Home / Fréttir / Yfirmaður landhers Bandaríkjanna boðar fjölgun hermanna í Evrópu

Yfirmaður landhers Bandaríkjanna boðar fjölgun hermanna í Evrópu

 

Ray Odierno
Raymond Odierno hershöfðingi, yfirmaður landhers Bandaríkjanna.

 

Raymond Odierno, hershöfðingi, herráðsforingi landhers Bandaríkjanna, sagði föstudaginn 10. júlí við fréttaritara The Wall Street Journal (WSJ) í París, að hann vildi hverfa frá áformum Bandaríkjastjórnar um að fækka bandarískum hermönnum í Evrópu. Hann stefndi að því að fjölga bandarískum hermönnum í álfunni og auðvelda þannig að nota mætti aukinn herstyrk í austurhluta álfunnar á hættutímum.

Hershöfðinginn sagði í samtalinu við WSJ að hann vildi fjölga hergögnum í Þýskalandi, þar á meðal skriðdrekum og brynvörðum liðsflutningabílum í þágu eins bandarísks stórfylkis um 3.500 manns. Það mundi auka viðbragðsflýti hersins á hættutímum. Þetta félli vel að áformum bandaríska varnarmálaráðuneytisins um að fjölga hergögnum í austurhluta Evrópu.

Hann sagði að hergögnin í austri yrðu reglulega notuð af smærri hópum til æfinga en hergagnageymslur í Þýskalandi mundu nýtast á hættutímum. Vegna þeirra yrði auðveldara en ella að fljúga með stórfylki frá Bandaríkjunum til Evrópu. Lokaákvörðun um fjölda og gerð hergagna hefur ekki verið tekin.

Odierno sagði einnig að hann hefði í huga að tilnefna 4th Infantry Division Fjórðu herdeild fótgönguliða í Colorado-ríki (17.000 til 21.000 manns) sem svæðisher í Evrópu. Í tilnefningunni felst að stórfylki herdeildarinnar, þyrlur og birgða- og flutningasérfræðingar mundu starfa reglulega í Evrópu til að tryggja öryggiskröfur.

Um þessar mundir er eitt stórfylki í Gerogíu-ríki tilnefnt til starfa í Evrópu. Hershöfðinginn sagði að það tæki tvö ár að hrinda áformum sínum í framkvæmd en að þeim tíma loknum yrðu fleiri hermenn en nú til taks vegna aðgerða og æfinga í Evrópu. Greiningafræðingar herdeildarinnar gætu þá lagt mat á afstöðu Rússa og hugsanlega hættu af þeirra hálfu auk þess sem sérfræðingar gætu búið í haginn fyrir starf herdeildarinnar í Evrópu.

Í WSJ segir að yfirmenn bandaríska hersins hafi undanfarið varað af auknum þunga við hættu af Rússum. Joseph Dunford, hershöfðingi og yfirmaður landgönguliðs Bandaríkjanna, næsti formaður herráðs Bandaríkjanna, sagði fimmtudaginn 9. júlí: „Mesta hætta að þjóðaröryggi okkar stafar frá Moskvu.“

Heather Conley, sérfræðingur í Evrópumálum hjá Center for Strategic and International Studies (CSIS) í Washington (þar sem Gunnar Bragi Sveinsson flutti erindi og sat fyrir svörum miðvikudaginn 1. júlí) sagði við WSJ: „Innan varnarmálaráðuneytisins hugsa menn allt öðru vísi en áður um hættuna af Rússum, það er mikið fagnaðarefni.“

Conley fór lofsamlegum orðum um framtak Odiernos hershöfðingja en sagði að í varnarmálaráðuneytinu yrðu menn að meta alla stöðu heraflans í Evrópu og ákveða hvort nauðsynlegt væri að færa fleiri hersveitir austar. „Viljum við bregðast við því sem gerst hefur eða viljum við grípa til aðgerða sem fæla þann frá sem íhugar illvirki með því að senda honum skýr skilaðboð?“ spurði hún.

Odierno hershöfðingi sagði að kæmi til hernaðarátaka milli Rússa og NATO mundu Bandaríkjamenn ekki reiða sig á þær fámennu liðsveitir sem þeir ættu í Póllandi og Eystrasaltsríkjunum. Þeir mundu þess í stað nota hersveitir frá Bandaríkjunum og hergögn í geymslum í Evrópu. „Við vonum að Rússar [stofni ekki til átaka] en við verðum allaf að vera til taks,“ sagði Odierno. „Við verðum að huga að leiðum til að styrkja sveitirnar sem eru í fremstu línu.“

Odierno hershöfðingi var í París föstudaginn 10. júlí til að skrifa undir samning við franskan starfsbróður sinn, Jean-Pierre Bosser hershöfðingja, um frekari sameiginlegar æfingar landherja Bandaríkjanna og Frakklands.

Með komunni til Parísar lauk ferð bandaríska hershöfðingjans til Litháens, Úkraínu og Þýskalands. Hann sagði að bandaríski herinn gæti lagt meira af mörkum til að auðvelda stjórnvöldum í Kænugarði að verjast sókn Rússa inn í Úkraínu. Meira samstarf um æfingar kynni að halda aftur af Rússum.

 

 

Skoða einnig

Spenna í Íran á eins ár minningardegi Amini sem lögregla myrti vegna skorts á höfuðslæðu

Íranir heima og erlendis minnast þess laugardaginn 16. september að eitt ár er liðið frá …