað fyrirtæki til að aðstoða Politiets Efterretningstjeneste (PET), (það er njósnastofnun dönsku lögreglunnar sem starfar innan Danmerkur en FE starfar á vegum hersins utan Danmerkur). Í Danmörku starfi Huawei eftir dönskum lögum auk þess sem stofnandi Huawei hafi afdráttarlaust sagt að heldur muni hann loka fyrirtækinu í Danmörku en taka þátt í njósnum.

Zwicky segir að á Huawei-kerfum séu engar „bakdyr“. Það hafi verið leitað mikið að þeim án þess að þær fyndust, enda séu þær hvergi. Væri um þær að ræða jafngilti það „viðskiptalegu sjálfsmorði“.

Í Jyllands-Posten er minnt á að í blaðinu hafi verið sagt frá því að lífssýni (dna) úr Uighurum hafi verið til rannsóknar í Kaupmannahafnarháskóla í samvinnu við kínverskan lögregluháskóla sem nú sé á bandarískum bannlista vegna ofsókna á hendur Uighurum.

Lars Findsen bendir á einstakir sérfræðingar geti skipt máli í kapphlaupinu sem nú er háð milli ólíkra hugsjónakerfa og þess vegna eigi þeir að huga vel að því með hverjum þeir starfi. Dæmi sýni að ekki sé ætíð sýnd nægileg aðgát.

 

 

 

Skoða einnig

Sameinaður norrænn flugherafli að fæðast

Norrænu ríkin fjögur, Danmörk, Finnland, Noregur og Svíþjóð, hafa ákveðið að dýpka samstarf flugherja sinna. …