Home / Fréttir / Yfirmaður norska heraflans segir að halda verði aftur af Rússum í norðri

Yfirmaður norska heraflans segir að halda verði aftur af Rússum í norðri

Erik Kristoffersen, yfirmaður norska heraflans.

„Eitt af markmiðum Pútins með að ráðast inn í Úkraínu var að koma í veg fyrir stækkun NATO en nú stækkar NATO á Norðurlöndunum. Pútin er jafnframt ljóst að engin ógn stafar af norrænu ríkjunum, þau hafa engan hag af árás á Rússland. Í því felst blekking Pútins þegar hann segir að hætta stafi af NATO og flytur samtímis mikinn herafla og stofnar til stríðs,“ segir Erik Kristoffersen, hershöfðingi og yfirmaður norska hersins, í samtali við Gunnar E. Larsen, blaðamann norsku vefsíðunnar ABC-Nyheter þriðjudaginn 27. desember.

„Eins og staðan er núna eru mjög lítill landher eftir á Kólaskaga. Þar voru áður stórfylki og herfylki en nú eru aðeins herflokkar eða minni einingar til varnar mikilvægum rússneskum herstöðvum á Kóla. Auk þess er verið að þjálfa fólk til þátttöku í stríðinu í Úkraínu. Heraflinn í norðri hefur dregist verulega saman og deildir hans hafa einnig orðið verulega illa úti í Úkraínu. Þær hafa misst mikið af tækjum og mönnum,“ segir yfirhershöfðinginn.

Hann er þeirrar skoðunar að margt hafi breyst með innrás Rússa og það líði nokkur tími þar til venjulegur rússneskur herafli nái fyrri styrk. Landherinn hafi orðið fyrir gífurlegu tjóni á hinn bóginn hafi Vladimir Pútin gefið fyrirmæli um kalla skuli út hundruð þúsunda almennra borgara.

„Við sáum hve snemma var kallað saman lið áður en ráðist var inn í Úkraínu, bein hernaðarleg ógn gagnvart Noregi er minni nú en hún var fyrir einu ári. Við getum þó ekki útilokað að undir þrýstingi grípi Rússar til annarra ráða til skapa öryggisleysi. Þeir reyna að spilla fyrir samstöðu ríkjanna í vestri og vilja valda ólgu meðal almennings,“ segir Erik Kristoffersen.

Blaðamaðurinn spyr hvort norski herinn geti stöðvað fjandsamlegan herafla nyrst í Noregi, í Finnmörk, eða hvort draga verði varnarlínu sunnar.

„Norska varnaráætlunin er eins og áður reist á því að við gerum þetta í samvinnu við NATO. Þar er gert ráð fyrir að stöðva árás í norðri og jafnframt taka á móti herafla bandamanna í Ofotfjorden, Trondheimsfjorden og Oslofjorden. Þar höfum við stundað æfingar með bandamönnum okkar og liðsafla frá þeim. Nú skipta þessi sömu svæði máli fyrir Svía og Finna.“

Yfirhershöfðinginn segir að efla verði norska herinn, það verði að fjölga hermönnum til að auka úthaldið. Þá sé þörf fyrir meiri og betri loftvarnir. Norðmenn verði að eignast öflug flugskeytakerfi eins og HIMARS-kerfið sem nú er notað með góðum árangri í Úkraínu. Nauðsynlegt sé að kaupa þyrlur fyrir freigátur flotans og strandgæsluna.

Þetta séu forgangsverkefni núna fyrir norska herinn. NATO-aðildin skipti síðan miklu. „Þegar Svíar og Finnar ganga í bandalagið hækkar varnarþröskuldur Noregs og annarra norrænna landa eða annarra NATO-landa.“

Blaðamaðurinn spyr hvort Norðurlandaþjóðirnar standi betur að vígi eftir allt sem gerst hefur undanfarna tíu mánuði.

„Já, ég er eindregið þeirrar skoðunar. Það hefur gerst mjög mikið undanfarið, einkum eftir að Svíar og Finnar sóttu um aðild að NATO. Við vinnum saman að gerð sameiginlegra varnaráætlana og hvernig við getum samvirkjað herafla okkar í lofti, landi og á hafi úti enn betur. Fyrir utan samvinnu um alhliða varnir og almannavarnir (n. totalforsvaret og totalberedskapen). Það bætir öryggi Noregs og allra Norðurlandanna. Norrænt varnarsamstarf innan ramma NATO verður enn öflugra.“

–Hvernig metur þú ástand öryggismála í Evrópu á þessari stundu?

„Árið 2021 var sérstakt vegna heimsfaraldursins og brottfararinnar frá Afganistan en árið 2022 hefur verið mjög sérstakt. Ástand öryggismála í Evrópu hefur gjörbreyst. Ég fann fyrst fyrir breytingunni í desember í fyrra þegar gripið var til nýrra viðbragðsverkefna innan hersins. Síðan fórum við í jólafrí með það dálítið á tilfinningunni að ef til vill yrði ráðist inn í Úkraínu á nýju ári. Síðan fengum við innrás 24. febrúar, NATO-aðild Svía og Finna, aukna árvekni Norðmanna í norðri og nú í haust vernd mikilvægra mannvirkja á Norðursjó. Þetta hefur því verið ár mikilla viðburða þar sem við í hernum við höfum tekið á málum eins og okkur ber að gera, þar á meðal þjálfun hermanna frá Úkraínu. Allt er þetta gert í skugga þess að Rússar gripu til vopna til að ráðast á Úkraínu að nýju.“

Í lok samtalsins spyr blaðamaðurinn yfirmann norska hersins hvaða áhrif það hafi á hann persónulega að lesa um hryðjuverkasprengjur gegn almennum borgurum í Úkraínu og að stórveldi sé grípi til þunga vopna til að eyðileggja mikilvæg grunnvirki.

Erik Kristoffersen svarar:

„Þetta er vissulega umhugsunarvert. Eitt er að verja okkur hernaðarlega. Samfélagið er algjörlega háð mikilvægum grunnvirkjum, einnig til að starfsemi þess virki í stríði. Af því sem gerist í Úkraínu má draga lærdóma sem unnt er að yfirfæra á Noreg og hvernig við ætlum að verjast. Að Rússar ráðist af svo miklum þunga á borgaraleg grunnvirki hlýtur að hafa áhrif á okkur. Það sýnir hve langt Pútin og forystusveit hans er reiðubúin að ganga til að vinna sigur. Hjá báðum aðilum falla hermenn og særast, tölurnar eru háar, áhrifin á almenna borgara eru þó verst. Í mínum huga staðfestir þetta aðeins að það mikilvægasta sem við gerum, bæði af hálfu hersins og NATO, er að koma í veg fyrir að það verði stríð. Við verðum að tryggja að það verði aldrei aftur á norskri jörð.“

 

 

Skoða einnig

Harðnandi hótanir Pútins og staðfastur stuðningur Bidens

Joe Biden Bandaríkjaforseti er í opinberri heimsókn í París laugardaginn 8. júní. Á fundi með …