Home / Fréttir / Spænska stjórnin segir tölvuþrjóta frá Rússlandi og Venesúela blanda sér í Katalóníu-deiluna

Spænska stjórnin segir tölvuþrjóta frá Rússlandi og Venesúela blanda sér í Katalóníu-deiluna

Íñigo Méndez de Vigo, upplýsingafulltrúi spænsku ríkisstjórnarinnarþ
Íñigo Méndez de Vigo, upplýsingafulltrúi spænsku ríkisstjórnarinnarþ

Íñigo Méndez de Vigo, upplýsingafulltrúi spænsku ríkisstjórnarinnar, og María Dolores de Cospedal, varnarmálaráðherra Spánar, staðfestu að loknum ríkisstjórnarfundi í Madrid föstudaginn 10. nóvember að tölvuþrjótar frá Rússlandi og Venesúela hefðu blandað sér í ástandið í Katalóníu. Málið yrði lagt fyrir fund utanríkisráðherra ESB-ríkjanna mánudaginn 13. nóvember.

„Þetta er alvarlegt mál þar sem lýðræðið verður að standast ögranir nýrrar tækni,“ sagði Méndez de Vigo við blaðamenn. Alfonso Dastis, utanríkisráðherra Spánar, mundi ræða málið á fundi ESB-utanríkisráðherra nk. mánudag. „Við teljum að ESB verði að líta þetta mál mjög alvarlegum augum. Það er ólíðandi að erlend öfl, utanaðkomandi, sem við vitum ekki hverjir eru vilji breyta stjórnskipulaginu,“ sagði hann.

María Dolores de Cospedal varnarmálaráðherra sagði: „Ríkisstjórnin hefur sannreynt þá staðreynd að mörg skilaboð og aðgerðir sem hafa birst á samfélagsmiðlum koma frá rússnesku yfirráðasvæði. Og ég nota rétt orð: rússnesku yfirráðasvæði. Í því felst ekki endilega að við teljum þetta rússnesku ríkisstjórnina. Í því efni verðum við að sýna aðgát. Við verðum að vera viss um upphafið. Þau eru að hluta frá rússnesku yfirráðasvæði, að hluta frá öðrum stað, það er utan ESB. Við erum að ákvarða það á þessari stundu.“

Í spænska blaðinu El País segir að tölvuþrjótar frá Rússlandi og Venesúela hafi birt falskar eða brenglaðar fréttir frá Katalóníu og frá Spáni. Til dæmis var ranglega fullyrt í einni frétt að íbúar á Mallorka og eyjunum þar um kring styddu sjálfstæði Katalóníu. Þá hefði verið sagt í annarri að spænska væri ekki lengur kennd í skólum Katalóníu.

El País segir að spænska ríkisstjórnin og allir helstu stjórnmálaflokkar landsins séu sammála um að Rússar hafi blandað sér stjórnskipunardeiluna vegna sjálfstæðiskrafna Katalóníu. Opinberlega hafi ríkisstjórnin þó til þessa ekki gefið neitt út um málið.

Alfonso Dastis utanríkisráðherra sagði einnig föstudaginn 10. nóvember að fyrir lægju „nokkuð áreiðanlegar frásagnir“ sem sýndu að hópur rússneskra tölvuþrjóta ynni að því að „grafa undan stöðugleika“ innan Evrópusambandsins. Ráðherrann ræddi við COPE-útvarpsstöðina og sagði: „Rússneskir aðilar eða tölvuþrjótar standa að baki einhverju sem er ekki einungis beint gegn Spáni heldur stefnt gegn stöðugleika innan ESB.“ Ráðherrann sagði að Rússar hefðu haft áhuga á þessu „um nokkurt skeið“ þar sem þeim „liði ekki vel“ vegna „einhugarins“ innan ESB.

Yfirmaður Evrópuherstjórnar NATO gagnrýnir Rússa fyrir íhlutun í málefni Katalóníu

 

Bandaríski hershöfðinginn Curtis Scaparrotti, yfirmaður herafla NATO í Evrópu,
Bandaríski hershöfðinginn Curtis Scaparrotti, yfirmaður herafla NATO í Evrópu,

Bandaríski hershöfðinginn Curtis Scaparrotti, yfirmaður herafla NATO í Evrópu, krafðist þess af Rússum fimmtudaginn 9. nóvember að þeir „hættu að blanda sér í“ kosningar og atkvæðagreiðslur í Evrópu.

AFP-fréttastofan sagði frá þessu föstudaginn 10. nóvember og jafnframt að í spænskum fjölmiðlum hefðu birst ásakanir um að fjölmiðlar á vegum rússneskra stjórnvalda ýttu undir sundrung í Katalóníu eftir atkvæðagreiðsluna þar um sjálfstæði 1. október sem spænska ríkisstjórnin telur ólögmæta.

Scaparrotti sagði að Bandaríkjamenn hefðu kynnst „illviljuðum áhrifum Rússa“ og þeirra hefði einnig gætt í nýlegum kosningum í Evrópu.

„Þeir ættu að hætta að blanda sér ákvarðanir fullvalda þjóða þegar þær taka ákvarðanir um hvernig þeim skuli stjórnað,“ sagði hershöfðinginn á blaðamannafundi í Brussel í tengslum við fund varnarmálaráðherra NATO-ríkjanna.

Jim Mattis, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, sagði að ráðherrar NATO-ríkjanna hefðu „rætt ítarlega um stöðuga viðleitni Rússa um þessar mundir til að blanda sér í fullveldisrétt okkar og lýðræðislega stjórnarhætti“.

AFP segir að upplognar fréttir og falsaðar myndir hafi verið settar víða á netið og þær hafi ýtt undir vandræðin í Katalóníu eftir 1. október.

Þegar Scaparrotti var spurður að því hvort hann teldi ástandið Katalóníu veikja stöðu Spánar sem mikilvægs NATO-ríkis sagði hann aðgerðir eins og þær sem beitt hefði verið í Katalóníu hefðu sést í öðrum löndum. Að sínu mati væri þetta aðferð til að „grafa undan stöðugleika“.

„Við hvetjum Rússa til að halda sig innan þeirra marka sem talin eru hæfileg í alþjóðasamskiptum og til að virða fullveldisrétt hverrar þjóðar til að ákveða eigin stjórnarhætti og hvernig stjórn landa þeirra er háttað,“ sagði Scaparrotti.

 

 

Skoða einnig

Úkraína hefur aldrei staðið nær NATO

Tveggja daga fundi utanríkisráðherra NATO-ríkjanna lauk í Brussel miðvikudaginn 29. nóvember. Þar var fjallað um …