Home / Fréttir / Yfirmaður rússneska sjóhersins boðar útþenslu á landgrunni N-Íshafs með stuðningi flotans

Yfirmaður rússneska sjóhersins boðar útþenslu á landgrunni N-Íshafs með stuðningi flotans

Valdimir Pútin og Nikolai Jevmenov

Nikolai Jevmenov, flotaforingi og yfirmaður rússneska flotans, segir forgangsmál Rússa að „að ná fullum yfirráðum“ á norðurskautssvæðum utan 200 mílna efnahagslögsögu Rússlands.

Atle Staalesen, ritstjóri norsku vefsíðunnar Barents Observer, sagði fimmtudaginn 7. desember frá ræðu sem rússneski yfirflotaforinginn flutti á ráðstefnunni Arctic Forum sem Rússar héldu þá í St. Pétursborg en þeir boða til hennar annað hvort ár.

Staalesen segir að Jevmenov hafi tekið af öll tvímæli í þessu efni í ræðu sem hann flutti á ráðstefnunni yfir rússneskum og erlendum stjórnmálamönnum, vísinda- og kaupsýslumönnum. Rússar ætli að stækka yfirráðasvæði sitt við heimskautið og rússneski flotinn muni sjá til þess að þau áform nái fram að ganga.

Ræðan er birt á vefsíðu rússneska hersins og þar áréttar Jevmenov mikilvægi norðurslóða (e. Arctic) fyrir Rússa og leggur áherslu á að svæðið skipti sköpum fyrir þjóðaröryggi Rússa.

Meðal þess sem hann nefnir þegar hann tíundar hagsmuni Rússa eru „full yfirráð á landgrunninu utan marka 200 mílna efnahagslögunnar“.

Hann nefndi einnig sérstaklega Norðursiglingaleiðina, það er á milli Atlantshafs og Kyrrahafs fyrir norðan Rússland, sem hann sagði að yrði að þjóna sem „.þjóðarsamgönguæð“.

Nikolai Jevmenov er yfirmaður rússneska herflotans. Hann býr að margra ára starfsreynslu í Norður-Rússlandi. Hann var yfirmaður rússneska Norðurflotans árin 2015-2019. Bækistöðvar flotans eru á Kólaskaganum austan við Norður-Noreg.

Undir stjórn hans á Norðurflotanum styrktu Rússar sig hernaðarlega á norðurslóðum. Norðurflotinn eignaðist nýja kafbáta og herskip og nýjum herstöðvum var komið á fót lengst í norðri á fjarlægum eyjaklösum eins og Franz Josef-landi og Nýju Síberíueyjum. Hann beitti sér einnig fyrir endurnýjun gamalla herstöðva bæði á rússneska meginlandinu og eyjaklösum undan strönd þess.

Í ræðu sinni á Arctic Forum sagði Jevmenov að Rússar hefðu ekki átt neinn annan kost en að auka flotastyrk sinn í norðri vegna „árásaraðgerða annarra landa“.

Hann fór hörðum orðum um Bandaríkjamenn og bandamenn þeirra fyrir að þrengja að Rússum „með alls konar aðferðum, þar á meðal refsiaðgerðum og hernaðarlegum tækjum“. Í ræðunni minntist hann ekki einu orði á árásarstríð Rússa á Úkraínu.

Rússar hafa lengi gert tilkall til mikilla hafsbotnssvæða í Norður-Íshafi við svonefndan Lomonosovhrygg. Landgrunnsnefnd Sameinuðu þjóðanna (SÞ) hefur ekki lokið mati sínu á kröfum þeirra.

Nikolai Jevmenov virðist sannfærður um að Rússar nái sínu fram á þessu svæði. Gaf hann til kynna í ræðu sinni í St. Pétursborg að nefnd SÞ hefði í ár samþykkt rússneska mælipunkta í Norður-Íshafi.

Atle Staalesen bendir á að eins og málum sé nú háttað sé landfræðilegi norðurpóllinn eða hafsvæðið umhverfis hann utan lögsögu nokkurs ríkis. Yfirráðasvæði nágrannalanda takmarkist við 200 mílna efnahagslögsögu þeirra. Strandríki við Norður-Íshaf krefjist hins vegar lögsögu á landgrunni utan 200 mílnanna eins og heimilt er í hafréttarsáttmála SÞ.

Árið 2009 viðurkenndi landgrunnsnefnd SÞ kröfu Norðmanna um ráð yfir 235.000 ferkílómetrum landgrunns utan 200 mílna efnahagslögsögunnar. Rússar eiga enn í viðræðum við nefndina

Skoða einnig

Rússar við Kharkiv – Úkraínumenn sækja á Krím

Rússar hafa sótt fram á nokkrum stöðum í Úkraínu undanfarna daga en yfirhershöfðingi NATO í …