Home / Fréttir / Yfirhershöfðingi Svía: Allir verða að búa sig undir stríð

Yfirhershöfðingi Svía: Allir verða að búa sig undir stríð

Micael Bydén, yfirmaður sænska heraflans.

 

Allir Svíar verða að búa sig undir að það verði stríð í Svíþjóð, sagði Micael Bydén, yfirmaður sænska heraflans, í samtali í morgunþætti sjónvarpsstöðvarinnar TV4 mánudaginn 8. janúar.

Ummælin lét hann falla á sama tíma og talað er opinberlega um það á vettvangi sænskra stjórnmála að Svíar verði að búa sig undir að Vladimir Pútin Rússlandsforseti fylgi eftir hótunum sínum gegn öryggi lands þeirra.

„Við verðum að skilja hve alvarlegt þetta ástand er í raun og veru og nauðsynlegt er að hver og einn undirbúi sig andlega,“ sagði Micael Bydén í samtalinu við TV4.

Yfirhershöfðinginn hvetur alla Svía til að leiða hugann að því hvað þeir myndu gera ef Svíþjóð stæði í sömu sporum og Úkraína frá því að Rússar réðust inn í landið.

„Lítið á fréttirnar frá Úkraínu og leggið þessar einföldu spurningar fyrir ykkur: Ef þetta gerist hér hef ég þá tök á því sem gerist? Hvað á ég að gera? Styrkur samfélags okkar ræðst af því hve margir hafa leitt hugann að þessu, íhugað það og undirbúið sig,“ sagði Bydén. „Það gerir enginn áætlanir á grundvelli vonar.“

Á vefsíðu Berlingske segir að ummæli sænska yfirhershöfðingjans, sem veki mikla athygli, falli eftir að Carl-Oskar Bohlin, almannavarnaráðherra Svía, hafi um helgina sagt að allir Svíar verði að leggjast á árarnar til að tryggja „mótvægisafl“ Svía.

„Og það ber að hafa hraðar hendur,“ hafði TT-fréttastofan eftir ráðherranum sem sagði einnig: „Margir hafa sagt það á undan mér en nú geri ég það í embættisnafni – það getur orðið stríð í Svíþjóð.“

Hann hefur áhyggjur af því að ekki sé unnið nógu hratt að því að styrkja sænskar almannavarnir. Háum fjárhæðum hefur undanfarið verið varið til hervarna. Þess er vænst að brátt verði Svíþjóð 32. NATO-ríkið.

Ráðherrann hvetur alla stjórnmálamenn, sveitarstjórnir og atvinnurekendur til að „láta hendur standa fram úr ermum“.

Í nafni almannavarna er til dæmis unnið að því að styrkja sjúkrahús og mikilvæg mann- og grunnvirki fyrir utan að tryggja að framleiðsla atvinnufyrirtækja haldi áfram þrátt fyrir stríð.

 

 

 

Skoða einnig

Harðnandi hótanir Pútins og staðfastur stuðningur Bidens

Joe Biden Bandaríkjaforseti er í opinberri heimsókn í París laugardaginn 8. júní. Á fundi með …