Home / Fréttir / Yfirmaður Evrópuherstjórnar NATO varar enn á ný við framgöngu Rússa

Yfirmaður Evrópuherstjórnar NATO varar enn á ný við framgöngu Rússa

Philip M. Breedlove, yfirmaður Evrópuherstjórnar NATO.
Philip M. Breedlove, yfirmaður Evrópuherstjórnar NATO.

Philip M. Breedlove. flughershöfðingi og yfirmaður Evrópuherstjórnar NATO, sagði á fundi með blaðamönnum í bandaríska varnarmálaráðuneytinu í Washington föstudaginn 30. október að enn ykjust hernaðarlegar áskoranir í Evrópu og þær yrðu stöðugt flóknari.

„Í raun er ekki of fast orði kveðið að segja að staðan breytist næstum á hverjum degi,“ sagði hershöfðinginn með nýjum ógnum í einhverri mynd. Vegna þess hve staðan væri flókin skipti meira máli en ella að lögð væri rækt við nána samvinnu við bandalagsríkin í NATO og samstarfsaðila þeirra.

Hann sagði að yfirgangssemi Rússa og vond áhrif þeirra ylli enn sem fyrr mestum áhyggjum og mest athygli beindist að framgöngu Rússa. Þótt vopnahlé væri virt í austurhluta Úkraínu sýndu Rússar engan vilja til að binda enda á hernám sitt eða virða skuldbindingar sínar gagnvart Úkraínumönnum.

Þá vekti íhlutun Rússa í Sýrland fleiri spurningar en svör. „Rússar ganga fram með þeim hætti að það ýtir enn frekar undir fjöldaflótta og straum aðkomufólks sem veldur bandamönnum okkar í suðri auknum áhyggjum og í austri hafa bandamenn okkar áhyggjur af útþenslu Rússa,“ sagði Breedlove. „Þessar áhyggjur auk ferða erlendra vígamanna skapa strategíska ógn fyrir alla Evrópu. […] Ég er sömu skoðunar og áður að við verðum að efla  fælingarmátt okkar og NATO verður áfram að laga sig að ástandinu með auknum viðbragsflýti og afli.“

Breedlove minnti á hina miklu heræfingu NATO, Trident Juncture, sem nú fer fram á Ítalíu, Spáni og í Portúgal með þátttöku 36.000 hermanna frá 30 löndum. Með æfingunni sýndi NATO getu sína og staðfestu.

Hershöfðinginn sagði að staðan í Sýrlandi hefði orðið flóknari með íhlutun Rússa. Þeir færu í raun ekki leynt með að þeir gerðu árásir á hófsama andstæðinga Bachars al-Assads Sýrlandsforseta og aðra hópa í norðurhluta Sýrlands. Þetta vekti spurningar um framvindu mála í landinu.

„Ég held að öllum sé ljóst að skipta verður um pólitíska forystu í Sýrlandi. Hinir hófsömu stjórnarandstæðingar eru í hópi þeirra sem vilja knýja fram þá pólitísku ákvörðun. Við teljum að það sem Rússar gera núna stuðli að lengri átökum og þar með einnig að biðin eftir lausn á vanda fólksins sem flýr til Evrópu  og annarra staða lengist.“

Nokkur vandi felst í því að mati Breedloves að augu heimsins beinast frá aðgerðum Rússa í Úkraínu að aðgerðum þeirra í Sýrlandi.

„Þetta er leikbragð sem hefur verið notað oftar en einu sinni,“ sagði hann. „Ráðist inn í Krím,  beinið athyglinni frá Krím með innrás í Donbas [austurhluta Úkraínu]. Beinið athygli heimsins frá Donbas með íhlutun í Sýrlandi.“

Hann sagði að líta yrði á aðgerðir Rússa í heild og bregðast við þeim í samræmi við heildarmatið.

Russian actions are part of a larger construct, he said. „We need to be thinking holistically about our response to Russia,“ he added.

 

 

Skoða einnig

Spenna í Íran á eins ár minningardegi Amini sem lögregla myrti vegna skorts á höfuðslæðu

Íranir heima og erlendis minnast þess laugardaginn 16. september að eitt ár er liðið frá …